Samanta Tina er vonarstjarna Letta í Eurovision 2020


Lettar eru búnir að vera svolítið týndir undanfarin ár í keppninni. Seinast komust þeir í aðalkeppnina 2016, þegar krúttmolinn Justs hlaut náð fyrir augum Evrópu. Síðan þá hefur hvorki gengið né rekið hjá þessum fyrrum sigurvegurum og skiljanlega er fólk þar á bæ orðið örlítið pirrað yfir slæmu gengi landsins og útreiðin undanfarin ár hefur oft á tíðum verið hreinlega óverðskulduð. Til að mynda var lágstemmda en fallega þjóðlagapoppið “Love”, ekki einu sinni blíbb á radar Evrópu í fyrra. Fussumsvei.

En ekki gefast þeir upp, blessaðir og því ber að fagna. Um seinustu helgi fór forkeppnin Supernova fram með pompi og prakt í Riga, og á endanum var það söngkonan Samanta Tina, sem heillaði landa sína upp úr skónum og mun fljúga lettneska fánanum í Rotterdam með lagið sitt „Still breathing“.

Einungis níu lög kepptu til úrslita í Lettlandi að þessu sinni, en þau voru valin úr hópi 28 laga sem komust í gegnum nálarauga lettneska sjónvarpsins. Hrein síma og netkosning almennings réði úrslitunum, en að vanda var smá Idol fílingur á sviðinu, þar sem fjögurra manna dómnefnd, skipuð bæði heimafólki sem og erlendum gestum, sagði sína skoðun á hverjum flutningi fyrir sig. Samanta var allsráðandi í netkosningunni, en í símakosningunni var það hin ofurviðkunnalega Katrina Dimanta, sem við könnumst öll við síðan 2014, þegar hún lék á fiðlu og bakaði myndlíkingaköku með bandinu Aarzemnieki í Kaupmannahöfn, sem hafði tögl og haldir. En samanlögð prósenta úr báðum kosningum leiddi í ljós að Samanta var réttkjörinn sigurvegari Supernova 2020.

Í seinustu tvö skiptin sem Lettland komst áfram upp í aðalkeppnina, var það söngkonan og lagahöfundurinn Aminata Savodogo, sem bar ábyrgðina. Hún samdi og flutti “Love Injected” í Vín 2015 og kom Lettum í topp tíu, og ári seinna samdi hún lagið “Heartbeat” sem Justs og jakkinn hans fluttu með bravúr í Stokkhólmi. Nú er Aminata aftur á ferð, en hún semur “Still Breathing” ásamt Samöntu. Talandi um stórskotalið! Sviðsframkoma Samöntu og bakradda hennar fer sjálfsagt í sögubækurnar, því hann var (afsakið slettuna) fönkí í meira lagi. Samanta var klædd í einn af Prúðuleikurunum, og bakraddirnar voru í þröngum sundbolum, með einhverskonar logsuðugrímur og bleika brúsa fulla af hreinsunarefni. Við ætlum að veðja á að það hafi verið til að pússa grímurnar. Texti lagsins er óður til nútímakonunnar sem nær að halda jafnvægi á öllum vígstöðvum, í heimilis-vinnu og einkalífi. Samanta hafði greinilega réttmæta trú á laginu, og gaf út brjálæðislega flott myndband við það í nóvember, eða heilum þremur mánuðum fyrir keppni.

Samanta sjálf er ekkert bláókunnug aðdáendum Eurovision. Hún hefur fimm sinnum áður tekið þátt í Supernova og einu sinni í litháísku forkeppninni Eurovizijos Atranka og loksins, loksins hafði hún erindi sem erfiði. Fullreynt í fjórða, gerum enn eina tilraun í fimmta og neglum þetta í sjötta, takk fyrir takk. Hún heitir réttu nafni Samanta Polakova og er fædd í lettnesku borginni Turkums fyrir réttum 30 árum. Ferill hennar byrjaði fyrir um áratug síðan, þegar hún vann hæfileikaþáttinn O!Kartes akademija, þar sem fyrstu verðlaun voru námsstyrkur við Tech Music School í Lundúnum. Samanta notaði þann námsstyrk vel, því hún hefur verið óþreytandi síðan. Hefur keppt í ýmiskonar hæfileikaþáttum, bæði heima í Lettlandi sem og í Litháen, unnið eitt stykki moldóvska söngkeppni, lent í öðru sæti í balkneskri söngkeppni, tapað fimm sinnum í Supernova eins og áður sagði, og gefið út nokkur lög undir eigin nafni. Það er þvi alltaf brjálað að gera hjá Samöntu Tinu og það er sko ekkert að fara að breytast í bráðina.

Það er því taktfast bassapopp að hætti Aminötu, með skýr skilaboð Samöntu til kvenna um allan heim, sem mun gera lettneska atlögu að kristalshljóðnemanum í Rotterdam. Munu þær stöllur binda enda á þurrkatímabil Letta í Eurovision? Kemur í ljós, krakkar.