Sanremo Söngvakeppnin, Festival di Sanremo, var haldin í Sanremo á Ítalíu dagana 4.- 8. febrúar síðastliðinn. Keppnin var þá haldin í 70. sinn og því um afmælisár að ræða. Keppnin var fyrst haldin dagana 29.-31. janúar 1951. Frá byrjun hafa lögin sem hafa keppt verið ný og ekki komið út áður. Eurovisionkeppnin er einmitt byggð á þeirri hugmynd, en Marcel Bezencon sem var lengi forstöðumaður EBU fékk hugmyndina að Eurovision byggða á Sanremo keppninni. RAI, ítalska ríkisútvarpið, hefur sent út keppnina frá byrjun. Þær fyrstu fjórar í útvarpi og í sjónvarpi frá árinu 1955. Þegar Ítalir hafa verið með í Eurovision hefur lag úr Sanremo oft farið þangað, en ekki alltaf. Margar alþjóðlegar stjörnur hafa tekið þátt í Sanremo, eins og Louis Armstrong, Stevie Wonder, Paul Anka, Marianne Faithfull, Shirley Bassey og Mungo Jerry. Einnig hafa þekktir Ítalir tekið þátt, ens og Andrea Bocelli og Eros Ramazzotti. Mörg Sanremo lög til sem íslensk jólalög, eins og sjá má í þessum pistli.
Ítölum hefur gengið vel í Eurovision síðustu ár. Þeir fóru aftur að vera með árið 2011 eftir langa pásu frá 1997, unnu þá dómnefndaratkvæðin og símakosninguna árið 2015. Þeir hafa þó ekki farið með sigur af hólmi síðan 1990 þegar Toto Cutugno söng um sameinaða Evrópu og svo unnu þeir líka 1964. Þeir eru með einn besta árangur áratugarins og sérstaklega athyglisvert að árangur Ítala er miklu miklu betri síðustu ár en hjá hinum stóru þjóðunum. Lagið í fyrra, Soldi með Mahmood, náði öðru sæti í Eurovision og varð afar vinsælt víða um Evrópu.
Tuttugu og fjögur lög tóku þátt í Sanremo í ár. Tólf lög voru flutt á þriðjudagskvöld og hin tólf á miðvikudagskvöldið. Almenningur gat kosið en ekkert var gefið upp um úrslit þá. Á fimmtudagskvöldið gafst þátttakendum tækifæri til að taka gömlu og góð Sanremolög og gera að sínu. Á föstudagskvöld fluttu allir svo lagið sitt aftur – eða næstum því. Bugo & Morgan var vísað úr keppni í miðju lagi þar sem þeir höfðu breytt textanum! Já það þarf alltaf að vera smá dramatík! En þetta kvöld gaf dómnefnd stig og þeim er bætt við. Þessi stig voru svo öll opinberuð.
Á laugardagskvöldið voru svo loks úrslit í ansi löngum þætti eins og reyndar öll kvöldin. Þá fengu 23 flytjendur að flytja lögin sín. Atkvæðavægi var þannig að fagdómnefnd, almenningsdómnefnd og símakosning höfðu öll einn þriðja hluta vægi. Sá sem vinnur getur neitað því að taka þátt í Eurovision og er þá gengið á röðina til að finna út þann sem vill hljóta þann heiður. Fyrir lokakvöldið höfðu 16 flytjendur lýst sig tilbúna til að taka þátt í Eurovision fyrir hönd Ítala.
Hér má sjá lista yfir flytjendur og í hvaða sætum lögin enduðu:
- Diodato – Fai Rumore (39,3%)
- Francesco Gabbani – Viceversa (33,9%)
- Pinguini Tattici Nucleari – Ringo Starr (26,8%)
- Le Vibrazioni – Dov’è
- Piero Pelù – Gigante
- Tosca – Ho Amato Tutto
- Elodie – Andromeda
- Achille Lauro – Me Ne Frego
- Irene Grandi – Finalmente Io
- Rancore – Eden
- Raphael Gualazzi – Carioca
- Levante – Tikibombom
- Anastasio – Rosso Di Rabbia
- Alberto Urso – Il Sole Ad Est
- Marco Masini – Il Confronto
- Paolo Jannacci – Voglio Parlarti Adesso
- Rita Pavone – Niente (Resilienza 74)
- Michele Zarrillo – Nell’Estasi O Nel Fango
- Enrico Nigiotti – Baciami Adesso
- Giordana Angi – Come Mia Madre
- Elettra Lamborghini – Musica (E Il Resto Scompare)
- Junior Cally – No Grazie
- Riki – Lo Sappiamo Entrambi
Þarna má sjá að meðal flytjenda eru kunnugleg nöfn. Raphael Gualazzi sem flutti lagið Madness of Love í Eurovisionkeppninni 2011 og endaði í öðru sæti eftir að hafa fengið flest stig frá dómnefndunum það árið. Fransesco Gabbani var líka að keppa aftur, þó ekki með górillu sér við hlið eins og 2017. Einnig voru þarna gamlir sigurvegarar Sanremo keppninnar sem kepptu þó ekki í Eurovison, Marco Masini (1990, 2004), Tosca (1996) og Michele Zarrillo (1987).
Að lokum kepptu efstu þrjú lögin í svokölluðu Superfinal. Það má sjá hvernig atkvæðin skiptust milli þeirra hlutfallslega hér að ofan. Í þriðja sæti endaði hljómsveitin Pinguini Tattici Nucleari eða „taktískar kjarnorkumörgæsir“ með lagið Ringo Starr. Sveitin var stofnuð fyrir 10 árum síðan og er popp og rokksveit. Sveitin er frá borginni Bergamo og meðlimir hennar eru Riccardo Zanotti, Nicola Buttafuoco, Lorenzo Pasini, Simone Pagani, Matteo Locati og Elio Biff.
Í öðru sæti varð Franceso Gabbani með lagið Viceversa sem mætti þýða sem Hins vegar. Hann hefur verið í tónlist í 20 ár og sérstaklega aktívur síðan árið 2009. Franceso var að keppa aftur en hann var fulltrúi Ítala árið 2017 með lagið Occidentali’s Karma og endaði í 6. sæti, en hafði verið spáð sigri framan af keppni. Franscesco var líka efstur í veðbönkum seinnipartinn á laugardag og þótti þá líklegastur til að vinna Sanremo 2020.
Sigurvegarinn var hins vegar Antonio Diodato með lagið Fai rumore eða Þú ert með hávaða. Diodato hefur samþykkt að taka þátt í Eurovision og verður því fulltrúi Ítala í Rotterdam í maí. Það er hins vegar ekki komið á hreint hvort það verður þetta lag. Diodato er fæddur árið 1981 og hefur verið virkur í tónlist frá árinu 2007 og gefið út 2 plötur. Lagið er eftir hann og Edwyn Roberts. Það mun einnig koma út á plötu Diodatos Che vita meravigliosa.