Montaigne og útvarpsvæna trúðapoppið til Rotterdam fyrir Ástralíu


Meðan við Íslendingar vorum að gíra okkur upp fyrir fyrri undankeppnina í Söngvakeppninni aðfaranótt laugardagsins og sváfum flest á okkar græna, voru vinir okkar í Ástralíu í óðaönn við að velja sitt framlag til Eurovision í Rotterdam.

Ástralska undankeppnin Australia Decides er orðin ein af stærri og flottari undankeppnunum sem boði eru á vertíðinni og úrslitakvöldið í Sidney var engin undantekning. Það var svo sannarlega öllu tjaldað til og greinilegt að Ástralir gefa allt sitt þegar kemur að því að kjósa sér verðugan fulltrúa.

Tíu lög kepptu til úrslita og eftir æsispennandi keppni var það loks söngkonan Montaigne sem hampaði titlinum, eftir ógleymanlegan flutning á “Don´t break me”. Hún hafði þar með betur en söngkonurnar Vanessa Amorosi, sem margir höfðu spáð sigri og Casey Donovan (ekkert skyld Jason) sem er vel þekkt og virt söng- og leikkona í Ástralíu.

Kosningin skiptist til helminga á milli sérvalinnar dómnefndar og svo símakosningar almennings. Montaigne rústaði dómnefndarkosningunni og hafði 54 stig upp úr krafsinu, heilum 12 stigum meira en Vanessa Amorosi. Í símakosningunni var það hinsvegar Casey Donovan sem átti hug og hjörtu landa sinna og vann með 60 stig, en Montaigne fylgdi fast á hæla hennar með 53 stig og á endanum voru samanlögð stig úr dómnefndar- og símakosningunni nóg til að krýna hana sigurvegara kvöldsins og fylgir hún þar með í hin epísku fótspor Kate Miller-Heidke, þó svo við séum nokkuð viss um að Montaigne muni halda sig niður á gólfi í flutning sínum.

SBS, sem á veg og vanda af þátttöku Ástrala í Eurovision, var svo ekkert að ráða neinn kreppulýð til að hafa ofan af fyrir mannskapnum í salnum á meðan stig voru reiknuð. Ástralska dívan Dami Im, sem lenti sælla minninga í öðru sæti 2016 og sænski krúttmonsinn og fyrrum sigurvegari Eurovision, Måns Zelmerlöw leiddu saman hesta sína og fluttu lagið “Walk with me” eftir Måns sjálfan, sem hann hafði áður flutt með söngkonunni Dotter. Þar sem hún var pínulítið upptekin við að keppa og komast áfram í Melodifestivalen, fannst monsanum auðvitað gráupplagt að fá Dami til að flytja lagið með sér og það var blátt áfram dýrð og dásemd að sjá þessa tvo viðkunnalegu söngvara saman á sviði.

Montaigne heitir réttu nafni Jessica Alyssa Cerro og er fædd í Sidney árið 1995. Hún hefur verið að gera sína eigin tónlist síðan hún var 16 ára gömul, og sló í gegn í ástralska indípoppheiminum, þegar hún gaf út plötuna Glorious Heights árið 2016 og var tilnefnd til ýmissa verðlauna í kjölfarið og vann t.a.m. verðlaunin sem besti nýliðinn. Hún hefur að mestu leyti daðrað við indípoppið en það er flókið að skilgreina tónlistarstílinn hennar alveg í hörgul. Það má sennilega nota lýsinguna frá einum félaga mínum í Ástralíu. “Hún er svona artí fartí indíbeib”. Já, er það ekki bara? Það er allavega smá Florence and the Machine í bland við Robert Smith úr The Cure í rödd hennar, svo þetta er bara hið besta mál. Montaigne samdi lag og texta sjálf og segir textann endurspegla þá baráttu við að reyna að halda lífi í ástarsambandi sem er löngu útbrunnið og þá uppgjöf og reiði sem fylgir því að þurfa að játa sig sigraðan að lokum. Um leið er þetta sjálfsstyrkingaróður sem gefur þau skilaboð að maður á alltaf að setja sjálfan sig í fyrsta sætið og fjarlægja sjálfan sig úr eitruðum aðstæðum, hversu erfitt sem það kann að vera.

Það er því sannkallaður baráttusöngur, pakkað inn í trúðslegan nútímadans, sem mun halda heiðri Ástrala á lofti í Rotterdamað. Það verður gaman að sjá hvað þessi flotta söngkona með einstaka stílinn mun bjóða upp á þegar hún stígur á sviðið í fyrri undanriðlinum þann 12. maí næstkomandi.