Allt um keppendur Söngvakeppninnar – fyrri undankeppni


Þá hafa lög og keppendur Söngvakeppninnar 2020 verið kynnt. Fjölbreytt keppni stendur fyrir dyrum og góð blanda af nýliðum og reyndara fólki úr bransanum. Undankeppnir Söngvakeppninnar verða haldnar 8. og 15. febrúar í Háskólabíó og síðan verður öllu tjaldað til í úrslitunum í Laugardalshöllinni þann 29. febrúar nk. Kynnar keppninnar í ár eru þau sömu og í fyrra, Benedikt Valsson, Fannar Már Sveinsson og Björg Magnúsdóttir. Fyrirkomulagið verður líka óbreytt frá fyrra ári; 100% símakosning gildir í undankeppnunum og 2 lög komast áfram úr hvorri keppni. Í úrslitum gildir 50% dómnefnd og 50% símakosning. Efstu tveir keppendurnir keppa síðan í svokölluðu einvígi en taka með sér stigin sem gefin voru fyrr um kvöldið. Í einvíginu gildir síðan 100% símakosning.  Framkvæmdastjórn keppninnar hefur sem fyrr val um að velja fimmta lagið í úrslitin, svokallað „Eitt lag enn“. Lee Proud verður listrænn stjórnandi og Kristjána Stefánsdóttir er raddþjálfi Söngvakeppninnar en það er nýjung frá fyrri árum.

Eins og vanalega verða keppendur í Söngvakeppninni að flytja lag sitt á íslensku í undankeppnunum. Í úrslitum skal flytja lagið á því tungumáli sem keppendur hyggjast flytja það á Eurovision í Rotterdam, sigri þeir keppnina. Sex keppendur í ár munu nýta sér þann möguleika að grípa til enskunnar komist þeir í úrslit. Þetta eru Brynja Mary, Elísabet, Ísold og Helga, Daði og Gagnamagnið, Iva og Nína.

Við skulum kafa ofan í hverjir keppa í fyrri undankeppni Söngvakeppninnar.

Ævintýri

Flytjandi: Kid Isak

Lag: Þormóður Eiríksson, Kristinn Óli Haraldsson og Jóhannes Damian Patreksson

Texti: Þormóður Eiríksson og Kristinn Óli Haraldsson

Aaron Ísak Berry, sem notar listamannsnafnið Kid Isak, er nýliði í Söngvakeppninni en ekki svo nýr í bransanum. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa sungið nýja útgáfu af „Ég er eins og ég er“ á Hinsegin dögum í fyrra. Kid Isak sigraði einnig Söngkeppni framhaldsskólanna 2019. Fyrir síðustu jól gaf hann út jólalag með vinkonu sinni Sjönu Rut. Kid Isak lýsir sjálfum sér sem tvítugum, hinsegin, hamingjusömum r‘n‘b söngvara.

Kid Isak er með alvöru menn á bak við sig sem hafa fjöldaframleitt smelli undanfarin misseri. Jóa Pé og Króla þarf ekki að kynna fyrir landsmönnum, þvílíkar ógnarvinsældir sem það dúó hefur notið. Þekki menn ekki B.O.B.A. hafa menn eflaust alið manninn á sandhól á Sahara síðustu tvö árin. Þormóður Eiríksson, framleiðandi og lagahöfundur, er hluti af KBE (Kóp Bois Entertainment) og maðurinn á bak við velgegni Herra Hnetusmjörs, Hugins, Jóa Pé og Króla og Emmsjé Gauta. Það þarf í raun ekki að segja neitt meira um Þormóð annað en að þetta er maðurinn á bak við 36 milljónir spilanir á Spotify.

Það eru örugglega tímamót í Söngvakeppninni þegar vinsælustu tónlistarmenn landsins eru tilbúnir að senda lag til keppni. Þarna má glöggt sjá áhrif Hatara á keppnina sem sprengdi upp hinn ferkantaða kassa sem Söngvakeppnin var búin að marinerast í í nokkur ár. Að því sögðu má leiða getum að því að Þormóður og Króli hafi verið beðnir af RÚV um að semja lag í keppnina en fóru ekki í gegnum dómnefndina sem sigtaði út innsend lög, eða það mátti að minnsta kosti lesa út úr kynningarþætti RÚV sem sýndur var fyrr í kvöld. Þar kom einnig fram að eina markmiðið væri að fólk hefði gaman af laginu og er það ekki einmitt tilgangur Söngvakeppninnar!

Augun þín (In Your Eyes)

Flytjandi: Brynja Mary

Lag: Brynja Mary Sverrisdóttir og Lasse Qvist

Texti: Kristján Hreinsson

Brynja Mary er annar nýliði í Söngvakeppninni og virðist vera tiltölulega óskrifað blað, að minnsta kosti geymir internetið fáar sögur af stúlkunni. Brynja er 15 ára en verður orðin 16 þegar hún stígur á svið 8. febrúar. Í kynningarþætti RÚV kom fram að Brynja byrjaði að semja lög átta ára gömul og Augun þín er lag sem hún samdi þegar hún var 14 ára. Brynja Mary er veraldarvön en hún hefur búið að í sex löndum og talar jafnmörg tungumál. Umfjöllunarefni lagsins er einelti sem hún lenti í þegar hún var yngri og er boðskapurinn að gefast aldrei upp.

Almyrkvi

Flytjandi: DIMMA

Lag: DIMMA

Texti: Ingó Geirdal

Þungarokkshljómsveitin Dimma hefur starfað síðan 2004, á að baki fimm plötur og hefur m.a. spilað með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Bubba Morthens í Hörpu. Söngvara sveitarinnar Stefán Jakobsson þekkja margir enda einn besti karlsöngvari landsins. Ingó Geirdal er heldur ekki bara gítarleikari Dimmu heldur gerir garðinn frægann sem töframaður. Bróðir hans, Silli Geirdal, spilar á bassa í hljómsveitinni en þar er að finna óvænta Eurovision tengingu því konan hans Ólöf Erla Einarsdóttir fór með Gretu Salóme á Eurovision 2016 sem grafískur hönnuður. Egill Örn Rafnsson byrjaði nýlega að tromma með Dimmu (Birgir Jónsson varð örugglega of upptekinn enda búið að ráða hann sem forstjóra Íslandspósts) en hann var m.a. í Sign og er sonur annars þekkts trommuleika, Rabba úr Grafík og Bítlavinafélaginu. Það sem þið vissuð örugglega ekki um meðlimi Dimmu er að fjórir þeirra hafa áður tekið þátt í Söngvakeppninni. Egill Örn og Hjalti Ómar Ágústsson (fyrrum söngvari Dimmu) fluttu lagið Fyrir þig í keppninni ári 2007. Ingó og Silli Geirdal spiluðu á gítar og bassa í laginu Flower of fire sem Andrea Gylfadóttir söng árið 2008 í Söngvakeppninni.

Þátttaka Dimmu ber glöggan Hatara-keim þar sem þungarokkssveitir eru vanalega ekki tengdar Söngvakeppninni. Það er frábært að fá fjölbreytni í Söngvakeppnina og vonandi að fleiri ólíklegir tónlistarmenn geti hugsað sér að prófa Eurovision! Dimma er þekkt fyrir að gera mikið úr sviðsframkomu, hljómsveitarmeðlimir eru í skrautlegum búningum og með mikla ljósasýningu, eld og spreningar. Þau verða því vonandi ekki alvarleg fráhvörfin hjá þeim áhorfendum sem munu sakna Hatara-sýningarinnar!

Elta þig (Haunting)

Flytjandi: Elísabet

Lag: Elísabet Ormslev og Zoe Ruth Erwin

Texti: Daði Freyr

Elísabet Ormslev sækir Söngvakeppnishæfileikana ekki langt enda dóttir Gleðibanka-Helgu Möller. Elísabet komst á kortið hjá landsmönnum með þátttöku sinni í The Voice 2015. Þetta er í annað skiptið sem Elísabet tekur þátt í Söngvakeppninni sem aðalsöngkona en hún söng lag Gretu Salóme Á ný sem lenti í 6. sæti árið 2016. Nú bætir hún um betur því auk þess að vera aðalsöngkona er hún einnig lagahöfundur. Síðasta haust kom út nýtt lag með Elísabetu, Sugar, sem hefur mikið verið spilað á öldum ljósvakans. Það lag varð einnig til í samstarfi Elísabetar og Zöe Ruth Erwin, hinum höfunda Elta þig. Zöe er frá Los Angeles og settist að hér landi fyrir rúmlega tveimur árum. Hún er allt í senn tónlistarframleiðandi, hljóðverkfræðingur, söngkona og lagahöfundur sem vinnur með íslenskum tónlistarmönnum í hljóðverinu sínu út á Granda. Zöe er m.a. þekkt fyrir að hafa samið aðallagið í íslensku bíómyndinni Lof mér að falla. Lagið Elta þig fjallar um eitrað parsamband og er að sögn Elísabetar byggt á eigin reynslu.

Klukkan tifar (Meet Me Halfway)

Flytjendur: Ísold og Helga

Lag: Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson

Texti: Stefán Hilmarsson

Birgir Steinn er eins og frægt er orðið ljósið í myrkrinu sem Stefán Hilmarsson (halló annað Eurovisionfarabarnið í þessari undankeppni!) söng um í lagi sínu Líf frá 1993 og fjallar um fæðingu frumburðarins – sem er einmitt Birgir Steinn. Birgir Steinn hefur látið að sér kveða hin síðustu ár sem afbragðs lagahöfundur og hefur m.a. laginu Can You Feel It verið streymt á Spotify rúmlega 16 milljón sinnum. Birgir Steinn er einn af þessum íslensku tónlistarmönnum sem við höldum alltaf að sé útlenskur þegar við heyrum einn af smellunum hans í útvarpinu. Að eigin sögn hefur Birgir verið beðinn nokkrum sinnum að taka þátt í Söngvakeppninni og í ár á hann tvö lög í keppninni ásamt Ragnari Má Jónssyni.

Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna 2006 og hefur ekki mikið verið að syngja síðustu ár. Hún er flugfreyja af Skaganum og meðlimur í Flugfreyjukór Icelandair (sem Magnús Kjartansson, kunnur þátttakandi úr Söngvakeppninni stjórnar). Helga gaf þó út jólalag fyrir síðustu jól, einmitt í samvinnu við Birgi Stein og Ragnar. Talandi um jólalög; Ísold Wilberg Antonsdóttir, sem syngur lagið með Helgu, vann jólalagakeppni Rásar 2 í desember síðastliðnum með bróður sínum Má Gunnarssyni. Eflaust muna margir eftir Ísold þegar hún keppti í The Voice 2016.

Að sögn fjórmenninganna kom samstarfið til með þeim hætti að Birgir Steinn og Ragnar sáu Helgu syngja Shallow með Ingó Veðurguð i partýi. Þeir voru ekki lengi að tryggja sér hæfileika Helgu fyrir Söngvakeppnina!

 

Allar myndir frá ruv.is.

Uppfært 30. janúar 2020 með upplýsingum um fyrri þátttöku meðlima Dimmu í Söngvakeppninni eftir ábendingu frá Silla Geirdal.