FÁSES meðlimir hafa setið á sætisbríkinni síðustu vikur og beðið eftir að RÚV tilkynnti um höfunda laga og flytjendur þeirra í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2015. Í dag var loks blásið til blaðamannafundar þar sem Söngvakeppnin ástkæra var kynnt – og fulltrar fases.is voru að sjálfsögðu á staðnum.
Undankeppnir Söngvakeppninnar fara fram 31. janúar og 7. febrúar næstkomandi en úrslitakvöldið verður haldið laugardaginn 14. febrúar. Háskólabíó er staðurinn (algjör bömmer að vera ekki í Hörpunni þar sem hún tekur fleiri í sæti) og að sögn kunnugra býðst almenningi pakkadíll á allar þrjár keppnirnar þegar miðasala hefst (að öllum líkindum í næstu viku). Safn föngulegra fljóða mun sjá um að kynna Söngvakeppnina – þær Ragnhildur Steinunn, Salka Sól og Gunna Dís.
Þetta eru lögin 12 sem munu keppa í Söngvakeppninni:
Aldrei of seint
Lag: María Björk Sverrisdóttir, Marcus Frenell og Sarah Reede
Texti: María Björk Sverrisdóttir og Regína Ósk Óskarsdóttir
Flytjandi: Regína Ósk
Þetta lag munu erlendir meðlimir FÁSES fíla – þeir elska Regínu út af lífinu! Fases.is spáir sænskuskotnu popplagi – klassík!
Ást eitt augnablik
Lag og texti: Sveinn Rúnar Sigurðsson
Flytjandi: Stefanía Svavarsdóttir
Fastir liðir eins og vanalega – manni líður bara eins og maður sé kominn heim. FÁSES meðlimurinn Sveinn Rúnar heldur uppi heiðri allra sannra Júróvisjón-aðdáenda.
Brotið gler
Lag og texti: Axel Árnason og Bjarni Lárus Hall
Flytjandi: Bjarni Lárus Hall
Who? Baddi í Jeff Who! Brotið gler eins og í brotið-gler-a-la-Eric-Saade-og-Popular? (frökenar geta nú látið sig dreyma!).
Í viðtali við fases.is sagði Baddi að hann og Axel hefðu verið með tilbúið lag á ensku og ekki vitað í raun hvað þeir ættu að gera við það. Þeir ákváðu að snara textanum yfir á hið ástkæra ylhýra og senda inn í Söngvakeppnina. Og Voilá – lagið féll í kramið. Lagið er víst elektró-rokk og ekki svo fjarri því sem Jeff Who myndi setja á plötu. Við erum spennt, mjög spennt!
Fjaðrir
Lag og texti: Hildur Kristín Stefánsdóttir og Guðfinnur Sveinsson
Flytjandi: SUNDAY (Hildur Kristín Stefánsdóttir, Guðfinnur Sveinsson, Vignir Rafn Hilmarsson og Helga Kristín Ingólfsdóttir)
Eitthvað nýtt og spennó!
Fyrir alla
Lag: Daníel Óliver Sveinsson og Jimmy Åkerfors
Texti: Daníel Óliver Sveinsson og Einar Ágúst Víðisson
Flytjandi: CADEM (Daníel Óliver ásamt Emelie Schytz og Caroline Waldemarsson)
Meira nýtt og spennó!
Í kvöld
Lag og texti: Elín Sif Halldórsdóttir
Flytjandi: Elín Sif Halldórsdóttir
Mun 16 ára menntskælingur taka þetta?
Í síðasta skipti
Lag: Pálmi Ragnar Ásgeirsson, Ásgeir Orri Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson
Texti: Pálmi Ragnar Ásgeirsson, Ásgeir Orri Ásgeirsson, Sæþór Kristjánsson og Friðrik Dór Jónsson
Flytjandi: Friðrik Dór
Klárlega eru StopWaitGo fyrirframgefni sigurvegarinn með Frikka Dór við stýrið – sérstaklega ef unglingar landsins tryggja sinn mann áfram í símakosningunni.
Frikki sagði í viðtali við fases.is að StopWaitGo hefði sérstaklega samið lagið fyrir Söngvakeppnina og farið all-in í Júróvisjón pakkann þetta árið svo fólk megi búast við kraftbölluðu að hætti Johnny Logan (bréfritari kiknar í hnjánum!). Friðrik sagði þó að aðdáendur mættu ekki búast við glimmerskreyttri sviðsframkomu en það væri aldrei að vita nema grafið yrði djúpt fataskápnum efitr hvítum jakkafótum (já beibí!). Honum leist vel á keppinauta sína í Söngvakeppninni og sagði eins og sönnum fegurðardrottningum sæmir að á endanum snúist þetta alltaf um dagsformið á keppnisdegi (en hann voni samt að fólk kjósi sig…).
Lítil skref
Lag og texti: Ásgeir Orri Ásgeirsson, Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson
Flytjandi: María Ólafsdóttir
Annað StopWaitGo lag – þeir eru einu höfundarnir með tvennu í ár.
Milljón augnablik
Lagi: Karl Olgeir Olgeirsson
Texti: Karl Olgeir Olgeirsson og Haukur Heiðar Hauksson
Flytjandi: Haukur Heiðar Hauksson
Diktu-Haukur tekur þátt í Söngvakeppninni í fyrsta sinn, þetta getur ekki klikkað!
Myrkrið hljótt
Lag: Arnar Ástráðsson
Texti: Erna Hrönn Ólafsdóttir
Flytjandi: Erna Hrönn Ólafsdóttir
Það veit bréfritari að ákveðnir meðlimir FÁSES hoppa hæð sína að sjá Ernu Hrönn aftur í Söngvakeppninni – algjör perla sem hún er.
Piltur og stúlka
Lag og texti: Björn Þór Sigbjörnsson, Tómas Hermannsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson
Flytjendur: Björn og félagar (Björn Jörundur Friðbjörnsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Hafrún Kolbeinsdóttir og Pétur Örn Guðmundsson)
Önnur frumraun og nú hjá hinum NýDanska Birni Jörundi. Ofsalega gaman að sjá Pétur Örn, fastagest, enn á ný.
Björn Jörundur var að sjálfsögðu gripinn í viðtal eftir blaðamannafundinn í dag og sagði hann að lagið þeirra félaga hefði verið sérstaklega samið fyrir Júróvisjón enda eigi það heima þar. Lagið sé litríkt, spili inn á allann tilfinningaskalann og endar á “gríðarlegra djúpri fullnægingu, tónlistarlega séð” (aha). Textinn er að ku Björns Jörundar um að allir standi jafnfætis – fyrir staðreyndum lífsins og náttúrunni. Aðspurður um hernaðarplön sviðsframkomunnar sagði hann að allir kraftar hefðu farið í lagið sjálft en nú þyrfti að skrá félagana í dansskóla (hlökkum til að sjá afrakstur þess).
Þú leitar líka að mér
Lag: Ásta Björg Björgvinsdóttir
Texti: Bergrún Íris Sævarsdóttir
Flytjandi: HINEMOA (Ásta Björg Björgvinsdóttir, Rakel Pálsdóttir, Sindri Magnússon, Kristófer Nökkvi Sigurðarson, Gísli Páll Karlsson og Regína Lilja Magnúsdóttir)
Nýjir í bland við þá sem eru ekki eins blautir á bak við eyrun. Gaman væri að fá að vita fyrir hvað HINEMOA stendur fyrir.
Þá er ekkert eftir nema sitja spenntur og bíða…