Hefuru áhuga á Vín 2015?

Til FÁSES-félaga nær og fjær!

fasesLogo2Það haustar hratt og nú hafa borist fréttir um að miðasalan á Eurovision 2015 í Vín verði snemma í ár. Almenna miðasalan hefst um miðjan nóvember og það þýðir að miðasala fyrir aðdáendur verður líka mun fyrr á ferðinni en áður.

Nú stendur yfir könnun á áhuga á miðum hjá FÁSES-félögum. Klúbburinn mun síðan senda niðurstöðurnar til OGAE-aðalskrifstofunnar en raunverulegur áhugi félagsmanna á miðum hefur mikið að segja við úthlutun til allra aðdáendaklúbbanna.

Aðdáendamiðapakkinn samanstendur af miðum á allar þrjár keppnirnar sem og miða á dómararennsli (alls 6 miðar fyrir hvern félaga). Einungis verður hægt að kaupa aðdáendapakkann í heild sinni þ.e. alla 6 miðana, og athugið að hver félagi á eingöngu rétt á einum aðdáendapakka (svo ef það er planið að fara með Diddu systur á keppnina þá er um að gera að skrá Diddu í klúbbinn!).

Enn sem komið er vitum við ekki hver kostnaðurinn verður við miðapakkann en í fyrra var hann u.þ.b. 55 þús ISK. Við vitum enn ekki hvort boðið verður upp á sæti eða stæði eða hvort tveggja. Að lokum getum við ekki ábyrgst að allir þeir sem óska eftir miðum fái þá í úthlutuninni þar sem við stjórnum ekki miðadreifingunni og fáum aðeins ákveðinn fjölda frá aðalskrifstofu OGAE.

Eins og áður biðjum við áhugasama félagsmenn að senda okkur ósk um miðaúthlutun. Þessi ósk um miða er ekki bindandi, enn sem komið er. Við munum síðar biðja þá sem áhuga sýna um lokastaðfestingu. Senda verður tölvupóst á ogae.iceland@gmail.com með efnislínunni „Ósk um Eurovision-miða 2015“ fyrir  1. október nk. 

ATH. Til að eiga möguleika á miða!

  • Nýir félagar verða að skrá sig formlega fyrir 1. október nk. til að eiga möguleika á miðum. Þeir sem skrá sig eftir 1. október eiga því ekki kost á að kaupa miða fyrir keppnina í Vín 2015.
  • Nýir og eldri félagar verða að greiða félagsgjöldin (2.000 kr.) fyrir 20. október nk. til að eiga möguleika á miðum.

Hægt er að greiða félagsgjöldin með því að millifæra á reikning FÁSES: Reikn.nr. 0331-26-006600, kt. 490911-0140

Við miðaúthlutunina verður stuðst við eldra fyrirkomulag í tengslum við félagsnúmer, þ.e. lægri félagsnúmer ganga fyrir við úthlutun miða. Til stendur að endurskoða þetta fyrirkomulag en þar sem miðaúthlutunin fer svona snemma af stað í ár (en ekki í des/janúar eins og undanfarin ár) og við höfum ekki haldið aðalfund til að endurskoða miðaúthlutunarkerfið okkar verður við að sitja. Rétt er þó að nefna að inn á milli eru „dauð númer“ og ekki hafa allir félagsmenn áhuga á að nýta sér miðakaupsréttinn.

 

Með kveðju,

Félag áhugafólks um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva – FÁSES