Klúbbastemning í Tel Aviv með Darude!


Sami háttur verður hafður á UMK (Uuden Musiikin Kilpailu = Ný Tónlistarsamkeppni) í Finnlandi í ár og á því síðasta. Valinn hefur verið einn flytjandi, Ville Virtanen betur þekktur sem Darude, sem mun flytja þrjú lög sem valið mun standa um að senda til Tel Aviv. Óbreytt fyrirkomulag á UMK kemur kannski eilítið á óvart því Saara Aalto og lagið Monsters, sem var valið með þessu fyrirkomulagi í fyrra, lenti einungis í 25. sæti.  Úrslit UMK ráðast með aðstoð símakosningar almennings og alþjóðlegrar dómnefndar.

Darude er einn þekktasti tónlistarmaður Finna, nánar tiltekið er hann DJ og framleiðandi og algjör táknmynd dansklúbbaraftónlistarmanna, ef svo má segja. Darude hefur verið að síðan 1995 og hans þekktasti smellur Sandstorm kom út árið 1999 og það er eflaust ekki til eitt einasta mannsbarn hér á landi sem ekki þekkir þetta lag. Darude hefur hlotið fjölda verðlauna á ferli sínum, m.a. þrisvar sinnum finnsku Grammy verðlaunin.

Með Darude á sviðinu í öllum þremur lögum UMK verður söngvarinn Sebastian Rejman sem m.a. hefur starfað með hljómsveitinni The Giant Leap.

Lögin þrjú sem koma til greina sem framlag Finna í Eurovision 2019 hafa verið gefin út. Það fyrsta heitir Release me og er eftir Ville Virtanen, Jaakko Manninen og Brandyn Burnett. Ef eitthvað er að marka textann fjallar lagið um að Sebastian vilji gjarnan losna úr þessu ástarsambandi sem hann er fastur í.

Annað lagið heitir Superman og er eftir Ville Virtanen, Thom Bridges og Chris Hope. Lagið minnir svolítið á Sandstorm en það fjallar um þá manneskju sem lætur Darude líða eins og bestu útgáfuna af sjálfum sér, eða eins og Superman.

Þriðja lagið heitir Look Away og er eftir Ville Virtanen og Sebastian Rejman. Lagið fjallað um hvernig við horfum framhjá hræðilegum hlutum sem eru í gangi í heiminum í dag eins og náttúruhamförum, sjúkdómum og stríðum. Það er auðveldara að horfa framhjá en að fylgjast með og ræða saman um það sem skiptir máli.

Úrslitakeppni UMK verður haldinn í Turku laugardaginn 2. mars nk. kl. 18 að íslenskum tíma. Meðal þeirra sem fram koma er Emmelie de Forest og einn þriggja kynna er Krista Siegfrids, góðkunningi Eurovision frá Malmö 2013. Eins og vinsældarkannanir líta út þegar þetta er skrifað virðist lagið Look Away ætla að fara með sigur af hólmi. Hægt verður að horfa á keppnin á vef finnska sjónvarpsins YLE.