OGAE Second Chance Contest 2018


Árlega stendur OGAE International, regnhlífasamtök Eurovision aðdáenda, fyrir Second Chance keppninni. Second Chance keppnin er haldin til að gefa þeim listamönnum sem tóku þátt í valferlinu fyrir Eurovision annað tækifæri til að heilla aðdáendur um allan heim. Hver aðildarklúbbur OGAE getur tilnefnd eitt lag til að senda inn í keppnina.

Þann 29. ágúst n.k. stendur FÁSES fyrir viðburðinum FÁSES tekur annan sjens! á Stúdentakjallaranum klukkan 20. Þar verða lögin sem taka þátt í OGAE Second Chance keppninni spiluð og meðlimir FÁSES geta tekið þátt í kosningu í OGAE Second Chance. Viðburðurinn er opinn öllum. Þeir meðlimir FÁSES sem ekki eiga heimangegnt geta kosið í gegnum hlekk sem sendur verður út með tölvupósti.

Árið 2017 sigraði Mariette fyrir hönd sænska aðdáendaklúbbsins með laginu A Million Years. Í ár kom það þess vegna í hlut Melodifestivalklubben að skipuleggja Second Chance. Úrslit keppninnar verða tilkynnt við hátíðlega athöfn í sænska bænum Eskilstuna í október.

Íslenskt lag hefur einu sinni unnið Second Chance keppnina. Það var árið 2011, ári áður en FÁSES varð fullgildur meðlimur í OGAE. Það var OGAE Rest of the World sem tilnefndi lagið Nótt sem Jóhanna Guðrún flutti í Söngvakeppninni.

Í ár sendu 27 aðdáendaklúbbar inn lag í keppnina. Opinberar útgáfur laganna má hlusta á Youtube rás Melodifestivalenklubben. Hinir 17 OGAE klúbbarnir sem ekki sendu inn lag hafa atkvæðisrétt í keppninni. Hver klúbbur gefur 1 til 8, 10 og 12 stig eins og í Eurovision.

Framlag FÁSES í keppninni í ár er lagið Í stormi sem Dagur Sigurðsson flutti eftirminnilega í Söngvakeppninni. Hér að neðan eru lögin öll með stuttri umfjöllun um lögin og flytjendurna.

1. Bretland – Asanda | Legends

Asanda Jezile er 17 ára söngkona frá Lundúnum. Hún tók þátt í undankeppni þeirra Breta í ár, You Decide, með sama lagi en laut í lægra hald fyrir SuRie. Lagið var talið hvað mest nútímalegt af þeim sem kepptu í undankeppninni ytra og líklegast til útvarpsspilunar. Asanda flutti ásamt foreldrum sínum til Bretlands fyrir rúmum 10 árum frá Cape Town í Suður Afríku og keppti til úrslita í 7. seríu af Britain’s Got Talent þegar hún var 11 ára gömul. Sagan segir að Simon Cowell sé afskaplega hrifinn af Asöndu og hafi tryggt henni plötusamning og einnig er orðrómur á kreiki þess efnis að hún hafi heillað stjórnendur Disney og hafi farið í prufu fyrir væntanlega Disney-mynd.

2. Malta – Richard & Joe | Song For Dad

Richard og Joe Micallef eru feðgar sem tóku þátt í maltversku undankeppninni og reyndu þannig að verða fyrstu feðgarnir í sögunni til að taka þátt í lokakeppni Eurovision. Lagið er á persónulegu nótunum og fjallar um samband sonar við föður og er þeirra markmið að skapa fjölskylduvæna stemningu á sviðinu. Lagið hafnaði í öðru sæti í undankeppninni, en þetta voru ekki fyrstu kynni þeirra feðga af keppninni. Joe Micallef keppti fyrir hönd Möltu í Eurovision árið 2014 ásamt hljómsveit sinni Firelight með laginu Coming Home sem endaði í 23. sæti.

3. Eistland – Stig Rästa | Home

Stig er góðkunningi Eurovision en hann tók þátt í lokakeppninni árið 2015 með Elinu Born (Goodbye to Yesterday) og hann samdi einnig lagið sem keppti fyrir Eista árið 2016 (Jüri Pootsmann, Play). Lagið Home hafnaði í öðru sæti í lokakeppninni í Eistlandi með íburðarlausa og afslappaða sviðsetningu en átti ekki roð í hádramatísku kjólaóperuna La Forza sem hlaut 70% atkvæða.

4. Slóvenía – Nuška Drašček | Ne zapusti me zdaj

Nuška keppti í slóvensku undankeppninni í fjórða sinn í ár og hafnaði í þriðja sæti, en það var hennar besti árangur til þessa. Hún beið lægri hlut fyrir Leu Sirk sem sigraði með lagið Hvala, ne. Nuška er fædd árið 1980 og varð fræg eftir þáttöku í sjónvarpshæfileikakeppni í Slóveníu árið 2004. Í slóvensku útgáfunni af Frozen ljáði Nuška Elsu prinsessu rödd sína í laginu Let it go.

5. Finnland – Saara Aalto | Domino

Saara er orðin vel þekkt meðal Eurovision aðdáenda. Hún hefur tvisvar sinnum lent í öðru sæti finnsku undankeppninnar; fyrst árið 2011 og síðan 2016. Sara lenti einnig í öðru sæti í The Voice of Finland árið 2012, en hún er einnig þekkt fyrir að tala inn á teiknimyndir, t.d. fyrir Önnu prinsessu í Frozen. Saara öðlaðist aftur á móti heimsfrægð með þátttöku sinni í The X Factor UK árið 2016 þar sem hún lenti í 2. Sæti. Í finnsku undankeppninni söng Saara öll þrjú lögin og keppti fyrir hönd Finna með lagið Monsters. Hér er hún því komin aftur með lagið sem hafnaði í öðru sæti í undankeppninni, en þetta er einmitt lagið sem Hera Björk, sem var í alþjóðlegri dómnefnd, gaf flest stig.

6. Sviss – Alejandro Reyes | Compass

Hinn geðþekki Alejandro flutti 10 ára gamall frá Síle til Sviss og þrátt fyrir fötlun í vinstri hendi lærði hann að spila á gítar og hefur gert það gott í tónlistinni ytra síðastliðin ár. Hann var einn af sex þátttakendum í svissnesku undankeppninni, Die Entscheidungsshow, og hafði lengi verið beðið eftir því að hann tæki þátt. Alejandro hafnaði í öðru sæti, aðeins fjórum stigum á eftir sigurlaginu Stones með Zibbz.

7. Þýskaland – voXXclub | I mog Di so

Þýska alþýðupopp-drengjabandið voXXclub reið ekki feitum hesti í þýsku undankeppninni í ár og hafnaði í fimmta og næstsíðasta sæti. Heillandi danshreyfingar og hressandi sviðsframkoma hefur þó eitthvað skilað sér áleiðis því þeir eru komnir í Second Chance keppnina og það er ekki annað hægt en að dansa með.

8. Ungverjaland – yesyes | I Let You Run Away

Drum and bass, elektrónísk danstónlist og harmónika. Þetta getur varla klikkað. Hljómsveitin yesyes var stofnuð árið 2015 og hafa þeir félagar, Ádám og Tamás, gefið út fimm lög. Þeim gekk vel í risastórri undankeppni þeirra Ungverja, A Dal 2018, sem samanstóð af 30 atriðum sem kepptu í þremur riðlum, tveimur undanúrslitum og tveimur úrslitaumferðum, en þeir höfnuðu í öðru sæti.

9. Rúmenía – Feli | Royalty

Hvorki meira né minna en 60 lög komust í rúmensku undankeppnina af þeim 72 atriðum sem tóku þátt í áheyrnarprufunum. Við tók tveggja mánaða dagskrá að velja 15 keppendur í lokakeppnina. Feli (Felicia Donose) hafnaði í þriðja sæti í keppninni, en var af mörgum talin mjög sigurstrangleg. Feli syngur um valdeflingu kvenna, að konur séu drottningar heimsins og eigi að vera heiðraðar og dáðar sem slíkar. Hún hefur einu sinni verið tilnefnd til evrópsku MTV tónlistarverðlaunanna sem besti rúmenski flytjandinn.

10. Tékkland – Eva Burešová | FLY

Eva lenti í 3. sæti í Eurovision Song CZ keppninni sem eingöngu fór fram á netinu í janúar síðastliðnum. Lagið Fly er samið með Vaclav Noid Barta sem keppti fyrir hönd Tékk árið 2015. Leik- og söngkonan Eva er m.a. þekkt fyrir að hafa keppt í úrslitum Czech & Slovakia’s Got Talent árið 2011 og fyrir að hafa drukkið fylgjukokteil eftir fæðingu sonar síns á síðasta ári – áhugavert!

11. Danmörk – Albin Fredy | Music for the Road

Albin, sem starfar við tónlist og lagasmíðar í Kaupmannahöfn, lenti frekar óvænt í 3. sæti í Dansk Melodi Grand Prix í febrúar síðastliðinn með kántrískotið popplag. Þess má geta að hann hafði veðjað við einn lagahöfundanna um að Rasmussen myndi sigra MGP. Þetta var í annað skipti sem Albin tók þátt í keppninni en hann söng lagið Beautiful to Me árið 2013 þegar Emmelie de Forest kom, sá og sigraði. Það var reyndar frekar afdrifarík þáttaka hjá Albin því við það tækifæri hitti hann ástina í lífi sínu, Maríu Rosenberg, sem var einn dómaranna (sem kaus Emmelie en ekki Albin!).

12. Úkraína – KADNAY | Beat Of The Universe

Kadnay lenti í þriðja sæti í úkraínsku undankeppninni 2018 með laginu Beat of the Universe. Dúóið Kadnay er skipað félögunum Dmytro Kadnaj og Filipp Koljadenko sem hafa starfað saman síðan 2012. Tónlistin þeirra er áhugaverð blanda af indie og raftónlist.

13. Armenía – Nemra | I’m a Liar

Hljómsveitin Nemra með lagið I am a Liar er fulltrúi Armena í OGAE Second Chance. Í nafni hljómsveitarinnar er skemmtilegur orðaleikur, ef nafnið Nemra er lesið afturábak er það armen. Lagið er samið af gítarleikar hljómsveitarinnar sem einnig spilar á gítar. Lagið lenti í öðru sæti í undankeppninni í Armeníu á eftir Qami. Hljómsveitin Nemra var stofnuð árið 2012. Hljómsveitarmeðlimirnir hafa tekið virkan þátt í hinni svokölluðu armensku flauelsbyltingu sem stóð í apríl og maí á þessu ári til að mótmæla ríkjandi stjórnvöldum í Armeníu. Skemmst er frá því að segja að mótmælin leiddu til þess að Sargsyan forsætisráðherra Armeníu sagði af sér.

14. Pólland – Ifi Ude | Love Is Stronger

Ifi Ude er fædd árið 1986 í Nígeríu en flutti þriggja ára til ömmu sinnar í Póllandi. Móðir Ifi er pólsk en faðir hennar er frá Nígeríu. Í pólsku undankeppninni í ár var lagið Love is Stronger í öðru sæti hjá dómnefndum en í fimmta sæti í símakosningu og lenti lagið því í fjórða sæti í keppninni. Lagið samdi Ifi ásamt Polly Scattergood, Glenn Kerrigan og Paweł Dziemski.

15. Litháen – Paula | 1 2 3

Framlag vina okkar í Litháen er lagið 1 2 3 með söngkonunni Paulu. Einn höfunda lagsins er FÁSES liðinn Sveinn Rúnar Sigurðsson, fastagestur í Söngvakeppninni og stjörnulæknir. Lagið 1 2 3 lenti í sjötta sæti eftir langa og stranga undankeppni í Litháen sem hófst í byrjun janúar og endaði 11. mars. Litháar meta samband sitt við Ísland mikils eftir að Íslendingar voru fyrsta þjóðin til að viðurkenna sjálfstæði þjóðarinnar árið 1991. Ari Ólafsson var gestur í úrslitaþættinum og flutti framlag Íslendinga í Eurovision.

16. Lettland – Edgars Kreilis | Younger Days

Lagið Younger Days er samið af Kaspars Ansons og Edgars Kreilis sem jafnframt syngur lagið. Kaspars var framleiðandi framlags Letta í Eurovision 2015 Love Injected sem Aminata samdi og flutti. Lagið Younger Days lenti í sjötta sæti lettnesku undankeppninnar. Þrátt fyrir að hafa verið í næst neðsta sæti ákvað lettneski aðdáendaklúbburinn að senda lagið inn sem sitt framlag í OGAE Second Chance keppnina.

17. Noregur – REBECCA | Who We Are

Norðmenn senda lagið Who We Are sem lenti í öðru sæti í norsku Melodi Grand Prix. Lagið er flutt af hinni tvítugu Oslóarmær Rebeccu Thorsen. Lagið er samið af engum öðrum en Katli Mørland sem var fulltrúi Noregs í Eurovision árið 2015 ásamt Debruh Scarlet með lagið A Monster Like Me sem hann samdi einnig. Samstarf þeirra Rebeccu og Ketils er ekki nýtt af nálinni, en þau byrjuðu að vinna saman árið 2014 þegar hann pródúseraði lag fyrir hana. Í aðdraganda norsku undankeppninnar var lagið Who We Are í uppáhaldi hjá aðdáendum en það fór svo að hjartaknúsarinn Alexander Rybak fór fram úr Rebeccu á lokametrunum og sigraði undankeppnina.

18. Serbía – Saška Janks | Pesma za tebe

Þrátt fyrir að vera einungis þrítug þá er serbneska söngkonan Saška Janks ekki ókunn Eurovision. Hún keppti fyrst í serbnesku undankeppninni Beovizija árið 2009 og hefur síðan þá nokkrum sinnum keppt sjálf. Saška var bakraddasöngkona árið 2010 hjá Milan Stanković í laginu Ovo je Balkan og hjá Nina Radojičić árið 2011 í laginu Čaroban. Saška lenti í öðru sæti með laginu Pesma za tebe í Beovizija í ár.

19. Albanía – Inis Neziri | Piedestal

Eins og hefð er fyrir eru Albanir með sína keppni í kringum jólin og eru jafnan með fyrstu þjóðum til að velja framlag sitt í Eurovision. Þann 23. desember 2017 fór undankeppnin Festivali i Këngës fram í Tirana í Albaníu. Það var í 60. skipti sem Festivali i Këngës var haldin og er keppnin því næstum jafngömul Eurovision. Það var ekki fyrr en árið 2004 sem Albanir tóku fyrst þátt í Eurovision og Festivali i Kënges fór að þjóna sem undankeppni Eurovision. Í ár var það Inis Neziri lenti í öðru sæti með laginu Piedestal og er hún fulltrúi Albana í OGAE Second Chance keppninni.

20. Svíþjóð – John Lundvik | My Turn

John Ludvik varð í 3. sæti í Melodifestivalen þetta árið og vekur það óneitanlega athygli að sænski Eurovision klúbburinn velur ekki Felix Sandman og lagið Every Single Day, sem varð í 2. sæti, til að taka þátt í OGAE Second Chance. John Lundvik þessi var ekki að taka þátt í fyrsta skipti í Melodifestivalen en hann er þekktur lagahöfundur og hefur meðal annars samið lög fyrir Júró-stjörnur eins og Sanne Nielsen og Anton Ewald. John er fæddur í London og var áður spretthlaupari. John komst beint inn í úrslitakeppnina úr fyrstu undankeppni Melló í Karlstad en endaði eins og áður kom fram í 3. sæti í úrslitakeppninni.

21. OGAE Rest of the World (San Marínó) – Sara de Blue | Out of the Twilight

Eins og frægt er orðið héldu San Marínó sína stórskemmtilegu (og á margan hátt stórundarlegu) undankeppni 1in360 í vor. Keppnin var mjög fjölþjóðleg þar sem flestir listamennirnir sem komust í úrslit voru frá öðrum löndum en San Marínó og úrslitaþátturinn var tekinn upp í Bratislava í Slóvakíu. Það er því við hæfi að fulltrúi OGAE Rest of the World sé frá San Marínó. Sara de Blue er austurrísk og lenti lagið hennar Out of the Twilight í öðru sæti í San Marínó í vor.

22. Hvíta-Rússland – Gunesh | I Won’t Cry

Dramafíklarnir í Eurovision heiminum fylgjast alltaf gríðarlega vel með gangi mála þegar Hvít-Rússar velja sitt framlag. Að venju var dramatíkin í hávegum höfð þegar lagið Forever með Alekseev var valið. Lagið hafði verið flutt opinberlega fyrir dagsetninguna sem reglur Eurovision leyfa fyrsta flutning á framlagi í keppnina og fengu þeir sérstaka undanþágu til að flytja lagið í Lissabon. Ekki voru allir á eitt sáttir um það og höfðu höfundar lagsins sem lenti í öðru sæti I Won’t Cry sérstaklega sárir – en þeir geta huggað sig við það að lagið þeirra er framlag Hvít-Rússa í OGAE Second Chance keppninni í staðinn. Höfundar I Won’t Cry eru Tim Norell, Ola Håkansson og Alexander Bard; allir sænskir og vel þekktir í Eurovision heiminum. Besti árangur þeirra sem lagahöfundar í Eurovision var árið 1989 þegar lagið þeirra En Dag lenti í fjórða sæti fyrir Svía. Þeir hafa oft tekið þátt í sænsku undankeppninni Melodifestivalen og aðdáendur muna kannski eftir Alexander Bard úr tríóinu BWO.

23. Frakkland – Emmy Liyana | OK ou KO

Emmy kom sér á kortið í frönsku útgáfunni af The Voice þótt hún hafi dottið út í fyrsta þættinum í beinni útsendingu. Emmy lenti í fjórða sæti með laginu Ok ou KO í undankeppninni í Frakklandi sem af mörgum aðdáendum var talin ein af sterkustu undankeppnum Eurovision í ár. Eftir keppnina komst lagið hæst í 22. sæti á lista yfir mest seldu lögin í Frakklandi.

24. Ítalía – Annalisa | Il Mondo Prima Di Te

Annalisa varð fræg á Ítalíu eftir þátttöku í hæfileikakeppninni Amici di Maria De Filippi þar sem hún lenti í öðru sæti árið 2011. Síðan þá hefur Annalisa tekið þátt í Sanremo keppninni fjórum sinnum, nú síðast með laginu Il Mondo Pria Di Te sem lenti í þriðja sæti. Annalisa hefur verið fulltrúi Ítala í Söngvakeppni OGAE (OGAE Song contest). Söngvakeppni OGAE er önnur keppni sem OGAE stendur einnig fyrir árlega þar sem aðdáendaklúbbarnir tilnefna eitt lag sem gefið hefur verið út á árinu og sungið er á opinberu tungumáli hvers lands.

25. Spánn – Ana and Aitana | LO MALO

Spánverjar hafa í nokkur ár valið lag og flytjendur til þátttöku í Eurovision í þættinum Operación Trifuno; hæfileikasjónvarpsþætti sem er nokkurs konar blanda af Fame Academy og The Voice. Fimm flytjendur komust í úrslitaþáttinn þar sem hver þeirra flutti eitt sólólag og svo annað lag með öðrum flytjendum. Ana og Aitana lentu í þriðja sæti í úrslitaþættinum með lagið La Malo sem er í sérstöku uppáhaldi hjá aðdáendum.

26. Ísland – Dagur Sigurðsson | Í stormi

Það þarf vart að kynna framlag FÁSES í Second Chance. Lagið Í stormi sem Dagur Sigurðsson flutti eftirminnilega í Söngvakeppninni í mars sigraði bæði dómnefnda- og símakosningu og fór í einvígi á móti laginu sem lenti í öðru sæti Our Choice, sem flutt var af Ara Ólafssyni. Það var spennuþrungið andrúmsloft þegar úrslitin úr einvíginu voru tilkynnt, þar sem Ari sigraði Dag. Dagur hefur sungið sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar með kröftugri rödd sinni. Höfundur lags og texta eru Eurovision aðdáendum að góðu kunn. Júlí Heiðar sem samdi lagið hefur tvisvar áður tekið þátt í söngvakeppninni og FÁSES liðinn Þórunn Erna Clausen samdi textann. Þórunn er einn af afkastamestu textahöfundum Söngvakeppninnar og hefur verið viðloðandi fjölda atriða í Söngvakeppninni.

27. Portúgal – Catarina Miranda | Para Sorrir Eu Não Preciso De Nada

Eftir að stigin í portúgölsku undankeppninni Festival da Canção höfðu verið kynnt var ljóst að tvö lög deildu efsta sætinu með jafnmörg stig. Catarina Miranda fékk 12 stig frá dómnefndum og 10 stig frá símakosningu og Cláudia Pascoal og Isaura með lagið O jardim fengu 10 stig frá dómnefndum og 12 stig frá símakosningu. O jardim var dæmt sigurinn þar sem þær stöllur höfðu fengið fleiri stig úr símakosningu. Portúgalski aðdáendaklúbburinn tilnefndi lagið Para Sorrir Eu Não Preciso De Nada sem var dæmt í annað sæti. Titill lagsins gæti útlagst á íslensku sem Ég þarf ekkert til að brosa.

Greinarhöfundar: Þóranna Hrönn Þórsdóttir, Ísak Pálmason og Laufey Helga Guðmundsdóttir