TIL HAMINGJU NETTA!


OG ÞAÐ VAR ÍSRAEL SEM VANN EUROVISION 2018! Lagið “Toy” sungið af Nettu vann söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrr í kvöld. Í öðru sæti var Eleni frá Kýpur með lagið “Fuego” og í þriðja sæti var Cesár Sampson frá Austurríki með lagið “Nobody But You”. Keppnin endaði svona:

FÁSES liðar höfðu giska á að Frakkland yrði sigurstranglegast með laginu „Mercy“ flutt af Madame Monsieur. Kýpverjar voru næst sigurstranglegastir hjá FÁSES með lagið „Fuego“ flutt af Eleni Foureira og Rasmussen frá Danmörku með lagið „Higher Ground“ í þriðja sæti.

Á blaðamannafundi eftir keppnina var Netta spurð hvernig hafi verið að vera uppáhald allra en síðan hafi staðan breyst síðustu vikuna þegar Kýpur og Eleni leiddu veðbankaspár. Netta sagði að henni hefði alltaf fundist erfitt að bera saman ólíka tónlistarstíla og listamenn – þess vegna lagði hún lítið upp úr þessu. Hún sagði greinilegt að skilaboð lagsins hefðu komist í gegn þar sem hún stæði nú uppi sem sigurvegari Eurovision 2018. Netta man lítið frá stundinni þegar hún var tilkynntur sigurvegari – það voru sex menn að öskra að kringum hana og hún skildi lítið í því sem var að gerast. Netta gengur vanalega með gleraugu en var ekki með þau í kvöld svo hún sá ekkert hvað var að gerast á skjánum!  Það fyrsta sem hún ætlar að gera þegar hún kemur heim til Ísrael er að fá sér hummus! Netta bjóst ekki við að vinna undankeppnina í Ísrael fyrir Eurovision, að hennar mati þótti hún of “avantgarde” og hún var í raun einungis að taka þátt til að útvega sér fleiri gigg heima fyrir. Í dag sé hún mjög ánægð með að hafa unnið. Í kvöld var Netta með hring ömmu sinnar sem lést þegar hún var 12 ára. Afi Nettu lét hana hafa hringinn fyrir Eurovision en planið var að hún fengi hann ekki fyrr en hún giftist. Hringurinn gefur Nettu styrk og sjálfstæði.

Fyrir nokkrum dögum gagnrýndi Salvador Sobral sigurvegari Eurovision 2017 Nettu og lagið “Toy”. Netta var spurð hvort það hafi ekki verið erfitt að taka við verðlaunagripnum úr höndum Salvadors en hún svaraði að hún hefði ekki fundið nema ást og virðingu frá honum. Í lok blaðamannafundarins afhenti Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri EBU, verðlaunagripinn góða þar sem hann brotnaði á sviðinu áðan. Jon Ola afhenti einnig ísralesku sjónvarpsstöðinni handbók um framkvæmd Eurovision 2019.