Post Söngvakeppnin depression eða eftirsöngvakeppnisbringsmalaskotta (ESB) eins og það gæti útlagst á hinu ástkæra ylhýra er ekkert grín. Í dag eru Eurovision aðdáendur rétt að byrja að jafna sig á ESB-inu. Eina huggun aðdáendanna í ESB-inu er að rifja upp þessa stórglæsilegu útsendingu sem RÚV stóð fyrir á laugardagskvöldið og frammistöðu allra þeirra frábæru listamanna sem komu fram og lögðu allt sitt í sölurnar til að geta orðið næsti fulltrúi þjóðarinnar í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Þessi grein er tilraun þjakaðs Eurovision aðdáenda til að vinna bug á ESB-inu.
Sænski hjartaknúsarinn Robin Bengtsson opnaði Söngvakeppnina 2018 með laginu sínu I Can’t go on. Það kom ekki að sök þó að á sviðinu væru engin hlaupabretti því Robin flutti lagið óaðfinnanlega. Á sviðinu var Robin með íslenskum dönsurum sem gáfu sænsku strákunum sem dönsuðu með honum í Kænugarði ekkert eftir.
Með fókusinn á vígvellinum stigu krakkarnir í Fókus hópnum fyrst á svið af keppendunum. Þau Sigurjón, Hrafnhildur, Rósa, Eiríkur og Karítas fluttu lagið sitt Battleline á ensku með glæsibrag. Hópurinn skartaði nýjum búningum sem komu einstaklega vel út í sjónvarpinu og gáfu atriðinu heildarbrag.
Næst á eftir Fókus var röðin komin að Áttunni með lagið Here for you. Sonja og Egill mættu fílefld til leiks og höfðu greinilega unnið heimavinnuna sína vel og stóðu sig mun betur en í undankeppninni.
Þriðja atriðið á svið var sigurveg-Arinn ásamt fríðu föruneyti með lagið Our Choice. Ari Ólafsson bræddi hjörtu áhorfenda með sinni fögru rödd, brosi og einlægni, svo að jafnvel köldustu skápaaðdáendur teygðu sig í símann til að kjósa.
Korteri áður en Heimilistónar áttu að stíga á svið bilaði rennilásinn á kjólnum hennar Ólafíu Hrannar. Sem betur fer var hún umkringd Söngvakeppnissaumaklúbbnum sem reddaði málunum. Ólafía Hrönn, Vigdís, Katla og Elfa tóku lagið Kúst og fæjó og sópuðu upp Laugardalshöllina við mikla hrifningu aðdáenda sem dönsuðu í sætunum í salnum.
Aron Hannes var fjórði á svið með lagið Gold Digger á ensku. Atriðinu var breytt frá undankeppninni og var búið að bæta við hjóli á sviðið og skipta um búninga í stíl við myndband lagsins sem var gefið út á dögunum.
Dagur lokaði fyrri hluta úrslitakvöldins með laginu Í stormi. Flutningur Dags á laginu var eins og við var að búast stórfenglegur. Dagur flutti lagið á íslensku þrátt fyrir að í upphafi þegar lögin voru kynnt hafi verið gefin út ensk útgáfa og gefið til kynna að lagið yrði flutt á ensku ef það kæmist í úrslitin.
Á meðan að Íslendingar hringdu inn atkvæði sín, eða á meðan að Íslendingar gerðu tilraun til að hringja inn sín atkvæði því ekki virtust öll atkvæði ná inn, flutti Emmelie de Forest sigurlag Eurovision 2013 Only Teardrops. Með henni á sviðinu voru íslensk ungmenni sem léku á trommur og flautu eins og í siguratriðinu í Malmö.
Eftir kvíðafulla bið á meðan að auglýsingar glumdu í sjónvarpinu og símreikningar landsmanna hækkuðu var lokað fyrir símakosninguna. Andrúmsloftið í Laugardalshöllinni var rafmagnað þegar kynnar kvöldsins Ragnhildur Steinnunn og Jón Jónsson töldu upp stig dómnefndarinnar. Eftir að atkvæði allra dómnefndarmeðlima höfðu verið lesin upp voru atkvæði símakosningarinnar lögð við í þeirri röð sem lögin höfðu verið flutt. Það var ekki fyrr en eftir að símakosningaratkvæði Dags höfðu verið tilkynnt að ljóst var hvaða tvö atriði voru á leið í einvígið. Dagur hafði unnið fyrri hluta með talsverðum yfirburðum og í öðru sæti með næstum 9.000 færri atkvæði var Ari.
Dómnefnd | Sæti hjá dómnefnd | Símakosning | Sæti í símakosningu | Samtals | Sæti | |
Dagur | 20.183 | 1 | 24.547 | 1 | 44.730 | 1 |
Ari | 17.453 | 2 | 18.408 | 2 | 35.861 | 2 |
Heimilistónar | 14.183 | 4 | 17.619 | 3 | 31.802 | 3 |
Aron | 16.090 | 3 | 14.848 | 4 | 30.938 | 4 |
Fókus | 13.091 | 5 | 12.859 | 5 | 25.950 | 5 |
Áttan | 10.637 | 6 | 3.360 | 6 | 13.997 | 6 |
Fyrstur til að flytja lagið sitt í einvíginu var Ari sem aftur náði að hrífa þjóðina með sér með brosi og fögrum söng. Dagur gaf Ara ekkert eftir og flutti lagið sitt af enn meiri krafti en áður.
Á meðan þjóðin hækkaði símreikningana enn meira og hringdi inn til að styðja sitt uppáhalds lag fóru Ragnhildur Steinunn og Jón Jónsson að rifja upp eftirminnileg atriði úr fyrri Söngvakeppnum. Eftir að hafa rætt um framlag Daða Freys í fyrra Is This Love, báðu þau gesti í salnum um að hjálpa sér að senda Daða og kærustunni hans Árnýju Fjólu kveðju í gegnum sjónvarpið. En þá gerðust undraverðir hlutir á sviðinu og gestirnir í salnum hófu að fagna. Enginn annar en Daði var mættur á svæðið. Daði sem allir héldu að væri í Kambódíu með Árnýju. Tilfinningin var eins og að hitta besta vin sinn aftur eftir langt ferðalag. Daði flutti syrpu af Söngvakeppnislögum, Eurovísu frá 2003, Í síðasta skipti frá 2015, Lífið er lag frá 1987 og Þú tryllir mig 2007 og endaði síðan á að taka íslensku útgáfuna af laginu sínu Hvað með það?
Það ríkti mikil spenna þegar umslagið sem innihélt nafn sigurvegarans var opnað. Þjóðin hafði valið lagið Our Choice eftir Þórunni Ernu Clausen flutt af Ara Ólafssyni. Ari fékk 44.919 atkvæði í einvíginu og Dagur þurfti að láta sér annað sæti lynda með 39.474 atkvæði.
FÁSES óskar Þórunni Ernu og Ara innilega til hamingju með sigurinn. Við hlökkum til að fylgja ykkur til Lissabon í Portúgal. Á sama tíma og við samgleðjumst Our Choice þökkum við öðrum keppendum í Söngvakeppninni fyrir skemmtilega keppni. Vonandi fáum við að sjá meira af þeim frábæru lagahöfundum og tónlistarmönnum í framtíðinni.
FÁSES-liðinn Ástríður Margrét Eymundsdóttir deildi með okkur frábærum myndum sem hún tók á Söngvakeppninni.