Steinunn Björk Bragadóttir sendi FÁSES.is pistil um veðbankaspár keppninnar í ár:
Það virðist vera hægt að veðja um allt, allt frá því hvort næsti erfingi bresku krúnunnar verði karlkyns eða kvenkyns, uppí hver vinnur í meistaradeild Evrópu. Eurovision er heldur betur einn af þeim viðburðum sem fólk keppist um að veðja á og eru veðbankar í Evrópu duglegir að setja upp líkur hvers lands fyrir hverja keppni.
Í mörgum tilfellum hafa veðbankarnir hitt naglað á höfuðið í spám sínum á sigurvegara Eurovision. Til dæmis voru þeir búnir að spá fyrir um sigur Danmerkur 2013, Svíþjóðar 2012 og Noregs 2009 löngu áður en keppnirnar sjálfar áttu sér stað. Í rauninni var það bara formsatriði að halda keppnirnar í þessum tilfellum, það vissu allir hverjir voru að fara að vinna.
En veðbankarnir hafa ekki alltaf verið jafn sannspáir. Árið 1996 var hinni bresku Ginu G spáð miklu velgengni, jafnvel sigri, en þrátt fyrir að hafa rétt sloppið inná topp 10, þá þóttu hlutskipti Breta ekki vera þau sem von var á.
Árið 1999 voru veðbankarnir enn þá lengra í burtu með sína spá en árið 1996. Þrátt fyrir að vera nokkuð nákvæmir í að spá góðu gengi bæði Svía og Íslendinga, þá voru þeir alveg út að aka hvað varðar greyið Kýpur. Kýpverjum var spáð mjög góðu gengi og voru taldir vera með þeim sigurstranglegustu það árið. Kýpur lenti hins vegar í næstsíðasta sæti með einungis 2 stig.
Veðbankaspár voru þó enn fjær því sem í raun gerðist árið 2006. Það árið var Belgum spáð góðu gengi og voru margir sem voru alveg vissir um að keppnin yrði haldin í Brussel árið eftir. En aumingja Kate Ryan þurfti að fara heim með skottið á milli lappanna í rándýra kjólnum sínum eftir undankeppnina þar sem Belgar þurftu að sætta sig við 12. sætið, þó einungis 10 stigum frá sæti í úrslitunum.
En nóg með fortíðardraugana. Hvað ætli veðbankarnir segi um keppnina í ár?
Það var byrjað með látum, Noregi var spáð sigri snemma, meira að segja áður en þeir voru búnir að velja sér sitt framlag. Ætli það hafi ekki bara þótt við hæfi að spá næsta Skandinavíulandi á listanum sigri.
Ekki er hægt að taka mikið mark á því hverju menn spá áður en það er búið að velja lögin. Eftir að búið var að velja þau komst Armenía fljótlega á toppinn hjá veðbönkum, og þeir voru taldir mjög sigurstranglegir löngu fyrir keppni. Um miðjan mars voru til dæmis Armenar langefstir í veðbönkum, en Svíar komu fast á hæla þeirra. Næstu lönd á eftir voru Noregur, Ungverjaland og Belgía.
Armenía hélt forskoti sínu hjá veðbönkum, allt þangað til á þriðjudaginn, en sögur segja að nánast á sama tíma og búið var að tilkynna hverjir kæmust áfram þá var Svíþjóð búið að stela fyrsta sætinu af Armeníu. Fleiri breytingar urðu á listanum eftir þriðjudagskvöldið og Holland hoppaði til dæmis upp í þriðja sæti, sem gladdi mig mjög mikið þar sem það er eitt af uppáhaldslögunum mínum í ár.
Fleiri breytingar áttu sér stað eftir undanúrslitin á fimmtudaginn. Þá hoppaði til dæmis Austurríki upp í hvorki né meira en annað sætið hjá veðbönkum, enda átti hin geðþekka skeggjaða kona frá Austurríki frábært kvöld.
Eins og staðan er í dag þá eru þetta þau lönd sem eru í topp fimm samkvæmt veðbönkunum:
Til gamans má geta að Ísland hefur hoppað uppí 18. sæti hjá veðbönkunum, en fyrir keppnina var þeim ekki einu sinni spáð uppúr undanúrslitunum og voru Pollapönkararnir okkar oftast í kringum 30. sæti og neðar í öllum veðbönkum.
En það eru ekki einungis almennir veðbankar sem spá fyrir um úrslitin ár hvert. Eins og margir sem lesa þetta vita, þá er ávallt kosning á meðal aðdáenda í OGAE klúbbum um alla Evrópu um hvaða lag muni standa uppi sem sigurvegari á stóra kvöldinu. Samkvæmt þessari kosningu er Svíþjóð með lang vinsælasta lagið í ár, en þar á eftir koma Ungverjaland (sem komst áfram á þriðjudaginn), Austurríki (sem komst áfram á fimmtudaginn) og svo Ísrael, sem þurfti að fara heim eftir fimmtudagskvöldið, sem er mér gjörsamlega óskiljanlegt og ég vil fá sérstaka rannsóknarnefnd sem fer í að rannsaka af hverju Evrópubúar kusu ekki Ísrael í ár. Í þessari ágætu kosningu lenti Ísland í 31. sæti með einungis 7 stig, öll frá Rússum.
Við skulum nú samt vona að fleiri en Rússar fíli fordómalausa boðskapinn okkar á úrslitakvöldinu.
Samkvæmt öllum þessum veðbankaspám og aðdáendaspám þá ætti það ekki að koma neinum á óvart ef Svíar vinni í ár. Ég persónulega væri svo sem ekkert á móti því, en væri líka til í óvænt úrslit í ár, þetta er búið að vera svo rosalega fyrirsjáanlegt síðustu árin. Hver veit nema þessar elskur vinni bara í ár, öllum að óvörum.!