Partývaktin vol IV: Brúðkaup á Euroclub, OGAE International Party og ungverskir stjörnustælar

Krista og giftu herramennirnir.

Krista og giftu herramennirnir.

Eftir að ljóst var að Pollapönk komst áfram á þriðjudagskvöldið gat Partývakt FÁSES.is ekki vikið sér undan því að kíkja við á Euroclub. Þar var hin finnska Krista Siegfrids að syngja sín vinsælustu lög á aðalsviðinu. Allt í einu birtist fjöldinn allur af hvítklæddu fólki á sviðinu og tveir herramenn klæddir norskum þjóðbúningum fylgdu í kjölfarið. Viðstaddir ráku upp stór augu þegar þeir áttuðu sig á því að vel klæddu mennirnir voru að gifta sig á sviðinu! Eftir athöfnina flutti Krista að sjálfsögðu framlag sitt frá því í fyrra Marry me og uppskar mikil húrrahróp fyrir flutninginn.

Ekki var mikið um það að keppendur litu við á Euroclub þetta kvöld en Partývaktin rakst þó á Eldar frá Azerbajan og Jöran Steinhauer, sem er forsprakki lettnesku hljómsveitarinnar Aarzemnieki sem komst því miður ekki áfram þetta kvöld. Íslenska sendinefndin með Pollapönkarana fremsta flokki mætti að sjálfsögðu til að fagna frábærum árangri þetta kvöld og skelltu sér þar að auki í smá Eurovision karaoke.

Á miðvikudagskvöldi í Eurovision vikunni er hefð fyrir því OGAE International bjóði aðdáendum til heljarinnar partýs. Partývaktin FÁSES.is tekur hlutverk sitt alvarlega og lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á Euro Fan Café. Það gerðu aðdáendurnir sem eru staddir í Köben ekki heldur og var Huset-KPH stappfullt. Dansinn dunaði í hinum ýmsu sölum staðarins og komu m.a. hinir frönsku Twin Twin fram ásamt Suzy frá Portúgal. Það er ekki hægt að segja annað en að portúgalska dívan sé pínu bitur yfir því að hafa ekki komist áfram á þriðjudaginn þar sem FÁSES.is heyrði að hún hefði grátið krókudílatárum í hádegismat daginn eftir sem haldinn var með portúgölsku deild OGAE. Suzy er ákaflega vinsæl meðal aðdáenda og fékk mikla ást og mikið uppklapp þegar hún kom fram í partýinu.

Júróklúbbpollar!

Júróklúbbpollar!

Því næst dreif Partývaktin sig á Euroclub þar sem Pollapönk átti að koma fram kl. 2 eftir miðnætti (það er sko nóttin á undan miðvikudeginum samkvæmt ágætum Maltverja sem við ræddum við). Pollarnir tóku No Prejudice, Pönkdansinn og Boys and Girls með Blur. Þeir pökkuðu síðan áhorfendum saman með klúbbaútgáfunni af No Prejudice þar sem Rauði Polli fór á kostum í breikdansi á sviðinu. Eftir tónleikana komst FÁSES.is á snoðir um að Guli Polli hefði lent í því óláni að rífa fínu matrósarbuxurnar sínar innanfótar alla leið upp í nára!

Mið 7 maí 2014 015

Tanja frá Eistlandi

Það verður að viðurkennast að Partývaktin hefur orðið fyrir vonbrigðum með hve fáir keppendur eru á vappinu á Euroclub og Euro Fan Café. Þó sást til András Kállay-Saunders frá Ungverjalandi og Tönju frá Eistlandi á Euroclub. András vildi greinilega bara demba sér á djammið og vísaði öllum aðdáendum frá (engin rokkprik þar!).

Eftir síðara undanúrslitakvöldið skellti Partývaktin sér að sjálfsögðu á Euroclub. Þar var Tim Schou úr A Friend in London að skemmta ásamt Copenhagen Acapella og voru skiptar skoðanir meðal Partývaktarmanna um frammistöðu hópsins. Vilija Matačiūnaitė frá Litháen var einnig á klúbbnum að skemmta með tveimur vinkonum sínum. Það verður að segjast að andrúmsloftið á Euroclub hefur breyst töluvert eftir því sem líður á vikuna og nú lítur út fyrir að gamla góða Júróvisjónpartýstemningin sé mætt á svæðið!

Algjör andstæða András var Katrina Dimanta, lettneska söngkonan sem lítur alveg eins út og Sigríður Thorlacius úr Hjaltalín, sem fagnaði öllum með þéttu faðmlagi á Euroclub á fimmtudagskvöld í eftirpartýi eftir seinni undanúrslitin. Sama má segja um Belgann Axel Hirsoux sem FÁSES-meðlimir hittu í stúkunni og var ekkert nema sólskinsbros þrátt fyrir að hafa ekki komist áfram í aðalkeppnina. 

Lettneska pían

Lettneska pían

 

sigridur-th5-422x350

Íslenska pían