Í tilefni af 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision blés FÁSES til allsherjarkosningar meðal félagsmanna sinna um hvað þeim fannst um hitt og þetta í Söngvakeppni Sjónvarpsins og þátttöku Íslands í Eurovision. Kosningin fór fram dagana 25. janúar til 4. febrúar sl. og þátttakan var mjög góð eða 39%.
Kosningin var í tveimur hlutum. Við hverja spurninua voru gefnir nokkrir möguleikar en einnig var valmöguleiki að setja eigið svar. Fyrri hlutinn fjallaði um Söngvakeppni Sjónvarpsins og sá seinni um þátttöku Íslands í Eurovision. Spurt var meðal annars um besta og versta lagið sem keppt hefur í Söngvakeppninni, bestu og verstu búningana í keppninni, bestu söngvakeppnina í heild sinni ásamt fleiru eins og besta kynninn og bestu þulina.
Í dag skiptum við um gír frá því í gær og förum yfir það sem FÁSES-meðlimum þótti gott: Eftirminnilegasti flytjandinn og besti íslenski þulurinn.
Eftirminnilegasti flytjandinn
Það kemur eflaust engum að óvörum að hinn eini sanni Páll Óskar var kosinn sem eftirminnilegasti flytjandinn sem keppt hefur fyrir Ísland í Eurovision, með tæplega 36% atkvæða, enda vakti hann mikla athygli með þátttöku sinni með lagið Minn hinsti dans árið 1997. Til gamans má geta að athyglin sem hann fékk var þó ekki einskorðuð við Ísland, en sögur herma að flutningur Páls hafi valdið miklu fjaðrafoki á meðal breskra húsmæðra sem þóttu hann Palli okkar vera heldur of djarfur fyrir fjölskylduþáttinn Eurovision.
https://www.youtube.com/watch?v=FmpVfohfuwQ
Annað sætið ætti svo sem ekki að koma mörgum á óvart heldur, en það var hin litríka Silvía Nótt og hlaut hún tæplega 26% atkvæða.
Þriðja sætið hreppti silfurdrottningin Jóhanna Guðrún með ríflega 10% atkvæða.
Pollapönkarar og Sigga og Grétar deildu svo með sér fjórða sætinu með 5,7% atkvæða.
13 aðrir flytjendur hlutu kosningu, en allir fengu undir 5% atkvæða. Athyglisvert þykir að 11 flytjendur komust ekki á blað. Ætli það sé nokkuð orðum ofaukið að þeir hafi ekki náð að festa sig í minni kjósenda.
Besti þulurinn
Kosningin um besta þulinn var æsispennandi og var það enginn annar en Gísli Marteinn Baldursson sem náði toppsætinu með tæplega 27% atkvæða.
Fast á hæla hans voru Páll Óskar og Felix Bergsson sem voru hnífjafnir í öðru sætinu með 22,4% atkvæða. Þriðja sætið hlaut svo Sigmar Guðmundsson með 20,5% atkvæða.
Þessir fjórir voru með gífurlega yfirburði í kosningunni, en einungis tveir aðrir þulir komust á blað, Hrafnhildur Halldórsdóttir, sem hlaut 5% atkvæða, og Arthúr Björgvin Bollason, sem hlaut eitt atkvæði.
En þrátt fyrir að Hrafnhildur Halldórsdóttir hafi ekki hlotið kosninguna sem besti þulurinn þá á hún eflaust eftirminnilegasta augnablikið í sögu íslensku þulanna, að öðrum ólöstuðum.
Við ljúkum þessu pistli með þessari dásemd: Hrafnhildur Halldórs missir sig þegar Vinir Sjonna komust áfram í síðasta umslaginu árið 2011.
(Hefst 7:50)