Heiður, FÁSES meðlimur með meiru, kíkti aðeins á höfuðstað okkar allra í maí þetta árið: Vín!
Það styttist í Eurovision vikuna og búið er að skreyta Vínarborg hátt og lágt í Eurovision „Building Bridges“ sparifötin, er því ekki úr vegi að renna yfir herlegheitin sem munu birtast á skjánum ykkar allra eftir aðeins nokkra daga.
Eins og þið öll vitið að þá fer keppnin fram í Vín, höfuðborg Austurríkis eftir frækinn sigur Conchitu Wurst í Köben í fyrra. Vínarborg er ein sögufrægasta og menningarlega merkilegasta borg Evrópu enda fyrrum höfuðstaður Habsborgarættarinnar sem öllu réð og stjórnaði hér í denn. Vín er einnig þekkt fyrir Lögregluhundinn Rex, hinn margrómaða drengjakór og flottasta óperu ball heims. Í Vín búa um það bil 1.800.000 manns og borgin því gríðarstór á íslenskum mælikvarða. Austurríki vann keppnina í fyrsta skipti árið 1966 og því eru 48 ár síðan Eurovision var síðast í Vín. Tími til kominn segja margir og ætla Austurríkismenn að gera sitt allra besta til að framleiða flottustu keppni Eurovision sögunnar!
Hvernig ætla þeir að fara að því? Vindum okkur í Wiener Stadthalle sem er heimili keppninnar í ár. Þar er búið að koma fyrir hringlaga sviði með fullt af láréttum ljósasúlum sem saman mynda auga. Frumleg hönnun og enn frumlegri pæling á bakvið sviðið. Mottó keppninnar í ár, „Building Bridges“ va nefnilega innblásturinn hjá hönnuðunum en þetta „auga“ er brú flytjenda til áhorfenda heima í stofu. Flott! Og pælingin er ekki búin, því augað á líka að brúa bilið milli mismunandi þjóða, menninga og fólks. Þetta gerist ekki svakalegra! Nema kannski í Malmö þar sem mottóið var „We are one“ en það er önnur saga.
Sviðið og pælingin bakvið það er allavega virkilega flott og verður spennandi að sjá það í notkun síðar í mánuðinum. Alls eru 1288 súlur í auganu sem geta skipt um liti og gert allskonar flotta ljósafítusa. Gólfið er úr LED skjám eins og í fyrra sem og risastór LED bakgrunnur og því spennandi að sjá hvaða þjóð býr til skemmilegustu grafíkina. Þess má geta að hönnuðirnir á bakvið 2013 sviðið kusu að nota hágæða myndvarpa í staðinn fyrir LED skjái því þeir töldu að LEDið væri annars flokks við hliðina á myndvörpunum því að LEDið kemur út blörrað í nærmynd og yrði því bráðum úrelt. Greinilega ekki því LEDið var notað í fyrra sem og í nýja sviðið. Hvað finnst ykkur?
Austurríkismenn ætla sér þó stóra hluti í útsendingunni og ætla meðal annars að notast við hangandi myndavél beint úr þakinu! Slík myndavél hefur aldrei áður verið notuð í Evrópu og því um stóran atburð að ræða. Einnig mun verða notast við spidercams sem hafa birst áður en allt í allt verða um 26 myndavélar notaðar, sem er slatti. Græna herbergið verður svo staðsett í hinum enda hallarinnar, í svipuðum stíl og í Bakú. Hér má finna ágætt myndband um sviðið.
Í ár verða í fyrsta skipti þrjár konur sem kynnar. Þær heita Alice Tumler, Mirjam Weichselbraun og Arabella Kiesbauer. Þær eru allar þekktar sjónvarpskonur í heimalandinu, en hún Alice er líka hálffrönsk og því ansi líklegt að hún muni sjá um frönskuna í útsendingunni. Þeim til aðstoðar í græna herberginu verður svo drottningin sjálf Conchita Wurst.
Opnunaratriðið í úrslitunum mun vera myndband sem sýnir fegurð Austurríkis undir glæsilegum tónum Mozarts. Þegar því er lokið mun Conchita stíga á svið með drengjakór Vínarborgar, rapparanum Left Boy og Suparar kórnum sér við hlið og munu þau syngja lag keppninnar í ár „ Building Bridges“. Með þeim á sviðinu verða synfóníuhljómsveit ORF útvarpsins og því hátt í 200 manneskjur allt í allt sem koma að opnunaratriðinu í ár. Rúsínan í pylsuendanum er svo keppendurnir sjálfir sem munu sameinast þeim öllum á sviðinu í endann og bjóða áhorfendur velkomna. Hljómar eins og góð uppskrift að flottu atriði sem er í svipuðum stíl og seinustu tvö ár.
Í ár verða póstkortin með þeim hætti að hver keppandi fyrir sig fær pakka sendan heim frá ORF þar sem þeim er boðið að upplifa eitthvað spennandi í Austurríki. Þannig ná Austurríkismenn að slá tvær flugur í einu höggi með því að kynna keppanda til sögunnar á meðan áhugaverður staður í Austurríki er sýndur. Sniðugir.
Allt í allt lýtur þetta virkilega vel út í ár og verður spennandi að sjá hvernig lokaútkoman verður. Yfir hverju eru þið spenntust?