Vínarfarar 2015 athugið!

fasesLogo2Eins og undanfarin ár fær FÁSES margar fyrirspurnir frá þeim sem hyggja á jómfrúarferð í Eurovisionlandið – nú til Vínar í Austurríki. Því er tilvalið að taka saman á einn stað þetta helsta sem þarf að huga að til að ferðin verði sem ánægjulegust.

 Möst að taka með:

  • OGAE skírteinið með 2015 límmiða
  • Eurovision miðana
  • Íslenska fánann og nóg af honum (fólk er alltaf að betla af manni fána og mörgum finnst gaman að skiptast á fánum, barmmerkjum og fleiru). Einnig gaman ef fólk fílar andlitsmálningu að taka hana með!
  • Síma og myndavél. Mælum með notkun kassamerkisins #fáseshjartað og síðan er það klassíkerinn #12stig. Endilega addið Vodafoneis á Snapchat til að fá allt það nýjasta frá íslenska Eurovision hópnum. Sérstakt app er einnig komið fyrir Vín í ár – „Eurovision Song Contest Vienna 2015“ í App store og Google play.

Staðir:

Wiener Stadthalle er höllin í ár eins og allir vita. Eins og alltaf er mikilvægt að fólk leggi tímanlega af stað á keppnirnar til að forðast langar biðraðir (mjög gott að vera kominn 2 tímum fyrir keppni). Athugið að öryggisleit fer fram áður en fólk kemst inn í höllina og það getur tekið drjúgan tíma. Einnig er gott að fylgjast með tölvupóstinum sínum því að þangað gætu borist mikilvæg skilaboð um þetta. Athugið einnig að taka ekki með ykkur fána með löngum prikum – þau eru vanalega klippt þar sem hætta er á sjónvarpsútsending truflist vegna þeirra.

  • Til að komast í höllina: Taka neðanjarðarlest U6 og stoppa á Burggasse-Stadthalle / Urban Loritz-Platz eða neðanjarðarlest U3 og stoppa á Schweglerstrasse. Síðan er hægt að taka tram 6, 9, 18 eða 49 eða strætó nr. 48A. Frekari upplýsingar er hægt að finna á: www.wienerlinien.at

Eurovision village. Hefð hefur myndast fyrir því í gegnum árin að hafa Eurovision þorp í borginni þar sem er útisvið og viðburðir yfir daginn. Nú verður Eurovision þorpið á ráðhústorginu í Vín og verður m.a. hægt að horfa á keppnirnar þar í beinni útsendingu. Austurríkismenn lofa viðburðum á hverjum degi frá hádegi fram á kvöld. Eurovision village opnar 17. maí og verður opið til 23. maí.

Euro Fan Café er sérstakur skemmtistaður aðdáenda Eurovision sem OGAE klúbbarnir í viðkomandi landi skipuleggja. Euro Fan Café verður haldið á EMS Lounge í ár og verður opið frá 17. maí til 24. maí, frá kl. 12 á daginn. Eitthvað verður að gerast á hverju kvöldi, júróvisjón plötusnúðar spila og boðið er upp á mjög fjölbreytta viðburði. Á Euro Fan Café verður hægt að horfa á allar þrjár keppnirnar í beinni útsendingu.

Euroclub er opinber skemmtistaður keppninnar – þar sem stjörnurnar djamma! Í ár gegnir Ottakringer Brewery (nálægt Wiener Stadthalle) hlutverki Euroclub og verður þema staðarins „My number one“ og mun víst allt snúast um sigurlög síðustu sextíu ára. Klúbburinn verður opinn frá 17. maí til 24. maí. Erfitt hefur verið að komast inn á Euroclub án þess að hafa blaðamanna- eða aðdáendapassa en í ár geta áhugasamir mætt á Euro Fan Café 12 á hádegi hvern dag til að sækja sér miða á Euroclub sama kvöld. Til að eiga möguleika á miða verður að mæta í eigin persónu og sýna OGAE skírteini sitt (einn miði per skírteini). Miðarnir eru ókeypis en í takmörkuðu magni – fyrstur kemur fyrstur fær!

Sérstakir viðburðir sem við mælum með:

  • Sunnudagurinn 17. maí: OGAE Austria fagnar 20 ára afmæli á Euro Fan Café. Fullt af stjörnum að syngja!
  • Miðvikudagurinn 20. maí kl. 22: OGAE International partý á Euro Fan Café. Árlegur viðburður sem OGAE International stendur fyrir – fullt af júróvisjónstuði og nóg af bandbrjáluðum aðdáendum. Sjá viðburð á facebook: https://www.facebook.com/events/1440472356253334/.
  • Fimmtudagurinn 21. maí kl. 15:30: FÁSES fyrirpartý á Euro Fan Café. Sjá facebook viðburð: https://www.facebook.com/events/877416002296988/
  • Föstudagurinn 22. maí: Hera Björk verður á Euro Fan Café og OGAE meðlimir keppa í cover-laga keppninni „Ein Lied für Wien – A song for Vienna“. Allir að koma og hvetja Eirík og Flosa áfram!
  • Síðan er um að gera að rotta sig saman í aðra hittinga og deila viðburðum inn á Vínarfarahópnum á facebook: https://www.facebook.com/groups/1394833797477529/