Finnland og Svíþjóð; gjörólík saga nágrannaþjóða í Eurovision


Nú er staðan þannig að nágrannar okkar og vinaþjóðir, Svíar og Finnar, eru langefstir í veðbönkum þegar tippað er á sigurvegara Eurovision 2023. Þjóðirnar sjálfar eru ekki síður nágrannar og vinir. Helsingabotn aðskilur löndin að stærstum hluta en þau eiga svo landamæri á landi nyrst sem eru 555,5 km. Þjóðirnar hafa vissulega einnig tekist á og síðari ár eru þekktastar viðureignir þeirra í íshokkí. En fimmtíu og þrisvar hafa þjóðirnar báðar keppt í Eurovision og varla nokkurn tímann hefur einhverjum dottið í hug að minnast á keppni milli þeirra á þeim vettvangi. Þar til í ár. Nú er farið að tala um keppendurna í ár, Loreen og Käärijä sem turnana tvo. En byrjum á að taka saman nokkrar tölulegar staðreyndir eins og staðan var um síðustu áramót, það er árið í ár er ekki talið með.

Það er alveg ljóst samkvæmt þessu að Svíþjóð hefur gengið betur en Finnlandi í gegnum árin. Miklu betur! Það er því ekki skrýtið að það hafi ekki verið talað um keppni milli þessara þjóða. Sérstaklega er athyglisvert að Svíar hafa 26 sinnum verið á topp fimm meðan Finnar hafa náð þeim árangri aðeins einu sinni. Finnar lifa á sínum eina sigri þegar Lordi hirti dolluna árið 2006. Svíar hafa hins vegar landað sex sigrum í keppninni með reglulegu millibili auk 20 skipta í viðbót á topp fimm. Já vá! Upp kemur í hugann samlíking við sænskt og finnskt fyrirtæki: IKEA og Nokia. Athyglisvert er samt að eitt af þeim fáu skiptum þar sem Finnar hafa haft betur í Eurovision var árið 2006 þegar Finnar unnu og höfðu betur en fyrrum sænskur sigurvegari. Herra Lordi hafði betur en Carola Häggkvist sem hafði sigrað árið 1991 og lenti þarna í fimmta sæti. Svíar eru aftur að senda fyrrum sigurvegara í ár. Loreen sigraði keppnina árið 2012 eins og frægt er orðið.

Frændsemi

Ef sagan er skoðuð er ljóst að Finnar hafa verið duglegri að gefa Svíum stig, miklu duglegri en á hinn veginn. Það kemur varla á óvart miðað við árangurinn. Frá árinu 2016 hefur atkvæðagreiðslan verið tvískipt, annars vegar koma atkvæði frá fagdómnefndum og hins vegar úr símakosningu almennings. Síðan þá höfum við þrjár keppnir þar sem báðar þjóðir hafa verið í úrslitum; 2018, 2021 og 2022. Ef skoðað er hvernig þjóðirnar hafa gefið hvorri annarri stig í þeim keppnum lítur það svona út:

Hér sést að finnska dómnefndin hefur verið dugleg að gefa sænska laginu stig. Einnig hefur sænska þjóðin hrifist af finnska laginu og ekki verið spör á stigin. Sænska dómnefndin hefur aftur á móti verið afar spör á stig til finnska atriðisins og hafa þau aðeins verið þrjú alls þessi þrjú ár. Finnska þjóðin er aftur á móti í meðaltalinu og er mishrifin af sænska atriðinu. Þarna eru tvær tólfur og það alveg á sitthvorn veginn; finnska dómnefndin hreyfst af Corenliu Jakobs í fyrra og sænska þjóðin lá kylliflöt fyrir Blind Channel í hitteðfyrra. Nú eru margir sem spá því að Loreen vinni dómnefndaratkvæðin og Käärijä vinni símakosninguna. Það eru þá líka líkur á að finnska dómnefndin gefi Loreen fullt hús og sænska þjóðin gefi Käärijä fullt hús ef þróunin verður svipuð.

Tungumál

Finnar hafa verið nokkuð duglegir að syngja á eigin tungumáli og hafa oft gert það þótt reglan hafi verið þannig að það megi syngja á hvaða tungumáli sem er. Þrjátíu og fjögur framlög þeirra eru á finnsku á meðan 20 framlög hafa verið flutt á ensku og eitt á sænsku! Svíar hafa hins vegar forðast þjóðartunguna eins og hægt er. Frægt var árið 1965 þegar Ingvar Vixell flutti framlag Svía, Absent Friend á ensku. Þá var engin tungumálaregla komin en henni var skellt á í hvelli. Tungumálareglan var svo afnumin árið 1973 og sett á aftur 1977. Árið 1999 var hún svo aftur aflögð og hefur verið frjálst að syngja á hvaða tungumáli sem er síðan. Eftir að Jill Johnson endaði lagið Kärleken är á að syngja lokalínurnar Om at kjærligheten er árið 1998 hafa Svíar ekki sungið stakt orð á sænsku á Eurovisionsviðinu. Það er aðeins hin finnska Pernilla sem söng lag á sænsku árið 2012 När jag blundar. Einmitt þegar Loreen vann. Nei Svíar hafa alfarið haldið sig við ensku síðan, fyrir utan að Marlena Ernman söng hluta lagsins La Voix á frönsku árið 2009. Svíar hafa því í heildina sungið 34 sinnum á sænsku, 26 sinnum á ensku og einu sinni á frönsku og ensku. Finnar hafa í 61,8% tilvika sungið eingöngu á móðurmálinu meðan þetta hlutfall er 55,7% hjá Svíum. Í þau þrjú skipti sem Finnum hefur gengið best í Eurovision voru framlög þeirra á ensku Hard Rock Hallelujah 2006, Tom Tom Tom 1973 og Dark Side 2021. Þau tvö síðarnefndu enduðu bæði í sjötta sæti. Finnar hafa fjórum sinnum endað í sjöunda sæti og eru þrjú laganna á finnsku. Fjögur af sex sigurlögum Svía eru flutt á ensku, tvö á sænsku. Svíar hafa aðeins einu sinni endað í öðru sæti, en það var árið 1966 með lagið Nygammal vals. Sex sinnum hafa þeir endað í þriðja sæti. Fjögur laganna eru á sænsku og tvö á ensku.

Gruppbild från Eurovision 2014

Loreen og Käärijä

Eurovisiondrottningin Lorine Zineb Nora Talhaoui eða Loreen fæddist í Stokkhólmi, en foreldarar hennar eru flóttafólk frá Morokkó. Hún tók þátt í Melodifestivalen í fjórða sinn nú í vetur. Það gerðist fyrst árið 2011, hún sigraði svo 2012 og gjörsigraði Eurovisionkeppnina í framhaldinu eins og frægt er orðið með lagið Euphoria. Hún tók svo þátt aftur árið 2017 en komst ekki í úrslit.

Jere Pöyhönen sem kallar sig Käärijä er fæddur í Helsinki. Hann er lagahöfundur, söngvari og rappari. Hann gaf út fyrstu plötuna sína fyrir aðeins þremur árum síðan, árið 2020. Eftir þátttöku í UMK í ársbyrjun er hann orðinn þjóðþekktur í Finnlandi og sannkallað Käärijä-æði runnið á finnsku þjóðina.

Bæði lögin, Tattoo og Cha Cha Cha kepptu í seinni helmingi fyrri undankeppninnar þann 9. maí síðastliðinn og voru þrjú lög á milli þeirra. Bæði lögin flugu auðvitað í úrslit. Það sama verður á tengingnum á morgun, þau verða númer 9 og 13 núna og aftur þrjú lög á milli.  Þann 16. október næstkomandi fagnar Loreen fertugsafmæli sínu. Fimm dögum síðar, 21. október fagnar Käärijä þrítugsafmælinu sínu. Það er því næstum akkúrat tíu ár á milli þeirra og þau eru í sama stjörnumerki, Voginni. Henni er oft lýst sem heillandi, listrænum friðarsinna. Algjörlega eins og maður vill hafa Eurovisionstjörnur.

En ef annað hvort landið vinnur er ljóst að um söguleg úrslit verður að ræða. Annað hvort eru Svíar að fara að ná meti Íra ef þeir landa sjöunda sigrinum eða fyrsta Eurovisionlagið á finnsku vinnur keppnina. Einnig er afar líklegt að Finnar nái sínum næstbesta árangri í Eurovison til þessa og að minnsta kosti þeim besta með lag á finnsku. Eitt er víst að Eurovision aðdáendur og trúlega meirihluti íbúa á Norðurlöndum er alveg að farast úr spenningi.

Skýringar:
Það er talið með þegar sætum var deilt með öðrum. Til dæmis þegar lag lenti í 10.-12. sæti er það talið sem 10. sæti.
Ef land lentí í síðasta sæti í forkeppni er það talið með.
Löndin skildu jöfn árið 1962 með sama stigafjölda.
Myndin með Pollapönksmeðlimum er tekin í Norðurlandapartýinu 2014.  Fyrir miðri mynd í efri röð er Sanna Nielsen, keppandi Svíþjóðar og lengst til vinstri í neðri röð er Topi Latukka, söngvari finnsku hljómsveitarinnar Softengine. Öll Norðurlöndin komust áfram þarna en það hefur ekki gerst síðan.
Sérstakar þakkir fær Ástríður Margrét Eymundsdóttir við vinnslu þessarar greinar.