Júró-Gróa vol. IV – Aserskt ættleiðingarferli og (aðeins of) vel girtir Írar


Halló halló! Gróan er nú aldeilis búin að dansa í stjörnufans síðan við heyrðumst síðast. Nú er báðum forkeppnum lokið og ekki laust við að Gróan sé með pínu kökk í hálsinum og vill bara þakka elsku Diljá og öllu teyminu hennar kærlega fyrir að vera svona miklir æðibitar. Þið eruð frábær, elskurnar mínar og Gróa frænka ætlar að skála í Séníver (ef hann fæst ennþá) í kvöld, ykkur til heiðurs. En það má ekki dvelja lengi við sorg og sút, enda er það ekki íslenska leiðin, svo við skulum kíkja aðeins á bakvið tjöldin í Liverpúll búbblunni okkar.

Á þriðjudagskvöldið kepptu frændur okkar Írar og vöktu svo sannarlega athygli…bæði góða og slæma. Gróan jesúsaði sig nú bara í bak og fyrir þegar hún fékk hreinlega eitt stykki kameltá nánast lóðbeint í vel farðað fésið á sér. Hún getur svo sem sjálfri sér um kennt að hafa borgað sig inn á svona góða staðsetningu í salnum. Ekki höfðu nú blessaðir drengirnir í Villtu Æskunni erindi sem erfiði og komust ekki áfram. En seinna um kvöldið mætti svo kamelknapinn sjálfur, hann Connor vinur okkar, í Lush Lounge niður í bæ og var í áberandi loðinni peysu og með sólgleraugu. Um miðja nótt. Stráksi var svo víst alveg rasandi hissa á að allir þekktu sig og Gróan hristir nú bara hausinn. Þetta svokallaða dulargervi hans var álíka trúverðugt og þegar hann reyndi að telja allri Evrópu og Ástralíu trú um að hann væri að syngja í alvörunni þarna fyrr um kvöldið. Svo þarf nú meira en lobbara og brillur til að plata sanna júróaðdáendur, ohohohojájá…

En að öðru. EBU er alveg púnkterað yfir því að meirihluti staðbundinna áhorfenda Eurovision í ár eru eldri samkynhneigðir menn. Það ku einnig vera nokkur kurr í fólki þar á bæ út af þessu. Smá svona pirringur ef Gróa skildi heimildamanninn sinn rétt.  En nú skulum við aðeins anda og skilgreina þessa miklu ráðgátu… Og lausnin blasir við þegar vel er að gáð. Það er ósköp skiljanlegt að helstu gestirnir séu eldri menn, sem eru búnir að koma sér vel fyrir í lífinu og hafa pening og tíma til að ferðast. Og það hjálpar ekki málstað EBU þegar aðdáendapakkinn kostaði 960 pund! Aðdáendur í yngri kantinum eru kannski ekki alveg tilbúnir að lifa á ísmolum og kattamat í heilt ár til að geta farið á keppnina. Og hananú! Gúdd tú góaðu það, Martin Österdahl!!

Gróan lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á JúróDaða tónleika Daða Freys í gærkveldi þar sem hann tók Eurovision slagara með sínu nefi. Og hans heittelskaða Árný söng og dansaði og stal algjörlega senunni – þvílík stjarna! Eitt síðasta lag Daða var Everyway That I Can (Tyrkland 2003) og hversu viðeigandi var, að á leið sinni frá tónleikunum á Euroclub rakst Gróan bókstaflega á góðvin okkar allra, hinn tyrkneska meistara Serhat sem er í bænum til að koma fram á tónleikum til styrktar þolendum skjálftans sem þar reið yfir í febrúar sl. Jiii,Gróan er ennþá veik í hnjánum eftir þann fund. Þvílíki sjarmagúbbinn!

Á Euroclub skálaði svo Gróan við Conchitu Wurst, Tinu Karol, Selmu og Friðrik Ómar – alltaf svo gaman þegar gömlu beyglurnar koma aftur saman. Gróan viðurkennir alveg að hún var farin að fá smá ryk í augun undir það seinasta þegar að hún og Conchita voru búnar að fara í drykkjukeppni og voru teknar við að kyrja austurríska fjallasöngva, lóðbeint úr hlíðum Týról. Þið hafið bara ekki lifað fyrr en þið eruð búin að radda slagara á borð við “Alplermarch” með drottningunni af Austurríki. Er að segjykkurðað…

Asersku tvíburabræðurnar Turan og Tural eltu Gróu á röndum á Euroclub í gær – eflaust vekur hún upp einhverjar móðurlegar tilfinningar hjá elsku drengjunum! Og komi þessar elskur bara fagnandi! Gróan hefur svo sannarlega pláss í hjartanu fyrir þessa yndislegu stráka sem voru ekkert nema kurteisin og krúttlegheitin uppmálaðir. Og það var eins gott að þeir leituðu skjóls hjá Gróunni því þeir sjálfir voru hundeltir af misdrukknum aðdáendum sem vildu fá lokka úr hári þeirra og eitthvað svoleiðis. En þrátt fyrir að hafa dottið út, voru strákarnir bara kátir með lífið og tilveruna og ánægðir með að hafa fengið að upplifa júróbúbbluna okkar dásamlegu.

En nú er dagur að kvöldi komin hér í Liverpool og Gróan ætlar að fara að skrölta heim á leið. Hælaskórnir eru aðeins farnir að meiða hana eftir svona langan og strangan dag. Hún heyrði í Paul BFF Hollywood áðan og hann lofaði að vera tilbúinn með sjóðandi heitt Earl Grey og smjörkökur með kirsuberjasultu þegar Gróan er búin að bregða sér í eitthvað þægilegra. Þar til næst gullin mín.