Júró-Gróa vol. III – Sænskir dívustælar og Bailey´s bleyta


Gróan heilsar alveg geislandi af gleði frá Englandshreppi og er satt að segja byrjuð að kippa svolítið, því í blaðamannahöllinni nýopnuðu er barasta boðið upp á fría Bailey´s kokteila! Jidúddamía hvað Gróan var glöð, því ekki er séð fyrir þörfum kaffiþyrstra þar á bæ. Eingöngu boðið upp á eitthvað þriðja flokks skyndikaffi og þá er nú eins gott að hægt er að væta kverkarnar í þessum dýrindisdrykk sem Bailey´s er. Gróan mælir eindregið með strawberry mint delight týpunni. Nammi namm. En vindum okkur í þetta á meðan ykkar einlæg er ennþá skrifandi.

Gestir á hóteli slóvensku og moldóvsku sendinefndarinnar voru vaktir við brunabjölluna eldsnemma á föstudagsmorgun hér í Liverpool og ekki laust við að skjálfti væri í misvakandi gestum hótelsins. Opinbera skýringin frá hótelstjóranum er sú að einhver á 1. hæð hafi verið að taka mjög heita og langa sturtu, enda fátt sem er betra á morgnanna. En gæinn glotti nú út í annað í leiðinni svo Gróa heldur að þetta hafi mögulega verið einhverjum jónuglöðum gesti um að kenna frekar en hitt, því slóvensku sendinefndinni þykir víst ansi hressandi að svæla eina og eina upprúllaða fyrir utan aðaldyr hótelsins og lætur sér í léttu rúmi liggja hver sér til þeirra. Gróunni finnst nú í lagi að fólk lifi sínu lífi og allt það, en ekki ræna aðra dýrmætum nætursvefni og ekki reykja inná herbergi! Það er bara dónaskapur, krakkar!

Föstudagskvöldið hér Lifrarpolli var líflegt og að vanda buðu norrænu sendinefndirnar í heljarinnar partý. Þar voru margir góðir gestir mættir til að fagna, t.a.m. sendinefndir San Marínó, Tékklands, Litháens og Írlands. Einnig var danski Grikkinn hann Victor á staðnum en hann er orðinn stórvinur Gróunnar, sem gerði sitt besta til að leggja blessuðu barninu lífsreglurnar ásamt því að viðra sína alkunnu dönskukunnáttu þegar hún spjallaði við karl föður hans. Einstaklega kurteisir og viðkunnalegir feðgar þar á ferð. Svisslendingurinn Remó remúlaði djammaði af sér rassgatið á dansgólfinu og Eistland fékk að vera með sem partur af Norðurlöndunum, enda eru þau eiginlega hluti af teyminu og megi þau bara alveg hanga með okkur það sem eftir er.

En þó gaman hafi verið í norræna partýinu og allir vinir þar, þá var sænska þjóðargersemin Loreen ekki að gera gott mót daginn eftir, því hún hætti við Hitt&Heilsað með blaðamönnum og aðdáendum hér í Liverpool á seinustu stundu, því ekki var farið að skilyrði hennar um að eingöngu pressan mætti. Ursäkta, en Gróan finnur sig nú bara knúna til að benda stúlkunni góðfúslega á að aðdáendur eru RISASTÓR partur af prógramminu og alls ekki fallegt að snúa bara upp á sig í einhverju fússi þegar fólkið sem dýrkar hana og dáir vill fá að berja hana augum. Það má alltaf fara kurteislega að hlutunum, ekki satt? Dívustælar klæða engan og eru hvimleiður fylgifiskur. Ef hún er svona upptrekkt er kannski spurning um að slóvenska sendinefndin bjóði henni eitthvað slakandi? Þeir virðast eiga birgðir. Nei, segi nú bara svona…

Orðrómur gengur meðal viðstaddra hér í Liverpool að sómi borgarinnar, sverð hennar og skjöldur, sjálfur Paul McCartney komi fram á úrslitunum og syngi lag John Lennon, Imagine. Gvöð! Gróan er að missa það af spenningi núna og fylgist auðvitað grannt með höllinni til að athuga hvort hún reki augun í einhvern dularfullan fylgdarakstur í höllina og grunsamlegar lokaðar aukaæfingar. Það væri nú ekki dónalegt að fá eitt stykki Bítil á sviðið til að leiða krúttlegan fjöldasöng.

Meira hefur Gróan ekki í bili, en örvæntið eigi, því það er svo mikið að gerast og ekki gerast að hún hefur varla undan að fylgjast með í öllum hornum hússins og þið verðið mötuð jafnóðum á heitasta slúðrinu um leið og það kemur í hús. Í millitíðinni ætlar Gróan að taka einn Bailey´s í viðbót… það er í raun samfélagsleg skylda hennar að smakka saltkaramelluna líka… ummm og mintukokteilinn… yfir og út að sinni elskurnar!