Þemu Eurovisionárgangsins 2023


Í hverri Eurovisionkeppni má greina margs konar þema sem oft endurspeglar mikilvæg umræðuefni Evrópu hverju sinni. Í Eurovision keppninni 1990, sem haldin var stuttu eftir fall Berlínarmúrsins, fjölluðu 7 af 22 lögum um frið, frelsi, sameiningu eða fall múra. En hvað ætli árgangurinn sem nú er undirbúningi hér í höllinni í Liverpool beri helst með sér?

Þegar kemur að umfjöllunarefnum laganna ber að sjálfsögðu fyrst að nefna innrásarstríð Rússlands í Úkraínu. Tvorchi flytur lagið Heart of Steel sem er óður til Úkraínubúa sem héldu til í stálverksmiðjunni Azovstal í Mariupol og sendu hvatningarmyndbönd til landa sinna þrátt fyrir að búa við stöðugar árásir Rússa á verksmiðjuna. Við þetta má síðan bæta að Úkraínubúar héldu ótrúlegustu undankeppnina fyrir Eurovision. Hún var haldin í lestarstöð undir Maidantorgi í skugga innrásarstríðs Rússa og víðtæks rafmagnsleysis og var svo til eingöngu keyrð á ljósavélum. Króatar eru líka með sterkt númer þegar kemur að boðskap. Lagið Mama ŠČ! er flutt af Let 3 og fjallar um mömmu sem keypti traktor. Það er annars vegar skírskotun í Úkraínubúa að draga yfirgefin stríðstól Rússa af ökrum sínum með traktorum og hins vegar afmælisgjöf einræðisherra Belarús, Lukachenko, til Pútíns í tilefni sjötugsafmæli hans síðastliðið haust. Boðskapi lagsins er fylgt eftir með kröftugri sviðsetningu þar sem m.a. má sjá eldflaugar, Stalín í dragi, stútungskalla með rós í rassinum og grafík sem er í raun sovéskt propaganda veggspjald.

Frá fyrstu æfingu Króata í Liverpool. Mynd: EBU / Sarah Louise Bennett.

Í svissneska framlaginu Watergun syngur Remo Forrer um að vilja ekki vera hermaður og nú sé ekki verið að leika sér með vatnsbyssur. Serbneski Luke Black syngur um að heimurinn sé að brenna og að hann vilji bara sofa í laginu Samo Mi Se Spava og hefur því verið tekið sem tilvísun til innrásarstríðs Rússa og loftsbreytingar. Tékkneska framlagið My Sister’s Crown sem er flutt af Vesna vísar til krúnu systur minnar sem tákn fyrir sjálfstæði og frelsi slavneskra kvenna og með sérstakri tilvísun til úkraínskra kvenna í stríði og þeim hörmungum sem konur í stríði þurfa að þola. Hljómsveitarnafnið sjálft Vesna merkir von eða frjósemisgyðju og er þannig tákn um að hörmungarnar muni einhvern tímann taka enda. Lagið er flutt á tékknesku, ensku, búlgörsku, og úkraínsku og tikkar reyndar einnig í næsta þema keppninnar um kvennakraftinn því í laginu er vísað til samheldni og samvinnu kvenna í fyrrum Sovétríkjunum.

Vesna á æfingu í Liverpool. Mynd EBU / Chloe Hashhemi.

En það eru ekki bara Tékkar sem eru í eftirköstum #metoo hreyfingarinnar og valdeflingu kvenna. Hin breska Mae Muller syngur um mann sem fer hrikalega illa með hana en í staðinn fyrir að rústa Bensinum hans snýr hún reiðinni upp í uppbyggileg lagaskrif í laginu I Wrote A Song. Alessandra flytur Queen of Kings fyrir Noreg um drottninguna sem breiðir út vængi sína og er valkyrja norður- og suðurhafa. Teya og Salena flytja lagið Who The Hell Is Edgar? og lagið vísar til erfiðleika þess að vera kvenkyns lagahöfundur í stórukarlaheimi en einnig til þess hversu lagahöfundar bera í raun lítið úr bítum í þeirri streymisveituveröld sem við búum, sbr. tilvísun til 0,003%. Önnur þemu má nefna en umfjöllunarefnið svefn eða vögguvísu er að finna í framlögum Letta, Serba, Ítala og Spánverja.

Mörg hafa einnig nefnt hversu margar hljómsveitir eru í Eurovisionárganginum 2023. Þetta eru eflaust áhrif sigurvegaranna 2021, Måneskin, og 2022, Kalush Orchestra. Þessi greinarhöfundur telur alls 10 sveitir í ár; Lord of the Lost frá Þýskalandi, Wild Youth frá Írlandi, Vesna frá Tékklandi, Joker Out frá Slóveníu, Piqued Jacks frá San Marínó, Voyager frá Ástralíu, Albina & Familja Kelmendi frá Albaníu, Let 3 frá Króatíu, Sudden Lights frá Lettlandi og The Busker frá Möltu.

Voyager á annarri æfingu í Liverpool. Mynd EBU / Sarah Louise Bennett.

Þegar æfingar hófust hér í Liverpool í síðustu viku vakti einnig mikla athygli hversu margir flytjendur flytja lag sitt að hluta til liggjandi á gólfinu. Fóru meðfylgjandi myndir af Loreen frá Svíþjóð, Luke Black frá Serbíu, Reiley frá Danmörku, Victori frá Grikklandi, Brunette frá Armeníu og okkar eigin Diljá á flug.

Þegar kemur að sviðsetningu framlaganna eru sviðspallar einnig áberandi. Þannig eru einhvers konar pallar notaðir í atriðum Finnlands, Svíþjóðar, Þýskalands, Íslands, Frakklands, Armeníu og Spánar. Fatnaður í heitum litum; rauðum, appelsínugulum og bleikum er ákaflega vinsæll í ár og taka kynnarnir meira segja þátt í því gamani. Fatnaður í candyfloss bleikum er áberandi í atriðum Danmerkur, Tékklands, Belgíu og Rúmeníu en má einnig sjá hjá Slóveníu, Póllands og Króatíu. Loks eru dansarar Finnlands og Bretlands í bleikum fatnaði.

Belgía á annarri æfingu sinni í Liverpool. Mynd: EBU / Sarah Louise Bennett.