Bergmál berst frá Tblisi – Iru til Liverpool


FÁSES-liðar, sem og allir og amma þeirra í Evrópu og Ástralíu eru í óða önn að pakka niður fyrir ferðina til Liverpool og ekki úr vegi að taka smá pásu frá því að flokka sokka og kíkja á hvað Kákasuskrúttin í Georgíu ætla að bjóða okkur upp á í ár, en það verður söngkonan Iru og lagið hennar “Echo” sem munu gera atlögu að aðalkeppninni og reyna að bergmála sig í fyrsta sætið.

Georgía er sennilega eitt afslappaðasta landið í Eurovision og fátt virðist hagga þessari ágætu þjóð sem kúrir niður við Svartahaf og nennir voða lítið að vera að stressa sig á hlutunum, ólíkt nágrönnum sínum í Azerbaijan og Armeníu. Georgíumenn eru reyndar alltaf til í að flippa svolítið og prófa eitthvað nýtt á hverju ári. Í fyrra, sælla minninga, buðu þeir upp á dásamlegu sýrupopparana í Circus Mircus og sveppatrippið þeirra “Lock me in” en höfðu því miður ekki erindi sem erfiði. “O jæja” sögðu fróðir menn, ypptu öxlum og snéru sér að næsta verkefni, sem var The Voice Georgia, en þangað ákvað georgíska sjónvarpið GPB að sækja keppanda sinn í ár. GPB hefur farið mismunandi leiðir í gegnum árin við val á keppendum, en þeir hafa ýmist valið innbyrðis, í gegnum forval eða hæfileikakeppni á borð við The Voice og Idol, en árið 2019 völdu þeir einmitt hann Oto Nemzadze í gegnum Idol. En í ár var það hún Iru sem bar sigur úr býtum í The Voice Georgia (hún söng sig einmitt til sigurs með “Euphoria”) og mun því vera flaggskip þjóðar sinnar í Liverpool þar sem hún mun flytja lagið “Echo”.

Iru heitir fullu nafni Irina Khechanovi og er af armenskum ættum. Hún er fædd í Tblisi árið 2000 og er nú reyndar ekkert óvön því að vera í Eurovision búbblunni, en þegar hún var 11 ára, var hún einn af meðlimunum í poppgrúppunni Candy sem keppti fyrir hönd Georgíu í Junior Eurovision Song Contest í Yerevan. Þær stöllur gerðu sér reyndar lítið fyrir og unnu allt heila klabbið. Svo Iru veit alveg nákvæmlega hvernig það er að lyfta verðlaunagripnum góða á Eurovision sviðinu. Fari svo að Georgía sigli alla leið til sigurs í maí, verður það í fyrsta skipti sem fyrrum sigurvegari JESC vinnur “fullorðinskeppnina”, en elsku Destiny frá Möltu reyndi og mistókst það ætlunarverk árið 2021.

“Echo” er á ágætum stað hjá veðbönkum (ekki það að við tökum mikið mark á svoleiðis, en sumir telja þá vera guðspjallið sjálft) og situr í augnablikinu í 14. sæti yfir líklegustu sigurvegarana. Lagið er samið af Iru sjálfri og þeim Giorgi Kukhianidze og Beni Kadagidze og var reyndar allra seinasta lagið til að mæta í partýið en Georgíumenn kunna svo sannarlega að vera “fashionably late” og biðu fram á seinustu millisekúnduna með að tilkynna framlag sitt, sem var matreitt spes fyrir Iru. Þetta er taktfast með etnískum áhrifum og eiginlega mjög georgískt á allan hátt. Kunnugir munu ósjálfrátt hugsa til “Visionary Dream” sem var einmitt frumraun Georgíu árið 2007. Það er nú ekki leiðum að líkjast, er það nokkuð?

Iru mun stíga á svið í seinni helmingi seinni undanúrslitana þann 11. maí næstkomandi og henni til heiðurs skálum við bara í rauðvíni og segjum “Gangi þér vel”.