Eurovision vínpotturinn fyrir vinnustaðinn 2023!


Að vanda erum við búin að uppfæra Eurovision vínpott FÁSES sem er fyrir löngu orðin klassík hjá vinahópum og vinnustöðum til að auka á Eurovision spennuna! Þátttakendur í vínpottinum eru á einu máli að spennan sé óbærileg og að aðeins keppendurnir í Eurovision geti skilið spennuna sem fylgir því að taka þátt í pottinum!

Fyrst þarf að byrja á að ákveða hvað er leyfilegt að leggja inn í pottinn til að gerast þátttakandi. Hægt er að hafa t.d. vín, bjór, sælgæti, snakk, nammi, gos eða hvað sem hugurinn girnist og jafnvel blanda saman.

Hér er hægt að nálgast þátttökumiðana til að prenta út sem þátttakendur draga þegar þau leggja inn verðlaunin í pottinn og hér er yfirlitsblað til að halda utan um þátttakendur. Potturinn samanstendur þá af 37 þjóðum, ef þátttakendur eru fleiri en 37 er hægt að prenta út tvö sett af þátttökumiðum og hafa þá tvo vinninga fyrir hvert sæti. Ef það eru færri keppendur má t.d. nota bara þau 26 lönd sem komast í úrslit og sleppa vinningum fyrir undankvöldin en þá eru vinningarnir 5.

Pottinum sem þátttakendur skila inn þarf að skipta svo í 7 vinninga. Þau sem drógu landið sem lenti í fyrsta, öðru, þriðja, sextánda og síðasta sæti í úrslitunum og ellefta sæti í hvorri undankeppni fá þá vinninginn. Ef enginn þátttakandi dró landið sem varð í sætinu sem á vinninginn færist vinningurinn í næsta sæti fyrir neðan o.s.frv.

REGLUR

1. Byrja þarf á því að skipa stjórn pottsins. Stjórnin hefur ákvarðanatökuvald í vafamálum og skiptir pottinum í fjórtán vinninga. Stjórnin sér svo um að ákvarða vinningshafa eftir að endanleg úrslit hafa verið kynnt eftir lokakvöldið.
2. Þátttakendur geta flestir verið 37, hægt er að tvöfalda pottinn og hafa vinningana þá 14 eða fækka í pottinum og hafa bara löndin 26 sem komast í úrslit og fækka vinningum í fimm.
3. Hver þátttakandi leggur til eina rauðvínsflösku (má líka koma með hvítvín eða kippu af bjór eða hvaðeina sem fólki dettur í hug) og fær í staðinn að draga einn miða sem á er nafn einnar þátttökuþjóðar. Síðasti dagur til að gerast aðili að sjóðnum er föstudagurinn 5. maí 2023 klukkan 18:00 CET (16:00 á íslenskum tíma) Stjórn sjóðsins heldur utan um hver dregur hvaða land á yfirlitsblaði sem er fylgiskjal með þessum reglum.
4. Flöskunum (eða það sem fólk vill hafa í vinning) sem safnast er skipt í 7, 14 eða 5 vinninga eins og hentar hverju sinni. Stjórn ákveður hvað er í vinning fyrir hvaða sæti. Skiptingin þarf að vera klár föstudaginn 12. maí fyrir klukkan 18:00 CET (á íslenskum tíma 16:00). Stjórnin skal skipa fulltrúa innra eftirlits sem skal sjá til þess að skiptingin sé framkvæmd á óumdeilanlegan hátt.
5. Vinningarnir fara til þess lands sem lendir í þessum sætum:
– 1. sæti á lokakvöldinu
– 2. sæti á lokakvöldinu
– 3. sæti á lokakvöldinu
– 16. sæti á lokakvöldinu
– síðasta sæti á lokakvöldinu
– 11. sæti á fyrra undankvöldi
– 11. sæti á seinna undankvöldi
6. Fari svo að enginn hafi dregið það land sem lenti í sætinu sem hlaut vinning fær það land sem lenti í næsta sæti fyrir neðan viðkomandi vinning. Fari til dæmis svo að Ísland vinni, en enginn dró Ísland, fær sá sem lenti í öðru sæti vinning fyrsta sætis. Sá sem lenti í þriðja sæti fær svo vinning þess sem átti að fá annað sæti. Fari svo að einungis einn hafi dregið viðkomandi land sem lenti í ákveðnu sæti fær hann allan pottinn fyrir viðkomandi sæti.