Hálf öld í dag: Lúxemborg vinnur hlutfallslega stærsta sigurinn, land utan Evrópu með og kvenkyns hljómsveitastjórar í fyrsta sinn


Átjánda Eurovisionkeppnin var haldin í Lúxemborg 7. apríl 1973 eða fyrir nákvæmlega hálfri öld í dag. Keppnin var haldin í Grand Théâtre de Luxembourg, alveg eins og ellefu árum áður. Fyrsti keppandi á svið var hin finnska Marion Rung, líka alveg eins og ellefu árum áður. Kynnir var hin þýska Helga Guitton.

Þessi keppni er merkileg fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi gafst þátttakendum aftur kostur á að syngja á hvaða tungumáli sem er, það er tungumálareglan hafði verið afnumin – í bili. Í öðru lagi var Ísrael með í fyrsta skipti og var fyrsta landið utan Evrópu til að taka þátt, en þeir voru þá orðnir meðlimir í EBU. Þessi ákvörðun þótti umdeild og kallaði á aukna öryggisgæslu á keppninni. Í þriðja lagi var í fyrsta skipti kvenkyns hljómsveitarstjóri og það bæði hjá Ísrael og Svíþjóð. Monica Dominique heitir sú sænska og sú ísraelska heitir Nurit Hirsh. Þær voru báðar höfundar laganna sem þær stjórnuðu, You Are Summer og Ey Sham. Það hafa heldur aldrei aftur verið fleiri kvenkyns hljómsveitarstjórar á einni keppni þótt þær hafi aðeins verið tvær. Nurit var aftur hljómsveitastjóri árið 1978 þegar Ísraelar unnu með lagið A Ba Ni Bi.  Aðeins ein kona hefur bæst í hópinn eftir það, hin svissneska Anita Kerr árið 1985. En talandi um Svíþjóð, í Melodifestivalen þetta árið keppti líka lítt þekktur kvartett, ABBA. Þau fluttur þar lagið Ring Ring sem hlaut ekki brautargengi. En við þekkjum söguna um ABBA og hvað gerðist næst. Ef ekki þá verður framhald á næsta ári.

Margir hafa dálæti á Nicole og Hugo sem fluttu belgíska lagið, Baby Baby. Þau lentu reyndar í síðasta sæti. Þau höfðu einnig reynt að komast í Eurovision tveimur árum áður, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Nicole og Hugo voru hjón, giftu sig í desember 1971 og voru enn saman, bæði í hjónabandi og tónlistinni þegar Nicole lést eftir erfið veikindi í nóvember á síðasta ári. Massimo Ranieri keppti fyrir Ítalíu öðru sinni, enn hann keppti líka árið 1971. Núna flutti hann lagið Chi sarà con te og varð í 13. sæti. Massimo er enn að og tróð síðast upp á Sanremo í ár.

Í þriðja sæti varð hinn breski Cliff Richard, nú Sir Cliff Richard, með lagið Power to All Our Friends. Sir Cliff varð í öðru sæti í Eurovision árið 1968 og tapaði þá með minnsta mögulega mun fyrir hinni spænsku Massiel, en þá flutti Cliff lagið Congratulations. Power to All Our Friends er eftir Guy Fletcher og Doug Flett. Lagið varð kannski ekki eins vinsælt og Congratulations, en náði samt sem áður fjórða sæti á breska vinsældarlistanum og náði efsta sætinu á vinsældarlista í sex öðrum löndum.

Silfurhafarnir voru spænski hópurinn Mocedades með lagið Eres Tu eða Þú ert. Lagið er eftir Juan Carlos Calderón. Meðlimir Mocedades voru Amaya Uranga, Roberto Uranga, Sizaskun Uranga, Carlos Zubiaga, Javier Garay og José Ipiña. Ekkert annað lag sem hefur lent í öðru sæti í Eurovision hefur fengið hlutfallslega fleiri stig, ef fengnum stigum er deilt með hæsta mögulega stigafjölda. Hlutfalið er 78,13% og eru aðeins sex sigurlög (af 69) með hærra hlutfall. Þess ber þó að geta að stigakerfið sem var við líði árið 1973 var aðeins notað í þetta eina skipti. Eres Tu náði níunda sætinu á Billboard Hot 100 vinsældalistanum í Bandaríkjunum. Lagið varð líka vinsælt á ensku, hét þá Touch the Wind og er textinn eftir Mike Hawker.

Lagið sem sigraði heitir Tu te reconnaîtras eða Þú munt þekkja sjálfan þig og það var Anne-Marie David sem flutti fyrir gestgjafaþjóðina Lúxemborg. Lúxemborg var þarna að vinna keppnina annað árið í röð og í fjórða sinn í heildina. Anne-Marie er fædd í Morocco en hefur lengst af búið í Frakklandi. Tu te reconnaîtras er eftir Claude Morgan. Ekkert lag hefur fengið hlutfallslega fleiri stig í Eurovision eða 80,63%, en eins og áður segir, var stigakerfið þetta árið einstakt. Næst hæst er breska lagið Save Your Kisses for Me frá árinu 1976 með 80,39%. Eru þetta einu lögin sem hafa náð 80 prósent markinu. Lagið er á frönsku, en Anne-Marie gaf það líka út á ensku, þýsku, spænsku og ítölsku. Það er svo til með öðrum söngkonum á allavega tyrknesku, finnsku og pólsku. Anne-Marie tók svo aftur þátt í Eurovision sex árum síðar, árið 1979. Þá var hún fulltrúi Frakklands með lagið Je suis l’enfant soleil og hafnaði í þriðja sæti. Anne-Marie kemst á áttræðisaldur í þann 23. maí næstkomandi þegar hún fagnar 71 árs afmæli. Sama dag fagnar önnur Júró-sigurdrotting afmælinu sínu, en hin þýska Lena Meyer-Landrut fæddist á 39 ára afmælisdegi Anne-Marie.