Tell me more, tell me more! Aserbaídsjan sendir tvíbura til Liverpool


Aserbaídsjan er búið að velja sitt framlag fyrir Eurovision árið 2023! Tvíburabræðurnir Tural og Turan Baghmanov, eða öllu heldur: TuralTuranX fara til Liverpool með lagið sitt Tell me more. Engin forkeppni var haldin í Aserbaídsjan í ár og voru því bræðurnir valdir sérstaklega af ITV. Fimm flytjendur voru á lista og voru það: Emrah Musayev & Humay Aslanova, Leyla Izzetova, Mamagama, Azer Nesibov ásamt bræðrunum. 

TuralTuranX hafa spilað saman síðan þeir voru í grunnskóla. Þeir byrjuðu að spila út á götu fyrir gangandi vegfarendur og hafa komið fram með hljómsveitinni The Red Jungle. Tvíburarnir sömdu lagið ásamt Nihad Aliyev og Tunar Taghiyev. Lagið Tell Me More er vintage mjúkrokk og segjast þessir ungu bræður (22ja ára!) vera undir áhrifum tónlistar frá sexunni og sjöunni. Orðið á götunni er að mikil ánægja ríki með að framlag Asera í keppninni í ár sé sótt til heimamanna.

Aserbaídjsan hefur gengið mjög vel síðan þeir hófu þátttöku sína í Eurovision árið 2008. Fimm sinnum hafa þeir náð topp fimm sæti og eiga þeir einnig einn sigur að baki, en það var árið 2011. Þeir hafa þrettán sinnum af fjórtán skiptum komist áfram upp úr undankeppninni, svo það verður spennandi að sjá hvað þeim bræðrum tekst að gera í ár, en þeir stíga á sviðið í fyrri undankeppninni þann 9 .maí næstkomandi.