Dramatík í Póllandi: Gladíatorar, fyrirsætur, kosningasvindl og Booty


Pólverjar byrjuðu þátttöku sína í Eurovision með látum árið 1994 með lagi Edytu Górniak To Nie Ja! og lentu nokkuð örugglega í 2. sæti það ár. Pólland hefur þó ekki staðið undir þessari frábæru byrjun og aðeins tvisvar til viðbótar lent á topp 10, annars vegar Ich Troje 2003 og hins vegar var það hinn hæfileikaríki Michał Szpak sem árið 2016 lenti í 8. sæti. Meira að segja hið gríðarlega vinæla lag My Słowianie með Donatan & Cleo náði aðeins 14. sæti 2014 og hafa síðustu ár verið sérlega mögur og Pólland oftar en ekki setið eftir í undanriðlunum. Pólverjar glöddust því mjög á síðasta ári þegar Ochman komst ekki aðeins áfram í úrslitin heldur var hann einnig nálægt því að komast á topp 10 en hann endaði að lokum í 12. sæti. 

Í ár eins og síðustu ár var keppandi Póllands valinn í undankeppninni Tu bije serce Europy! Wybieramy hit na Eurowizję. Tíu keppendur tóku þátt, þar á meðal Alicja Szemplińska sem vann keppnina árið 2020 og átti að taka þátt í Eurovision í Rotterdam, Natasza Urbańska vinsæl leik- og söngkona og nýliðinn Ahlena með hið áhugaverða lag og texta Booty.

Fyrir keppnina kvisaðist út sá orðrómur að TVP, pólska ríkissjónvarpið, myndi gjarnan vilja að fyrirsætan og söngkonan Blanka færi með sigur af hólmi en lag hennar Solo var mjög vinsælt í Póllandi á síðasta ári. Það var því þegar urgur í pólskum aðdáendum fyrir keppnina því söngvarinn Jann með lagið Gladiator naut mikilla vinsælda þeirra á meðal og voru uppi raddir þess efnis að kosning dómnefndar (sem gilti 50%) yrði ekki Jann í hag. 

Andrúmsloftið var því spennuþrungið þegar undankeppnin hófst sunnudaginn 26. febrúar. Eftir flutning allra laganna voru lesin upp úrslit dómnefndar. Jann með Gladiator fékk 7 stig og heyrðist púað á þau úrslit í salnum. Blanka með Solo fékk aftur á móti 12 stig og fór kliður um áhorfendur enda hafði hún kannski ekki verið sú lagvissasta í hópi keppenda, ekki frekar en Jann reyndar. Síðan var tilkynnt að í tveimur efstu sætunum í samanlagðri dómnefndar- og símakosningu væru einmitt Blanka og Jann og að lokum fór svo að Blanka vann og flutti lag sitt Solo aftur. 

Dramatíkinni í Póllandi er þó ekki lokið eftir þessa niðurstöðu. Niðurstöður símakosningarinnar voru ekki kynntar fyrr en daginn eftir og hafði Jann unnið hana og Blanka lent í 2. sæti. Þar sem það dróst að birta símakosninguna varð það til þess að aðdáendur Jann voru handvissir um að TVP hefði riggað símakosninguna til að Blanka ynni og hófust handa við að rétta hlut síns manns. Samfélagsmiðlar loguðu af ósáttum aðdáendum og loga enn. Þegar þetta er skrifað hafa 75 þúsund manns skrifað undir áskorun þess efnis að senda Jann í Eurovision sem réttmætan sigurvegara pöpulsins í Póllandi en orðrómur er um að hann hafi fengið þrisvar sinnum fleiri símaatkvæði en Blanka. 

Það er afar ólíklegt að TVP breyti nokkru hjá sér þrátt fyrir áskorunina en hugsanlega er þetta bara hið besta mál fyrir Jann sem var frekar óþekktur fyrir og hefur nú eignast stóran og dyggan aðdáendahóp.