Laugardaginn 11. apríl bauð FÁSES til Júró-stiklna 2015 á Stúdentakjallaranum í annað skipti frá stofnun klúbbsins. Viðburðurinn vakti mikla lukku í fyrra og stjórn FÁSES tók ekki annað í mál en að festa þennan viðburð kirfilega í dagbókinni þetta árið. Þar sem FÁSES er töluvert öðruvísi samsettur en hinn týpíski OGAE aðdáendaklúbbur erlendis og fleira fjölskyldufólki innanborðs er líka skemmtilegt að bjóða upp á viðburð sem hentar öllum aldri.
María Ólafsdóttir og Ásgeir Orri, einn þriðji af þríeykinu StopWaitGo, opnuðu samkunduna með því flytja Eurovision hittarann Euphoria og soon-to-be Eurovision hittarann Unbroken. Vakti þetta mikla lukku meðal viðstaddra sem margir hverjir sungu með. Einhverjir Júró-aðdáendur sem vanir eru að fylgjast með blaðamannafundum frá Eurovision í beinni útsendingu kannast eflaust við að leggja við hlustir þegar keppendur taka önnur Eurovision lög en sín eigin. Kannski verður Euphoria mikið tekið af Maríu og félögum úti en hún vildi nú samt ekki útiloka að önnur skemmtileg Eurovision lög gætu orðið á vegi þeirra…
Var því næst komið að verkefni kvöldsins, að kíkja á stiklur úr öllum 40 Eurovision framlögunum í ár og drekka í sig allan fróðleikinn sem Eyrún og Flosi mötuðu viðstadda á með miklum snilldarbrag. Áður en leikar hófust dróu gestir úr forlátum Eurovision-poka fána lands sem þeir áttu að vera í dómnefnd fyrir. Voru löndunum síðan gefin stig í samræmi við stigakerfi Eurovision á þar til gert stigablað (með hæfilegum frávikum í samræmi við eðli þessa samkvæmisleiks). Var að sjálfsögðu óheimilt að gefa því landi stig sem viðkomandi var í dómnefnd hjá. Ákaflega gaman var að fylgjast með FÁSES liðunum leggja sig í líma við dómnefndarstörfin – fastir liðir voru á dagskrá eins og venjulega, Kýpur gáfu Grikkjum böns af stigum.
Þrátt fyrir að stjórnarmeðlimir FÁSES leggðu hart að sér við talningu stiga tókst einungis að telja öll atkvæði helmings dómnefnda en hjá hinum helmingnum voru talin 10 og 12 stigin (þau vildu ekki láta gestina bíða eftir úrslitum fram á nótt!). Í fyrsta sæti Júró-stiklna 2015 var Ítalía og var það hann Helgi sem var svo heppinn að draga land sem allar hinar dómnefndirnar voru að elska! Helgi fékk Söngvakeppnisgeisladiskinn 2015 í verðlaun, súkkulaði og gommu af skemmtilegu PR stöffi úr gömlum Eurovision keppnum. Mjótt var á mununum á 1. og 2. sæti og var það hann hinn sykursæti Guy Sebastian sem náði í skottið á ungu óperusöngvurunum frá Ítaliu. Í þriðja sæti var okkar eina sanna María með Unbroken. Eftir að stigin höfðu verið talin af varfærni síðar um kvöldið kom í ljós að 2. sætið var ekki Ísland eins og tilkynnt var á Stiklunum sjálfum heldur Ástralía. FÁSES biðst velvirðingar á þessum mistökum sem urðu vegna tímaskorts við stigatalningu en bendir á að þetta var jú allt einungis til gamans gert.
Niðurstöður Júró-stiklna 2015:
Sæti | Land | Stig |
1 | Ítalía | 245 |
2 | Ástralía | 241 |
3 | Ísland | 225 |
4 | Noregur | 199 |
5 | Svíþjóð | 171 |
6 | Ísrael | 131 |
7 | Bretland | 93 |
8 | Eistland | 81 |
9 | Danmörk | 76 |
10 | Rússland | 72 |
11 | Belgía | 69 |
12 | Spánn | 58 |
13 | Slóvenía | 57 |
14 | Finnland | 52 |
15 | Hvíta-Rússland | 52 |
16 | Þýskaland | 49 |
17 | Aserbaídsjan | 44 |
18 | Svartfjallaland | 43 |
19 | Frakkland | 38 |
20 | Rúmenía | 35 |
21 | Makedónía | 34 |
22 | Lettland | 29 |
23 | Albanía | 27 |
24 | Georgía | 21 |
25 | Kýpur | 21 |
26 | Holland | 21 |
27 | Ungverjaland | 17 |
28 | Sviss | 17 |
29 | Írland | 17 |
30 | Litháen | 16 |
31 | Malta | 15 |
32 | Serbía | 11 |
33.-34. | Austurríki | 9 |
33.-34. | San Marínó | 9 |
35 | Moldóva | 8 |
36 | Grikkland | 6 |
37 | Portúgal | 3 |
38 | Armenía | 2 |
39.-40. | Pólland | 0 |
39.-40. | Tékkland | 0 |
Þess ber að geta að kosningin á Júró-stiklunum er ekki hin opinbera OGAE kosning sem allir aðdáendurklúbbarnir framkvæma í aðdraganda keppninnar. Hin eina sanna OGAE BIG POLL, eins og hún er kölluð, hefur verið send FÁSES liðum í tölvupósti og viljum við nýta tækifærið og minna þá á að kjósa fyrir 25. apríl nk. í könnuninni. Niðurstöður FÁSES í OGAE BIG POLL verða þá sendar OGAE International sem birtir niðurstöður hvers klúbbs fyrir sig þegar nær dregur keppni.