Retróskotið dívudiskó með kærri kveðju frá La Zarra og Frakklandi


Bon soir og velkomin til Frakklands þar sem okkar bíður sannkölluð diskódíva, því hún La Zarra ætlar að flytja okkur slagarann „Évidemment“ eða „Augljóslega“ eins það útleggst á vorri tungu. Og augljóslega verður þetta eitthvað!

Frakkar ákváðu að slaufa forkeppninni C´est vous que décidez í ár, eftir fremur slakt gengi í fyrra, þegar bretónska teknósveitin Alvan&Ahez voru ekki að gera gott mót í Tórínó (óverðskuldað!). Frakkar völdu þess í stað söngkonuna La Zarra innbyrðis og réttu við frönsku þjóðarskútuna í leiðinni, þar sem CVQD þótti fremur dýr í sniðum. Skrambans ólán því sú forkeppni var alltaf svo ótrúlega skemmtileg! En nóg um það.

Það mun svífa franskur diskóandi yfir vötnum í Liverpool, en þó með ákveðnu retró-yfirbragði. Það mætti eiginlega segja að La Zarra sé að Donnu Summera upp Edith Piaf… eða kannski frekar Edith Piafa Donnu Summer. Allavega er diskóveislan „Évidemment“ sannkallaður dansmoli með góðu dassi af þvottekta frönskum chanson og aðdáendur eru heilt yfir á einu máli um að Frakkar muni svo sannarlega blanda sér í toppbaráttuna í ár. C´est magnifique, ekki satt?

La Zarra heitir réttu nafni Fatima Zahra Hafdi, er fædd og uppalin í Montréal í Kanada af marokkóskum foreldrum. Hún er 25 ára gömul þegar þetta er skrifað og er margverðlaunuð tónlistarkona í Frakklandi, þangað sem hún flutti árið 2016 til að hefja feril sinn. Hún hefur að mestu leiti fengist við raftónlist sóló en hefur þó unnið m.a. með rapparanum Niro, sem og söngvaranum Slimane, sem er vel þekktur bæði innan og utan Frakklands.

Hún semur lagið „Évidemment“ sjálf ásamt Benny Adams og fjallar lagið að sjálfsögðu um ástina, eða öllu heldur sorgina sem fylgir óendurgoldinni ást, en um leið kraftinn sem þarf til að elska sjálfan sig í klikkuðum heimi. Og öllu er pakkað inn í skemmtilegt bland í poka af diskó, franskri kaffihúsatónlist og pínku ponsu teknó.

Við skulum því fá okkur rauðvín, baguette og reima á okkur dansskóna, því La Zarra mætir með læti til Liverpool í maí, og hver veit nema aðdáendur reynist sannspáir og hún leiði okkur yfir Ermasundið til móts við Eurovision 2024.