FÁSES sparar fyrir Eurovisionsigri og setur 16% félagsgjalda í Gleðibanka


Tólfti aðalfundur FÁSES fór fram fimmtudaginn 21. september. Eins og vaninn er voru hefðbundin aðalfundarstörf á dagskrá þar sem fjallað var um ársreikning síðasta árs og skýrslu stjórnar þar sem hinir ýmsu viðburðir félagsins voru tíundaðir. Þá var kosið til stjórnar og var Ísak Pálmason endurkjörinn formaður FÁSES og Laufey Helga Guðmundsdóttir endurkjörin ritari félagsins. Kristín Kristjánsdóttir gaf ekki kost á sér áfram í varastjórn og bauð Eva Dögg Benediktsdóttir sig fram og var kjörin. Til viðbótar við þau verða áfram í stjórn FÁSES á næsta félagsári þau Halla Ingvarsdóttir gjaldkeri, Heiður Dögg Sigmarsdóttir alþjóðafulltrúi, Ásgeir Helgi Magnússon kynningar- og viðburðastjóri og Gísli Ólason Kærnested í varastjórn. 

 

Á fundinum var lögð fram tillaga hluta stjórnar um stofnun sérstaks Sigursjóðs FÁSES. Þegar Ísland vinnur Eurovision mun FÁSES sem OGAE gestgjafaklúbbur bera ýmsar skyldur gagnvart aðdáendasamfélaginu, t.d. að setja upp og reka sérstakan skemmtistað aðdáenda, Euroclub. Var því lagt til að leggja fyrir hluta félagsgjalda á hverju ári næstu fimm árin til að safna í sjóð til að nota við skipulagningu viðburða þegar Ísland verður gestgjafi Eurovision. 

 

Spunnust miklar umræður um tillöguna á fundinum og var framsögumaður, Laufey Helga, m.a. sökuð um að hafa séð fyrir hverjir muni keppa í Söngvakeppninni á næsta ári í kristalskúlunni sinni. Eva Dögg, málsfarssnillingur með meiru, stakk upp á að sjóðurinn héti Gleðibankinn og Ásgeir Helgi, sem er mikill tölugrínari, stakk upp á að 16% félagsgjalda rynnu í sjóðinn, svona til að heiðra 16. sæti Icy tríóisins, Höllu Margrétar og Beathoven. Einhverjir fundargesta töldu að verið væri að jinxa íslenskum sigri með tillögunni en í versta falli væri hægt að nota sjóðinn til að múta nokkrum dómnefndum yrði fólk langeygt eftir sigri. Á endanum var tillagan samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á fundinum. Munu því 16% félagsgjalda FÁSES næstu fimm árin renna í sérstakan sjóð, Gleðibankann, sem skal nota við skipulagningu viðburða þegar Ísland verður gestgjafi Eurovision. 

 

Í lok fundar dustuðum við rykinu af Eurovision bingóinu þar sem Ásgeir lét Júrólögin ganga og félagar merktu við viðeigandi þátttökulönd á sérstöku FÁSES-bingóspjaldi. María, Ísak og Sigga Gróa duttu í lukkupottinn þetta kvöld og fengu vel valda Eurovision geisladiska, boli, júróvatnsflöskur og fjölnotapoka í bingóvinning. Sigga Gróa var fyrst til að fá alslemmu á allt spjaldið sitt svo hún fékk einnig að launum tvo miða á árshátíð FÁSES 21. október nk. 

 

Sama dag og aðalfundurinn var haldinn skráði gjaldkeri FÁSES félaga nr. 1000 í félagatalið – til hamingju FÁSES! Virkir félagar í klúbbnum eru í dag um það bil 500, svo það eru auð númer inn á milli í félagatalinu en 1.000 félagar í Eurovision klúbbi á landi sem telur tæplega 400 þúsund manns er eitthvað sem stofnendur FÁSES dreymdu ekki um fyrir tólf árum síðan.

 

Við minnum þau ykkar sem stefnið á að fara til Malmö á Eurovision 2024 á að síðasti dagur til að greiða félagsgjaldið og skrá sig í klúbbinn til að eiga möguleika á miðum er 2. október 2023.

 

Við þökkum kærlega fyrir vel heppnaðan aðalfund og hlökkum til að sjá ykkur öll á árshátíð!

 

Á forsíðumynd má sjá stjórn FÁSES. Frá vinstri: Ásgeir, Laufey, Heiður, Ísak, Halla, Eva Dögg og Gísli.