Eurovisionkeppnin 2013 fór fram í Malmö Arena 14. og 16. maí og stóra lokakvöldið 18. maí eða fyrir tíu árum síðan í dag. Fánagangan í byrjun var flutt undir tónlist sem var samin af Birni Ulveus, Benny Anderson og Avicci heitnum sem var staddur í salnum. Nýjung ársins var að keppendur drógu ekki lengur númer hvar þeir væru í röðinni, þeir drógu bara hvort þeir væru í fyrri eða seinni hlutanum. Framleiðendur röðuðu lögunum svo upp þannig að þau fengju að njóta sín, oft rólegt og fjörugt til skiptis. Kynnir var hin eina sanna Petra Mede, sem var líka kynnir árið 2016. Eric Saade sem keppti árið 2011 var svo í græna herberginu á úrslitakvöldinu. Þrjátíu og níu lönd tóku þátt. Tyrkland og Slóvakía höfðu bæði verið með árið áður, en drógu sig þarna úr keppni og hafa því miður ekki verið með síðan. Fyrir Ítalíu keppti Marco Mengoni og hafnaði í sjöunda sæti með lagið L’Essenziale. Hann keppti svo aftur í ár og hafnaði þremur sætum ofar með lagið Due vite.
Elsti einstaklingurinn sem nokkurn tímann hefur stigið á Eurovisionsviðið steig á svið í þessari keppni, Emil Ramsauer frá Sviss, keppti sem hluti af Takasa hópnum og plokkaði kontrabassa. Hann fæddist árið 1918 og var því 95 ára gamall þarna. Hann var einnig fyrsti Eurovisionkeppandinn sem náði 100 ára aldri, en hann hélt upp á 100 ára afmælið sitt 28. febrúar 2018. Emil lést þann 23. desember 2021, 103 ára að aldri.
Meðal keppenda voru mjög þekktar söngkonur. Anouk keppti fyrir Holland með lagið Birds. Hún hafði slegið í gegn árið 1997 með lagið Nobody´s Wife. Cascada keppti fyrir Þýskaland með lagið Glorious en hennar frægasta lag er Everytime We Touch sem kom út 2005. Síðast en ekki síst keppti Bonnie Tyler fyrir Bretland með lagið Believe in Me. Hún á marga stórsmelli sem flestir komu út ár níunda áratugnum. Má þar nefna Holding Out for a Hero og Total Eclipse of the Heart.
Úkraína hafnaði í þriðja sæti. Það var söngkonan Zlata Ognevich sem söng lagið Gravity. Zlata hafði reynt að vera fulltrúi Úkraínu árin 2010 og 2011 en hafði ekki erindi sem erfiði. Árið eftir keppni snéri hún blaðinu við og gerðist þingmaður. Þingmennskan varði þó ekki lengi þar sem hún sagði af sér ári síðar eftir að hún hafði verið sökuð um spillingu. Það sem þótti merkilegast við atriðið sjálft var að það var ansi stór maður sem bar Zlötu á svið, Igor Vovkovinskiy. Hann var af úkraínsku bergi brotinn, en bjó í Bandaríkjunum. Hann var 234,5 cm. Hann lést árið 2021, aðeins rétt tæplega 39 ára gamall. Zlata var stigakynnir Úkraínu á Eurovision í ár.
Á árinum 2009-2013 lenti Azerbaijan í sætum 1, 2, 3, 4 og 5. Það var Farrid Mammadov sem tók lokasprettinn, fullkomnaði fimmuna og lenti í 2. sæti með lagið Hold me. Lagið er líka lag númer 1300 sem keppir í Eurovision og vel að því komið. Aserar lentu í 3. sæti 2009 (á eftir Jöhönnu Guðrúnu), 5. sæti 2010, unnu 2011 og urðu númer fjögur 2012. Eftir þessi glæsilegu ár hefur þeim hins vegar bara einu sinni tekist að ná inn á topp tíu. Það var þegar Chingiz flutti lagið Truth árið 2019.
Sigurvegarinn var Emmelie De Forest frá Danmörku með lagið Only Teardrops. Þetta var þriðji sigur Dana í Eurovision. Lagið er eftir Lise Cabble, Julia Fabrin Jakobsen og Thomas Stengaard. Emmelie hefur verið áberandi í Eurovisionheiminum eftir þetta og oft komið fram á keppnum. Ári síðar þegar Danir héldu keppnina flutti hún einnig lagið Rainmaker. Hún kom til Íslands árið 2018 og heiðraði bæði FÁSES félaga í fyrirpartýi (sjá mynd) og Söngvakeppnina með nærveru sinni. Hún kom svo aftur til Íslands núna um Eurovisionhelgina og skemmti í Eurovisionpartýi á Selfossi.
Emmelie De Forest og Robin Bengtsson ásamt FÁSES liðum í fyrirpartýi Söngvakeppninnar 2018.