Árið 1993 var Eurovisonkeppnin haldin í litlum bæ, Millstreet á Írlandi, nánar tiltekið í Green Glens Arena. Keppnin hefur aldrei verið haldin í minni bæ, en íbúafjöldinn var í kringum 1500. Húsnæðið tók þó 8.000 manns í sæti eða rúmlega fimmfaldan íbúafjölda. Í dag eru 30 ár síðan þessi keppni fór fram, þann 15. maí 1993. Kynnir var Fionnuala Sweeney. Yfir hljómsveitastjóri var Noel Keehan, en hann hefur manna oftast verið hljómsveitastjóri í Eurovision, var það ansi oft á árunum 1966-1998 og stýrði meðal annars fimm sigurlögum Íra.
Tuttugu og tvö lönd komust sjálfkrafa í keppnina. Þarna var Júgóslavía nýfarin í sundur. Undankeppni meðal þjóða fyrrum Júgóslavíu var haldin í Ljubliana í Slóveníu þar sem þrjár efstu þjóðirnar fengu þátttökurétt og voru að keppa í fyrsta skiptið, en það voru Bosnía-Herzegóvína, Króatía og Slóvenía. Með þessum löndum kom auðvitað nýr tónn inn í Eurovision sem okkur þykir afskaplega vænt um. Þátttökulönd voru 25 og höfðu þá aldrei verið fleiri. Lúxemborg var með í þessari keppni, en hefur því miður ekki verið með síðan. Það var hins vegar að koma gleðitilkynning á föstudaginn: Þeir ætla að vera með á næsta ári, 2024, eftir 31 árs fjarveru!
Í síðasta sæti þetta árið varð Barbara nokkur Dex fyrir Belgíu. Lagið þótti ekki gott og klæðnaðurinn heldur ekki smart. Árið 1997 voru stofnuð skammarverðlaunin „Barbara Dex awards“ og fær verst klæddi Eurovisionflytjandi hvers árs þau verðlaun. Þessi verðlaun voru veitt árlega frá 1997, síðast árið 2021. Sænska hljómsveitin Arvingarna keppti fyrir Svíþjóð með lagið Eloise og hafnaði í sjöunda sæti. Hljómveitin var stofnuð árið 1989 og er enn það. Þeir hafa tekið þátt í Melodifestivalen fimm sinnum eftir þetta og freistað þess að komast aftur í Eurovision. Síðast kepptu þeir árið 2021 með lagið Tänker inte alls gå hem.
Í þriðja sæti varð hin 18 ára gamla Annie Cotton fyrir Sviss með lagið Moi, tout simplement eða Bara ég. Annie er kanadísk eins og Celine Dion sem keppti fyrir Sviss fimm árum áður. Annie hefur starfað sem söngkona og einnig sem leikkkona og meðal annars leikið í nokkrum kanadískum sápuóperum.
Og Bretar urðu í öðru sæti eina ferðina enn. Nú var það Sonia Evans með lagið Better the Devil You Know. Lagið er eftir Biran Teasdale og Dean Collinson. Sonia er einmitt frá Liverpool þar sem Eurovision 2023 var að ljúka. Sonia var vinsæl á þessum tíma og átti 11 smelli sem náðu inn á topp 30 í Bretlandi á árunum 1989-1993. Sonia kom fram á Eurovisionkeppnininni núna á laugardaginn og tók auðvitað lagið sitt við mikinn fögnuð viðstaddra og eins sjónvarpsáhorfenda heima í stofu.
En Írar sigruðu á heimavelli, bankastarfsmaðurinn Niamh Kavanagh með lagið In Your Eyes. Írar voru þarna búnir að vinna fimm sinnum og voru þarna að jafna með Frakkalands og Lúxemborgar. Á þessum tíma hafði engin þjóð unnið oftar. Lagið varð nokkuð vinsælt, en Eurovisionkeppnin var samt að dragast aftur úr hvað tónlistina varðar, lögin þóttu mörg hver gamaldags og jafnvel hallærisleg. In Your Eyes er eftir Jimmy Walsh. Niamh er enn að í tónlistinni og tók aftur þátt í Eurovision árið 2010 með lagið It´s for You og komst í úrslit.