“Biti zdrava, biti zdrava” sungu Eurovision aðdáendur í fyrra og klöppuðu saman lófunum við hið mjög svo vinsæla In corpore sano, framlag Serbíu 2022 í flutningi Konströktu. Konstrakta kom, sá og sigraði í serbnesku undankeppninni Pesma za Evroviziju í fyrra. Lagið lenti í 5. sæti í lokakeppni Eurovision og setti met í stigafjölda fyrir Serbíu. Lagið naut einnig mikilla vinsælda á Balkanskaga fyrir og eftir keppnina og hefur skotið Konströku upp á stjörnuhimininn.
Einn af þeim sem heilluðust af lagi og flutningi Konströktu var Luke Black sem á unglingsárum syrgði svo mjög endalok serbneskrar tónlistar sem hann taldi dauða og heillum horfna að hann breytti eftirnafni sínu í Black, rétt nafn hans er Luka Ivanović. Hann fagnaði upprisu serbneskrar tónlistar í kjölfari sigurs Konströktu og sendi lag í undankeppnina í Serbíu, tilraunakennt indírafpopp Samo mi se spava (Ég vil bara sofa). Lagið fjallar um það hvernig við fljótum sofandi að feigðarósi því við kjósum frekar að einangra okkur og loka augunum fyrir því sem er að gerast í kringum okkur en að vaka og vera meðvituð.
Pesma za Evroviziju var haldið í annað sinn í ár. Í fyrra vann eins og áður sagði Konstrakta með In corpore sano og lagði línurnar fyrir framhaldið því keppnin í ár var full af óhefðbundnum framlögum serbneskt tónlistarfólks og mögulega sú sem var mest framúrstefnuleg. Keppnin fór fram í byrjun mars, 32 lög tóku þátt í tveimur undankeppnum og átta lög í hvorri undankeppni komust áfram, valin af bæði dómnefnd og með símakosningu. Lag Luke Black vakti strax mikla athygli Eurovision aðdáenda en þó mátti ekki miklu muna að hann kæmist ekki áfram í úrslitakeppnina því hann var aðeins í 6. sæti í undankeppninni eftir falleinkunn hjá dómnefndinni. Það var því ekki bjart útlitið fyrir Luke Black í lokakeppninni.
Mun liklegri voru til sigurs Dzipzii en hann dregur listamannsnafn sitt af serbneska orðinu yfir sígauna með lagið Greh sem fjallar um samkynhneigð en hvoru tveggja hefur orðið til þess að hann hefur orðið fyrir aðkasti alla ævi. Svo var það hún Nađa með undurljúft og sykursætt popplag.
Þau unnu bæði undanriðlana sína en þegar kom að lokakeppninni breyttist ýmislegt og að lokum var það Luke Black sem stóð uppi sem sigurvegari þrátt fyrir að vinna hvorki síma- né dómnefndarkosninguna. Það verður gaman að fylgjast með hvort Luke Black nær að fylgja eftir góðum árangri Serbíu á síðasta ári.