Marco Mengoni sigurvegari Festival Sanremo 2023


Eurovision aðdáendur um heim allan sátu límdir við sjónvarpsskjáinn alla síðustu viku yfir 73. útgáfu af Sanremo tónlistarhátíðinni á Ítalíu. Keppnin sem heitir á frummálinu 73º Festival della Canzone Italiana di Sanremo 2023. Keppnin er jafnan talin formóðir Eurovision keppninnar enda var hugmyndin um Eurovision komin frá Sanremo keppninni sem hóf göngu sína á Ítalíu árið 1951, fimm árum áður en fyrsta Eurovision keppnin var haldin í Lugano í Sviss. Það var svo ljóst laugardagskvöldið 11. febrúar í lokin á útsendingu sem stóð yfir í sex klukkustundir (sem einhver myndu telja of langan tíma – en FÁSES liðar telja ekki eftir sér að sitja undir) að hjartaknúsarinn og Eurovisionstjarnan Marco Mengoni stóð uppi sem sigurvegari með laginu Due Vite sem gæti útlagst á hinu ástkæra ylhýra sem Tvö líf.

Hér fyrir neðan er upptaka af flutningi Marco frá Sanremo á þriðjudagskvöldinu. Upptaka af sigurflutningnum er að finna hér á heimasíðu RAI.

Eins og svo margar stjörnur í Eurovision nú til dags þá skaust Marco Mengoni upp á stjörnuhimininn eftir að hafa unnið X-Factor á Ítalíu árið 2009. Marco keppti fyrst í Sanremo árið 2010 en árið 2013 sigraði hann Sanremo með laginu L’essenziale sem var svo framlag Ítalíu í Eurovision í Malmö. Lagið Due Vite er hugljúf ballaða á ítölsku sem fjallar um flækjur lífsins og hvernig tvær manneskjur takast á við lífið í blíðu og stríðu. Orðið á götunni segir að hann syngi lagið til karlkyns elskenda síns en Marco hefur ekki staðfest þær sögusagnir.

Sanremo er ekki forkeppni fyrir Eurovision í eiginlegum skilningi en sigurvegara keppninnar hefur síðustu ár verið boðið að vera fulltrúi ítalska sjónvarpsins í Eurovision. Það gerðist síðast árið 2016 að sigurvegari Sanremo, Stadio, hafnaði því boði og Francesca Michielin sem lenti í öðru sæti var valin fulltrúi Ítala í Eurovision. Marco Mengoni hefur staðfest að hann ætli að þiggja boðið og verður því fulltrúi Ítalíu í Eurovision í Liverpool í ár með laginu Due Vite. Lagið fór strax á toppinn á ítalska tónlistanum í síðustu viku þegar lagið var gefið út.

Sanremo 2023

Sanremo keppnin var að venju haldin í blómaborginni Sanremo við strendur miðjarðarhafsins á norðvestur Ítalíu í kvikmyndahúsinu Teatro Ariston. Kynnar keppninnar voru Amadeus, sem jafnframt var listrænn stjórnandi Sanremo, og söngvarinn Gianni Morandi. Strákarnir nutu svo liðsinnis Chiara Ferragni, Francesca Fagnani, Paola Egonu og Chiara Francini sem skiptu kvöldunum á milli sín. Talið er að 12 milljónir hafi horft á úrslit Sanremo á laugardagskvöldinu eða 66% sjónvarpsáhorfenda á Ítalíu.

Í ár voru 28 atriði sem tók þátt í keppninni þar sem 22 flytjendur voru valdir úr yfir 300 innsendum lögum frá þekktum tónlistarmönnum á Ítalíu og sex flytjendum var boðið til þátttöku úr nýliðavali sem fór fram í desember í Sanremo Giovani 2022 keppninni sem er hliðarkeppni frá Sanremo þar sem hann gIANMARIA stóð uppi sem sigurvegari.

Sanremo skiptist upp í fjögur undanúrslitakvöld frá þriðjudegi til föstudags og svo voru úrslitin laugardagskvöldið 11. febrúar og hver útsending tók fimm til sex klukkustundir. Á þriðjudagskvöldinu flutti helmingur tónlistarfólksins lögin sín og á miðvikudagskvöldinu hinn helmingurinn. Dómnefnd skipuð fjölmiðlafólki gáfu svo lögunum stig á hvoru kvöldi í kosningu sem Marco Mengoni vann á þriðjudeginum og Colapesce og Dimartino unnu á miðvikudeginum.

Á fimmtudagskvöldinu fluttu öll lögin sín öðru sinni þar sem áhorfendum heima í stofu gafst kostur á að kjósa á milli laganna í símakosningu sem gilti svo til helminga á móti dómnefnd skipaðri fulltrúum almennings sem valin var með lýðfræðilegu úrtaki. Það er ekki í frásögur færandi að okkar allra besti Marco Mengoni stóð uppi sem sigurvegari í kosningunni á fimmtudagskvöldinu.

Föstudagskvöldið var ábreiðukvöld keppninnar þar sem flytjendur ársins fengu liðsinni gestaflytjanda og fluttu ábreiðu af lagi sem þurfti að vera frá tímabilinu 1960-2010. Úrslitin á föstudagskvöldinu voru svo ákvörðuð með dómnefnd blaðamanna, lýðfræðilegri dómnefnd og símakosningu. Marco Mengoni flutti ábreiðu af Bítlalaginu Let It Be ásamt The Kingdom Choir, breskum gospelkór sem royalistar ættu að þekkja úr brúðkaupi Harrys og Meghan, en það er svo sem önnur saga. Marco og The Kingdom Choir stóðu uppi sem sigurvegarar á föstudagskvöldinu og á hæla þeirra voru Ultimo ásamt Eros Ramazzotti sem fluttu syrpu af Ramazzotti lögum. Í þriðja sæti var svo Lazza sem naut liðsinnis Emmu Marrone (Ítalía 2014) og Lauru Marzadori sem fluttu lagið La fine.

Eftir langar sjónvarpsútsendingar vikunnar var svo loksins komið að úrslitunum á laugardagskvöldinu þar sem öll lögin voru flutt og símakosning réði úrslitum um það hvaða fimm lög kæmust áfram í síðari umferð kvöldins. Þegar búið var að telja öll símaatkvæði kvöldsins kom í ljós að í fimm efstu sætunum voru Tanani, Ultimo, Lazza, Marco Mengoni og Mr. Rain sem fengu svo að flytja lögin sín aftur í síðari umferðinni þar sem úrslitin réðust með atkvæðum símakosningar, dómnefnd blaðamanna og lýðfræðilegu dómnefndinni. Í lokin var ljóst að Marco Mengoni stóð uppi sem sigurvegari Sanremo 2023. Flytjendurnir í fimm efstu sætunum voru:

  1. Marco Mengoni – Due vite 
  2. Lazza – Cenere 
  3. Mr. Rain – Supereroi 
  4. Ultimo – Alba 
  5. Tananai – Tango

Skemmtiatriði og aðrar uppákomur

Að vanda voru svo fjölmörg skemmtiatriði inn á milli laganna sem voru að keppa. Þar ber helst að nefna Achille Lauro (San Marínó 2022), Al Bano (Ítalía 1976 og 1985), Annalisa (sigurvegari OGAE Second Chance 2018) Black Eyed Peas, Blanco (Ítalía 2022), Depeche Mode, Mahmood (Ítalía 2019 og 2022), Måneskin (sigurvegarar Eurovision 2021) ásamt fjölmörgum öðrum atriðum. Þó að þessi grein sé í í stíl við keppnina sjálfa; algjör langloka, þá mun upptalning allra hinna atriðanna bara lengja þessa grein óþarflega mikið. Hér getur þú séð öll skemmtiatriðin á heimasíðu RAI.

Eins og venjulega í beinum útsendingum getur ýmislegt farið úrskeiðis og elsku Blanco okkar lenti því miður í vandræðum með inneyrað sitt þegar hann flutti atriði sitt á þriðjudagskvöldinu. Blanco sem þá var enn 19 ára og óharðnaður unglingur (hann átti afmæli á fimmtudaginn og varð þá tvítugur – til hamingju Blanco!) hætti að syngja og lét reiði sína bitna á  blómaskreytingunum á sviðinu í staðinn. Sjón er sögu ríkari (sjá myndband hér að neðan).

Á úrslitakvöldinu las Amadeus hjartnæm skilaboð frá Volodymyr Selenski forseta Úkraínu þar sem hann bauð sigurvegara Sanremo í heimsókn til Kænugarðs eftir að Úkraínumenn hafa unnið sigur í stríðinu við Rússa. Úkraínska hljómsveitin Antytila fluttu svo lagið Фортеця Бахмут (Bakhmut Fortress) á sviðinu í Sanremo. Forsöngvari Antytila, Taras Topolia, er giftur söngkonunni Alyosha sem keppti fyrir Úkraínu í Eurovision 2010 og hann hefur setið í dómnefnd í forkeppni Úkraínu Vidbir.

Ítalía í Eurovision

Ítalir tóku fyrst þátt í fyrstu Eurovision keppninni árið 1956 og voru með til ársins 1997 með nokkrum hléum inn á milli. Eftir keppnina 1997 drógu Ítalir sig svo úr keppninni og komu ekki til baka aftur fyrr en árið 2011. Ítalir eru ein af stóru þjóðunum fimm sem þurfa ekki að taka þátt í undankeppnum Eurovision til að komast í úrslitin. Ítalir hafa þrisvar sinnum unnið Eurovision, fyrst árið 1964, svo 1990 og síðast árið 2021 þegar Måneskin komu sáu og sigruðu í Rotterdam. Frá því að Ítalir komu aftur til keppni árið 2011 hafa þeir tvisvar lent í öðru sæti, einu sinni í þriðja sæti og einungis tvisvar verið á hægri hlið stigatöflunnar í úrslitunum. Það er því óhætt að segja að Ítalía sé stórveldi í Eurovision heiminum og verður gaman að fylgjast með Marco okkar í úrslitum Eurovision í Liverpool 13. maí n.k. þar sem verður eflaust mikil pressa á hann að enda á vinstri hlið stigatöflunnar.