Tékkar gerðu gott mót í Tórínó í fyrra þegar We Are Domi flugu upp úr undankeppninni og fluttu lagið Lights Off í úrslitum Eurovision og þakið ætlaði bókstaflega að rifna af PalaOlimpico höllinni. Þau lentu reyndar bara í 22. sæti en það er greinilega margt að malla í júrólandinu Tékklandi.
Þann 30. nóvember sl. héldu Tékkar fyrstu undankeppnina þar í landi í allt of langan tíma, ESCZ 2023. Fimm framlög kepptu í sjónvarpssal tékkneska ríkissjónvarpsins og kynnar græna herbergisins voru sóttir til hins vinsæla Eurovision hlaðvarps, The Euro Trip. Það áhugaverðasta við undankeppnina var að úrslit réðust með 100% vægi atkvæða almennings með kosningu í Eurovision appinu og vógu atkvæði tékknesks almennings 30% og atkvæði annarra 70%. Kosning stóð yfir í viku og 7. febrúar voru úrslit tilkynnt á Youtube.
Ísland átti sérlegan fulltrúa í keppninni en það var óskarsverðlaunahafinn knái Markéta Irglová sem tók þátt í Söngvakeppninni í fyrra með lagið Mögulegt.
Því miður heilluðust kjósendur ekki af henni Markétu því hún lenti í fjórða sæti. Sigurvegarar keppninnar voru ótvírætt Vesna með tvöfalt fleiri atkvæði en lag Pam Rabbit í 2. sæti. Bandið fékk hvoru tveggja meirihluta atkvæða tékkneskra áhorfenda og alþjóðlegra.
Forsprakki sveitarinnar er Patricie Fuxová og meðlimir Vesna eru frá Tékklandi, Slóvakíu og Rússlandi. Bandið spilar bræðing af þjóðlagapoppi og Eurovisionframlag þeirra er auk þess með dass af balkanáhrifum. Í laginu My sister’s crown taka einnig þátt búlgarskur rappari, Tanita Yankova og úkraínsk söngkona, Kateryna Vatchenko. Lagið sjálft, um krúnu systur minnar, er á tékknesku, ensku, búlgörsku, og úkraínsku. Það er kraftmikið og textinn áhrifamikill og valdeflandi. Hann fjallar um hugrakkar og sterkar konur og um að hafa samheldni, samvinnu og virðingu að leiðarljósi. Eins og kunnugt er virkaði þessi uppskrift ágætlega fyrir Ísraela þegar þeir unnu Eurovision 2018 með Toy.
Tékkland tók fyrst þátt í Eurovision 2007 en það var einmitt fyrsta Eurovisionkeppnin sem greinarhöfundur sótti í eigin persónu. Þeir hafa enn ekki sigrað, raunar aðeins komist í úrslit Eurovision fjórum sinnum og þeirra besti árangur er 6. sætið í Lissabon 2018. Vesna stíga á svið í fyrri undankeppninni 9. maí nk. og við höfum góða tilfinningu fyrir því að þeim gangi vel þetta árið!