Melodi Grand Prix: Alessandra drottnar yfir Noregi.


Hei alle sammen! FÁSES heilsar eftir fáránlega mikla stuðhelgi í Spektrumhöllinni í Þrándheimi í Noregi þar sem frændur okkar krýndu arftaka Subwoolfer, en það var dansdrottningin Alessandra, sem bar höfuð og herðar yfir samkeppendur sína og verður fulltrúi Noregs í Liverpool.

Nokkrir góðkunningjar Melodi Grand Prix spreyttu sig í undankeppnunum í ár. Plötusnúðurinn JOWST (Eurovision 2017) og poppsnúllan Stig Van Ejk  (Eurovision 1999) kepptu báðir í undanúrslitunum en höfðu ekki erindi sem erfiði. Svo var auðvitað Ulrikke Brandstoft mætt en hún hefði átt að keppa fyrir hönd Noregs í Rotterdam 2020, en þurfti að kveðja drauminn um Eurovision þegar keppninni var aflýst. Það sama má segja að hafi gerst aftur árið 2021 þegar NRK svo gott sem neitaði henni um þátttöku í Melodi Grand Prix! Það hefur okkur alltaf fundist vera hneisa og vanvirðing við þessa flottu söngkonu. En Ulrikke var mætt tví ef ekki þríefld til leiks í ár með lagið “Honestly”, sem var sannkölluð kraftballaða. Landar hennar voru vissulega á hennar bandi því hún flaug í úrslitin og beint í …annað sætið. Fyrsta sætið var nefnilega frátekið fyrir hina tvítugu ítalsk/norsku söngkonu Alessöndru Mele sem gjörsamlega negldi bæði Norðmenn sem og alþjóðlegu dómnefndirnar með taktfasta dansslagaranum “Queen of Kings”. Allessandra vann bæði dómnefndakosninguna og símakosninguna með bravúr og fékk samanlagt 233 stig á meðan Ulrikke þurfti að láta sér lynda silfrið með 138 stig.

Talandi um dómnefndirnar. Í ár hafði símakosning almennings 50% vægi og alþjóðlegu dómnefndirnar 50% vægi. Alþjóðlega dómnefndin samanstóð af fimm manna dómnefndum frá tíu löndum; Bretlandi, Finnlandi, Aserbaídsjan, Spáni, Úkraínu, Tékklandi, Frakklandi, Hollandi, Svíþjóð og Íslandi. Í íslensku dómnefndinni sátu Vigdís Hafliðadóttir, Baldvin Snær Hlynsson, Helga Möller, Karl Olgeir Olgeirsson og formaður og stigakynnar var Siggi Gunnars.

Alessandra er, eins og áður sagði, hálf ítölsk og hálf norsk og er fædd og uppalin á Ítalíu, en flutti fyrir tæpum tveimur árum til Lillehammer þar sem hún býr og starfar í dag. Alessandra er hörku söngkona og vann söngkeppni á Ítalíu þegar hún var aðeins 12 ára gömul. Eftir að hún flutti til Noregs tók hún þátt í The Voice – Norges beste stemme og komst áfram eftir blindu áheyrendaprufurnar en var því miður kosin burt um miðbik keppninnar. En eins og við vitum öll, er það að vera kosin burt í The Voice ekki endir alls, eins og hún Alessandra hefur sýnt og sannað með sigri sínum í Melodi Grand Prix.

Lagið “Queen of Kings” er sannkallaður danssmellur og Alessandra, sem er opinberlega tvíkynhneigð, segir textann vera hennar leið til tjá upplifun sína sem tvíkynhneigð kona. “Það er um kvenlegan kraft en líka bara um kraftinn sem býr innra með öllu fólki og hversu mikilvægt það er að við fáum öll að vera við sjálf” sagði Alessandra í viðtali fyrir keppnina. Hún semur lagið sjálf í samstarfi við lagahöfundana Henning Olerud, Stanley Ferdinandez og Lindu Dale.

En það voru ekki bara keppendur kvöldsins sem ollu því að spennustigið í Trondheim Spektrum var í hámarki. Keppendurnir í fyrra, geimúlfarnir í Subwoolfer voru mættir á svæðið með nýtt lag sem þeir kölluðu “Worst kept Secret” og var uppi orðrómur um  að þeir myndu loksins fella grímurnar… og elsku úlfstuskurnar okkar voru ekkert að draga úr þeim orðrómi. Enda fór það svo að Jim og Keith tóku loksins ofan hinar ástsælu úlfagrímur og undir þeim leyndist verst geymda leyndarmál seinustu júróvertíðar en það voru að sjálfsögðu söngvararnir Gaute Ormåsen og Ben Adams sem voru mennirnir á bakvið úlfana. Þegar þeir voru inntir eftir ástæðunni fyrir grímubúningadæminu, hlógu þeir og sögðu að þeir hefðu verið með þetta snilldarlag um að gefa úlfinum banana svo hann æti ekki ömmu gömlu, en vandamálið var að það vildi engin syngja það! Svo þeir ákváðu bara að flippa með þetta alla leið, klæða sig í grímubúninga og gera meira gaman úr þessu og því fæddist geimverutvíeykið Jim og Keith og við munum ávallt kunna þeim þakkir fyrir þann gjörning. En það er ennþá á huldu hver leynist á bakvið DJ Astronaut… kannski verður það leitt til lykta á úrslitum Söngvakeppninnar 4. mars nk.?

En drottning allra kónga, hún Alessandra mun því standa keik á sviðinu í Liverpool í vor og freista þess að koma Norðmönnum í aðalkeppnina. Við segjum bara: “Lykke til og poj poj”.