Hverjir eru hinir norsku geimúlfar?


Um fátt hefur verið meira rætt í aðdraganda þessarar Eurovision keppni en norska framlagið Give That Woolf A Banana með Subwoolfer.

Ástæðan? Enginn veit hverjir eru á bak við gulu úlfagrímurnar. Eða réttara sagt enginn þykist vita hverjir eru á bak við gulu grímurnar. Þegar norska framlagið var tekið fyrir í Alla leið um daginn giskuðu menn helst á að þetta væru Ylvisbræður, gríndúettinn sem garði garðinn frægan með What does the fox say? Sama kom fram í Júrókastinu á Fréttablaðinu. Við hljótum því að draga þá ályktun að enginn hér á landi viti í raun hverjir Subwoolfer eru.

Með vísan til þessa er okkur hér á FÁSES.is ljúft og skylt að fletta ofan af gulu, norsku geimúlfunum. Að minnsta kosti setja fram rökstudda kenningu, studda gögnum. Í febrúar flutti Verdens Gang, eitt stærsta dagblað Norðmanna sem er m.a. þekkt fyrir að hafa flett ofan af Tindersvindlaranum fræga, fréttir af málinu. Í kjölfar þeirrar fréttar fjallaði ein stærsta aðdáendasíða Eurovision, wiwibloggs, um málið.

Í frétt VG er sagt frá því að fjölmiðafólk blaðsins hafi komið sér fyrir við Fornebu höllina tveimur dögum eftir úrslit Melodi Grand Prix en þá var verið að taka upp norska framlagið til að eiga á bandi ef ske kynni að eitthvað óvænt kæmi upp á. Með því að fletta upp í norsku ökutækjaskránni, tók VG eftir því að bílum tónlistarmannanna Gaute Ormåsen og Ben Adams var lagt á bílastæðinu við höllina þennan dag. Aðspurðir vildu Gaute og Ben ekkert láta hafa eftir sér þegar VG gekk á þá með málið. Stig Karlsen, hinn skeleggi formaður norskur sendinefndarinnar, vildi heldur ekkert segja um málið.

Gaute t.v. og Ben t.h.

En hverjir eru þessir Gaute og Ben?
Söngvarinn Gaute Ormåsen varð fyrst þekktur í Noregi þegar hann tók þátt í fyrstu seríu af Idol þar í landi. Hann hefur einnig keppt í Melodi Grand Prix, árin 2010 (komst ekki í úrslit) og 2013 (komst í úrslit). Ben Adams er breskur söngvari og best þekktur sem hluti strákabandsins A1 sem gerði það gott á tíunda áratug síðustu aldar. Hann er nú búsettur í Noregi og tók þátt í Melodi Grand Prix 2010 með A1, en þeir lentu í öðru sæti í keppninni á eftir Didrik Solli-Tangen og laginu My Heart Is Yours.

Allt frá því að Subwoolfer voru valdir til þátttöku í Melodi Grand Prix í Noregi hafa þeir verið huldir gulu úlfagrímunum og DJ Astronaut verið í geimbúningi. Þeir hafa tjáð sig í viðtölum og á blaðamannafundum með aðstoð túlks svo að enginn þekki þá. Engar myndir hafa náðst af þeim án grímanna, svo við vitum til.

Í morgun rákust við síðan á þetta tíst og svo virðist sem blaðamenn í Tórínóhöllinni séu orðnir nokkuð vissir um að Ben Adams sé meðlimur Subwoolfer.

Við höfðum samband við blaðafulltrúa íslensku sendinefndarinnar, Rúnar Freyr Gíslason, til að kanna málið en hann hafði ekki hugmynd um hverjir væru á bak við gulu grímurnar. Aðspurð sagði fréttaritari FÁSES í Tórínó, Kristín Kristjánsdóttir, að hún upplifði þetta þannig að Subwoolfer væru verst geymda leyndarmálið síðan reynt var að telja fólki trú um að Sergey Lazarev væri gagnkynhneigður árið 2016. Erum við þá ekki bara komið með þetta, lesendur góðir?