Albina fyrir Albaníu – úrslit Festival i Kenges kunngjörð.


Gleðileg FiK-jól! Það ómuðu jólabjöllur og hljómfögur albanska í Tirana í gærkvöldi þegar Albanir hringdu inn júrójólin með 61. úrslitakvöldi Festivale i Kenges eða bara FiK eins og hún kallast í stuttu máli og vakti þetta sannkallaðan jólaanda í sálum júróþyrstra aðdáenda.

26 lög hófu leik og eftir tvær undankeppnir sem haldnar voru 19. og 20. desember, stóð 21 lag eftir. Að vanda var valið ekkert beint í mark og borðleggjandi því sérstök dómnefnd valdi áfram fimm lög sem flutt voru af minna þekktum listamönnum en hin fimm fóru sjálfkrafa áfram, því þau voru flutt af meira þekktum listamönnum (á albanskan mælikvarða).

Orðrómur sagði á haustmánuðum að albanska sjónvarpið ætlaði að breyta kosningafyrirkomulaginu í FiK vegna óánægju þjóðarinnar með dómnefndirnar, þar sem þær þóttu oft vera hlutdrægar og spillingarkenndar. Kynnir keppninnar, hún Arbana Osmanti staðfesti svo orðróminn þegar nær dró keppni. Í stað hreinnar dómnefndarkosningar var nú sá háttur hafður á að dómnefndin kaus vissulega sín þrjú topplög en “Elvita” í flutningi söngkonunnar Elsu Lila, sem lenti í efsta sæti dómnefndarkosningar og vann þ.a.l Festival i Kenges, verður ekki framlag Albaníu til Eurovision. Það var nýtilkomin almenningskosning sem skar úr um hver færi sem fulltrúi landsins til Liverpool í maí og það var Albina & Familja Kelmendi með lagið “Duje” sem átti hug og hjörtu landa sinna í ár.

Eins og heyra má, er lagið dramatískur óður til fjölskyldunnar með mjög svo þjóðlegu ívafi, algjörlega í anda Albaníu sem hafa aldrei verið feimnir við að senda etnískar kraftballöður, fluttar af raddsterkum söngkonum. Ef það er ekki bilað, er óþarfi að laga það, ekki satt?

 

Það eru ekki miklar upplýsingar um hana Albinu á internetinu. Við vitum þó að hún er fædd árið 1998 og hefur verið þó nokkuð lengi að fást við tónlist, þrátt fyrir ungan aldur, en hún keppti m.a. í The Voice: Albania þar sem hún náði góðum árangri. Albina er Kosovu-Albani og er af Kelmendi ættbálknum líkt og bakraddasöngvararnir hennar, en þaðan kemur nafnið á hópnum. Þau eru s.s. ekki blóðskyld í þeim skilningi, heldur öll af Kelmendi ættbálknum og kenna sig við hann.

Í vor náði Ronela Hajati ekki tilskyldum árangri í Tórínó og athygli vakti að hún var ekki boðin á FiK til að afhenda Albinu og Kelmendi sigurgripinn. Að hennar sögn er albanska sjónvarpið í fýlu við hana og vildi ekki fá hana í partýið og eðlilega er hún sár út af því. Ekki svalt. Það er ljótt að skilja útundan. En kannski gengur Albinu og co. betur og siglir Albönum inn í úrslitin á ný. Það mun koma í ljós þegar til Lifrarpolls er komið. Þangað til óskar ritstjórn FÁSES Albinu til hamingju og ykkur öllum gleðilegra jóla.