Gleðileg Eurovision jól: Úkraína velur lag fyrir Liverpool.


Fyrsta undankeppnin fyrir Eurovision 2023 fór fram í gær og var það Úkraína sem reið á vaðið. Einhverjir gætu verið hissa á því í ljósi stríðsins en að sjálfsögðu er ekkert sem stöðvar úkraínsku þjóðina, ekki síst eftir að hafa sigrað keppnina í Tórínó með glæsibrag. Úkraínska undankeppnin Vidbir, sem er úkraínska fyrir „val“, er ein þeirra undankeppna sem aðdáendur missa alls ekki af því hún ber af þegar kemur að fjölbreytni, sviðssetningu og sjónvarpsframleiðslu. Vidbir 2023 var haldin í sprengjubyrgi í Kænugarði, nánar tiltekið í neðanjarðarlestastöðinni undir Maidan torgi í miðborg höfuðborgarinnar. Væntingar fyrir keppnina voru því ekki miklar, sérstaklega þar sem víðtækt rafmagnsleysi hefur verið í borginni, en sviðsetningin kom verulega á óvart og það voru meira segja áhorfendur á keppninni. Í hléum heyrðist þó þegar lestarnar keyrðu framhjá keppnisstaðnum. Úkraínubúum tókst að halda frábæra keppni undir mjög erfiðum kringumstæðum og það verður að segjast eins og er að sumar aðrar undankeppnir fyrir Eurovision hafa ekki svona glæsilega umgjörð þrátt fyrir hagstæðari ytri aðstæður.

Tíu lög kepptu í Vidbir þetta árið og gilti vægi dómnefndar 50% og vægi almennings 50%. Kosið var í gegnum sérstakt smáforrit og gátu Úkraínumenn búsettir erlendis einnig greitt atkvæði. Dómnefnd samanstóð af Jamölu, sigurvegara Eurovision 2016, Julia Sanina og Taras Topolia sem er giftur Alyosha sem keppti í Eurovision 2010. Dómnefndin var valin af almenningi í gegnum sama smáforrit og almenningskosningin fór fram í gegnum. Kynnar voru Timur Miroshnychenko, sem var kynnir Eurovision 2017, Kateryna Pavlenko, söngkona Go_A, og Zlata Ognevish, sem söng Gravity í Eurovision 2013.

Eftir að lögin tíu höfðu verið flutt var sýnd heimildarmynd um vegferð Kalush Orchestra í Eurovision áður en úrslitin voru kynnt. Í þriðja sæti lenti Jerry Heil en margir höfðu spáð henni sigri í keppninni. Texti þjóðlagaskotna lagsins “When God shuts the door” fjallar um stríðið eins og mörg laganna þetta kvöld en Jerry segir okkur að þegar Guð lokar einum dyrum opnar hann aðrar.

Í öðru sæti var Krutb (síðasti stafurinn er hljóðlaus) en hún sigraði dómnefndarkosninguna. Lag hennar er vögguvísa sem fjallar um móður sem reynir að svæfa barn sitt á stríðstímum þegar óvinir fara um landið. Krutb spilar á úkraínskt strengjahljóðfæri, bandura, í laginu og það er óhjákvæmilegt annað en að komast við svo áhrifamikið var lagið og flutningurinn.

Sigurvegarar Vidbir 2023 voru Tvorchi með lagið Heart of Steel. Þeir fengu fullt hús stiga hjá almenningi en lentu í 2. sæti hjá dómnefndinni sem þýddi að þeir sigruðu Krutb með einu stigi. Lagið Heart of Steel er óður til Úkraínubúa sem héldu til í stálverksmiðjunni Azovstal í Mariupol og sendu hvatningarmyndbönd til landa sinna þrátt fyrir að búa við stöðugar árásir Rússa á verksmiðjuna. Tvorchi samanstendur af tveimur vinum; söngvaranum Jefferey, sem fæddist í Nígeríu og raftónlistarmanninum Andriy. Þeir kynntust í lyfjafræðideild Ternopil háskólans í Vestur-Úkraínu árið 2018. Raftónlistartvíeykið hefur notið velgegni í heimalandinu og gefið út fjórar plötur. Þeir hafa einu sinni áður tekið þátt í Vidbir, árið 2020 og lentu þá í 4. sæti. Tvorchi var ekki endilega augljós sigurvegari Vidbir í upphafi keppninnar en FÁSES-liðar sem horfðu saman á keppnina á Veður bar í ófærðinni í gær voru engu að síður mjög ánægðir með val Úkraínubúa fyrir Liverpool.