Miðar á Eurovision 2023 fyrir FÁSES-liða


Mál málanna hjá stjórn FÁSES þessa dagana er aðdáendamiðasalan fyrir aðalkeppni Eurovision í Liverpool 2023! Nú hafa allir FÁSES-liðar sem greiddu félagsgjöld sín ekki seinna en 29. september sl. fengið tölvupóst um fyrirkomulagið en góð vísa er aldrei of oft kveðin svo hér koma helstu atriðin.

FÁSES félagar sem hafa áhuga á að kaupa aðdáendamiðapakka á Eurovision í Liverpool í gegnum félagið þurfa að skrá sig á eyðublaði sem hefur verið sent félögum í gegnum félagsskírteinaappið Cardskipper. Félagar eru beðnir um að fylla eyðublaðið út fyrir mánudaginn 21. nóvember nk. Allir félagar 16 ára og eldri sem skráðu sig og greiddu ársgjaldið eigi síðar en 29. september eiga að vera komin með boðslykil í tölvupósti eða á smsi frá Cardskipper appinu. Hægt er að fara á síðu Cardskipper til að setja upp aðganginn eða sækja um nýjan aðgangslykil með því að sækja um nýtt lykilorð hér. Ef þú ert í vandræðum með að setja upp Cardskipper vinsamlegast sendu okkur tölvupóst á ogae.iceland@gmail.com og við aðstoðum við að setja upp aðganginn. Í framhaldinu verða upplýsingar um miðapakkana einungis sendar til þeirra félaga sem skrá sig á eyðublaðið. Þessi skráning er ekki bindandi enn sem komið er. Þegar verð á miðum verður ljóst munum við óska eftir lokastaðfestingu.

Það er mjög mikilvægt að taka fram að FÁSES getur ekki ábyrgst að öll sem sækja um miða fái miða í úthlutuninni. FÁSES stjórnar ekki miðadreifingunni heldur er hún ákvörðuð út frá reglum OGAE International. FÁSES úthlutar miðum sem félagið fær eftir félagsnúmeraröð. Það þýðir að þeir félagar sem hafa lengst verið í FÁSES fá möguleika á að kaupa miða fyrst.

Á spurt&svarað síðunni hér á FÁSES.is er að finna alls konar fróðleik um hvernig aðdáendamiðasalan gengur fyrir sig. Við viljum taka nokkur mikilvæg atriði fram:

  • Hver FÁSES-liði getur einungis keypt aðdáendapakka fyrir sig (þeir sem eru í FÁSES njóta fríðinda klúbbsins, ekki aðrir).
  • FÁSES hefur milligöngu um sölu svokallaðra aðdáendapakka til félagsmanna sinna. Á þessari stundu vitum við ekki hvernig pakkinn verður samsettur eða hvað miðarnir munu kosta. Við vitum heldur ekki hvort boðið verði upp á sæti eða stæði eða hvort tveggja fyrir aðdáendur. Þess vegna er best fyrir þau sem hafa áhuga á miðum að skrá sig í eyðublaðið til að fá upplýsingar um fyrirkomulagið því skráningin er ekki bindandi á þessu stigi málsins.
  • Ákaflega mikilvægt er í öllu ferlinu að fylgjast mjög vel með tölvupósti. Best er að FÁSES-liðar gefi upp virkt netfang því oft þarf að bregðast við póstum frá FÁSES vegna aðdáendamiðasölu innan fárra klukkustunda.
  • FÁSES hefur ekki milligöngu um flug eða gistingu á Eurovision enda er mjög misjafnt hvenær FÁSES-liðar vilja fara út og fara heim og hversu lengi þeir vilja dvelja í Eurovision-landinu hverju sinni.

Fyrir þá Eurovision aðdáendur sem greiddu eftir 29. september eða lenda ef til vill í því að fá ekki úthlutuðum forkaupsrétti á aðdáendapakka bendum við á að upplýsingar um almennu miðasöluna á Eurovision er að finna á vef keppninnar.