Eurovisionkeppni númer 47 fór fram í Saku Suurhall í Tallinn í Eistlandi fyrir nákvæmlega 20 árum eða þann 25. maí 2002. Kynnar voru Annely Peebo og Marko Matvere. Keppnin hófst á því að sigurvegarar ársins á undan, Dave Benton og Tanel Padar, tóku lagið sem sigraði 2001, Everybody. Þetta var fyrsta keppnin sem hafði slagorð, sem hafa verið síðan. Slagorðið var A modern fairytale, sem átti að endurspegla nýlega sögu Eista samkvæmt framleiðendum. Póstkortin tengdust slagorðinu og snérust um klassísk ævintýri og farið var yfir eitt ævintýri með hverju lagi. Þetta var fyrsta Eurovisonkeppnin sem fór fram í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna. Tuttugu og fjögur lönd tóku þátt. Á þessum tíma vildu fleiri taka þátt í Eurovision en máttu og gilti þarna regla um meðaltalsárangur síðustu fimm ára á undan og allir gátu verið með að minnsta kosti annað hvert ár. Við Íslendingar máttum einmitt þess vegna ekki vera með árið 2002. Það voru líka sveitastjórnarkosningar þennan dag og er þetta líklega sú Eurovisionkeppni sem helst hefur farið framhjá Íslendingum síðan við byrjuðum að vera með. Þessi keppni er reyndar heldur ekki hátt skrifuð og þykja lögin í þessari keppni almennt vera með slakara móti. Fleiri þjóðir voru útilokaðar frá þessari keppni. Meðal annars Írar og Norðmenn og var þetta í eina skiptið sem þeim var meinað að vera með. Danir enduðu í síðasta sæti og er þetta versta niðurstaða þeirra í sögunni.
Tvö lög urðu jöfn í 3-4. sæti. Annað þeirra kom frá heimalandinu. Sahlene flutti lagið Runaway. Höfundar lagsins eru Alar Kotkas, Ilmar Laisaar og Pearu Paulus. Textann á Jana Hallas. Sömu höfundar sömdu einnig lagið Once In A Lifetime sem var framlag Eista í Eurovision árið 2000 og Ines söng. Það lag endaði í 4. sæti. Sahlene eða Anna Sahlin eins og hún heitir, er sjálf frá Svíþjóð. Hún tók nokkrum sinnum þátt í Melodifestivalen eftir þetta.
Hitt lagið sem endaði í 3.-4. sæti var lagið Come Back með velsku söngkonunni Jessicu Garlick. Lagið er eftir Martyn Baylay. Þetta var besti árangur Breta í Eurovision í 20 ár, eða þar til nú í ár þegar Sam Ryder náði öðru sæti. Jessica hafði tekið þátt í Pop Idol keppni árið áður, en lítið hefur spurst til hennar síðan.
Malta varð í öðru sæti. Ira Losco söng lagið 7th Wonder eftir Philip Vella og Gerad James Borg. Maltverjar hafa einu sinni eftir þetta, eða árið 2005, náð 2. sæti, en þetta er hlutfallslega enn besti árangur þeirra í Eurovision ef tekin eru fengin stig deilt með mögulegum stigafjölda. Þetta var byrjunin á söngferli Iru sem hefur starfað sem söngkona og dómari í söngkeppnum síðan. Hún tók svo aftur þátt í Eurovision árið 2016 með lagið Walk On Water og komst í úrslit.
En það var nágrannaland staðarhaldara, Lettland, sem fór með sigur af hólmi. Marie N söng lagið I wanna. Lagið er eftir hana og Marats Samauskis. Marie N eða Marija Naumova var svo kynnir á Eurovisionkeppninni í Riga ári síðar ásamt Renars Kaupers sem keppti fyrir Lettland árið 2000 sem söngvari hljómsveitarinnar Brainstorm. I Wanna náði samt aldrei neinum vinsældum og náði ekki einu sinni á topp 30 lista í Lettlandi, hvað þá í öðrum löndum. Lettland átti upphaflega ekki að vera með í þessari keppni vegna reglna um hámarksfjölda þátttakanda ár hvert. En Portúgal vildi ekki vera með og þá voru Lettar næstir inn miðað við meðalstalsárangur síðustu fimm ára og laumuðu sér þannig alla leið á toppinn. Þetta var aðeins í þriðja sinn sem Lettar voru með í Eurovision.