Júró-Gróa í Tórínó IV


Nú heilsar Gróan úr ekta ítölsku veðri. Það er yfir 25 stiga hiti og borgarbúar hér í Tórínó eru m.a.s nokkrir búnir að slaufa Primaloft-úlpunum og húfunum. Gróan er nú svoddan norðurlandabúi og er eiginlega bara að kafna og það er hreinlega ekki til nóg af Aperol-Spritz í þessari borg til að svala þorstanum! En ykkar einlæg hefur nú samt haft augu og eyru hjá sér, svo það sé hægt að svala þorsta ykkar og segja ykkur hvað er að gerast þessa dagana í höfuðborg FIAT.

Það hefur ýmislegt rekið á fjörur Júró-Gróu undanfarna daga og ekki allt jafn gott! Á sunnudaginn barst sú leiða fregn að sjálfboðaliði hefði verið áreittur kynferðislega af einhverjum úr einni af sendinefndum landanna 40. Þegar farið var að garfa í málunum, reyndist það hafa verið einn af dönsurum Jeremie Makiese sem var svona ógeðslega mikill dóni! Gróan hefur ekki fengið staðfest hvort einhverjir eftirmálar verða af þessu en ætlar svo sannarlega ekki að linna látum fyrr en það er komið á hreint. Bara fussum svei og skammastu þín, ungi maður!!!

Og talandi um ógeðslega mikla dóna. Ísraelski keppandinn Michael Ben David er ekki vinsælasti maðurinn á svæðinu. Ekki hjá öðrum keppendum. Ekki hjá starfsfólki keppninnar. Ekki einu sinni hjá sínum eigin löndum! MBD (eins og hann verður skammstafaður hér eftir) er víst búinn að gera dívustæla, óalmennilegheit og dónaskap að einhverskonar listgrein. Hann hraunar hér víst yfir allt og alla, kýldi blaðamann og er í alla staði mjög leiðinlegur og erfiður í umgengni.  Og ágengur líka, eins og aumingja Sheldon Riley fékk að upplifa á túrkísbláa dreglinum. MBD langaði víst heil lifandis ósköp að kyssa Sheldon fyrir framan myndavélarnar en elsku Ástralinn okkar var ekki alveg að gúddera það, enda harðgiftur maður. MBD gerði sér þá lítið fyrir og þröngvaði tungunni ofan í hálsinn á Sheldon sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Halló gaur, nei þýðir nei! En nú vill MBD laga eitthvað ímyndina sína og tilkynnti í tilfinningaþrungnum pósti á Instagram að hann hefði beðið kærastans síns og sá hefði játast honum. Spurning um smá inngrip í líf þess ágæta manns.

En förum nú yfir á jákvæðu nóturnar, því Gróan er bara orðin pirruð hérna. Einn Aperol-Spritz í viðbót ætti að duga til að draga úr því, sem og sú staðfesta fregn að TIX er í Tórínó! Og hann er ekki einn á ferð því með honum er Efendi, hið azerska man sem hann kolféll svo fyrir í fyrra, eins og frægt er orðið. Fólk er að vona að þau hafi í raun og sann fundið hvort annað og ástina og þetta sé ekki fjölmiðlatrix eins og margir (sem ekki eru jafn vonleysislega rómantískir og Gróa) vildu halda fram á sínum tíma. Ulla bara á svoleiðis svartagallsraus, því þau eru svo sæt eitthvað.

Og talandi um TIX. Það flaug einnig fjöllunum hærra, að hann væri í raun DJ Astronaut, geimfarinn í Subwoolfer og m.a.s gekk ljósmynd um meðal fólks, sem sýndi TIX í geimfarabúningnum. Allmargir fjölmiðlar hér stukku á fréttina og klístruðu henni á forsíður hinna og þessa Eurovision síðna. En Gróa var nú ekki alveg að falla fyrir þessu svona einn, tveir og bingó og ákvað að fá þetta algjörlega staðfest, enda er hún þekkt fyrir allt annað en að vera fljótfær. Og viti menn. TIX er EKKI DJ Astronaut. Þetta var eingöngu og alfarið góðlátlegt grín hjá norska sjónvarpinu og aðeins gert til að rugla í fólki. Meiru prakkararnir þarna í Norge.