Eftir blauta viku er loksins komin sól í Tórínó. Það breytir því þó ekki að það er fremur lágskýjað á herbergi Júró-Gróu á Double Tree hóteli Hilton. Gærkvöldinu varði hún með Eurovision vinum á Mojobarnum þar sem kneifað var öl af miklum móð og kvaddar rímur að áströlskum hætti, enda gestgjafarnir ástralskir. Á gestalistanum voru auk Ástrala og Íslendinga, Ungverjar, Mexíkóbúar, Bandaríkjamenn, Svíar, Danir, Bretar, Ísraelsmenn og Þjóðverjar – já, mjög alþjóðlegt partý þar!
Þegar saman kemur slíkur hópur þá fréttist nú ýmislegt svo Gróa á í engum vandræðum með að fylla í einn pistil til viðbótar! Bretarnir sögðu við Gróu að þeir væru byrjaðir að undirbúa Eurovision 2023 eftir sigur Sam Ryder og stefna á að halda keppnina í Manchester þar sem Eurovisiondeild breska ríkisútvarpsins BBC hefur aðsetur. Og bíddu bara! Það er ekki að ástæðulausu að Bretar hafa beðið svona lengi með að koma með hina fullkomnu tónsmíð því höllin sem mun hýsa Eurovision í Manchester er enn í byggingu og verður opnuð næsta vetur. Sú höll verður stærsta tónleikahöll á Bretlandseyjum svo Eurovision aðdáendur geta verið spenntir!
Til að fá þetta staðfest hefur Gróa setið um Graham Norton á hótelbar bresku sendinefndarinnar, enda eiga þau langa og dramatíska sögu frá því að hann tók við þularhlutverkinu hjá BBC eftir lát góðvinar Gróu,Terry Wogan. Blessuð sé minning hans. Graham er samt ekki mættur til Tórínó, en hins vegar er kominn hingað her aðstoðarmanna hans sem sér um að á hótelherberginu hans séu tilbúin 100 hvít handklæði, vanillukerti sem ilma eins og írska vorið og til að SEMJA HANDRITIÐ FYRIR HANN! Já, þið heyrðuð það rétt. Á Eurovision deild BBC er eitt svið sem sérhæfir sig í handritaskrifum fyrir útsendinguna. Graham ætlar víst ekkert að mæta á svæðið fyrr en á föstudaginn til að lesa yfir handritið – sem hann kannski skreytir með nokkrum bröndurum í beinni útsendingu.
En Bretar eru ekki eina þjóðin sem þarf að vera undirbúin undir að halda keppnina á næsta ári. Efst í veðbönkunum eru Úkraínumenn sem mæta hingað í skugga hins skelfilega stríðs sem geysar í heimalandinu og hafa nýtt vettvanginn vel til að vekja athygli á aðstæðum heima fyrir. Hér er orðið á götunni að ef Úkraína vinni, sé líklegt að Pólverjar muni halda keppnina fyrir þeirra hönd á næsta ári ef aðstæður leyfa ekki að halda hana í Úkraínu. Pólverjar hafa aldrei haldið Eurovision en hafa tvisvar sinnum verið gestgjafar í Eurovision unga fólksins og gert það með þvílíkum sóma að eftir er tekið!
Íslenski hópurinn deilir hóteli með georgísku og slóvensku sendinefndinni hér í borg en það hótel er staðsett hinum megin við ána Pó á yndislegu svæði sem heitir Crimea. Morgunmatnum er hrósað í hástert á hótelinu og jafnan er slóvenski krakkaskarinn fyrstur á svæðið þegar morgunmaturinn opnar, enda löngu vaknaður til að horfa á barnaefnið og næst á eftir þeim mætir íslenski hópurinn. Seinast mætir skrítnasta band svæðisins, Circus Mircus, og hafa þeir vakið verðskuldaða eftirtekt starfsmanna hlaðborðins, enda fá þeir sér morgunkorn með ávaxtasafa, ristað brauð sem þeir smyrja undir og neita að drekka kaffið nema úr gamaldags drykkjarskvísum frá Disneylandi. Já, þeir eru mjög skrítnir en afskaplega indælir.