Hljómsveitir, himinhvolf og huldir flytjendur? Þetta eru þemu Eurovision 2022


Það fylgja hefðir Eurovisionjólunum eins og öðrum jólahátíðum. Þið þekkið þetta; tungumálapistill ársins birtist í gær, Júró-Gróa er á sínum stað og nú er komið að greiningardeild FÁSES að setja júróframlögin undir smásjána til að greina þemu þessa árs.

 

Hljómsveitir

Eins og Eurovisionaðdáendur þekkja vel hafa sigurlög Eurovision oftast áhrif á næsta júróárgang. Engin breyting er í ár og nú taka óvenjumargar hljómsveitir þátt í keppninni. Við erum jú vön eintómum sólósöngvurum! Vissulega áhrif frá Måneskin. Okkur telst til að hljómsveitirnar séu alls 11 af samtals 40 flytjendum; Lettland, Slóvenía, Georgía, Búlgaría, Finnland, Úkraína, Tékkland, Danmörk, Moldóva og jafnvel má telja Frakkland og San Marínó með hér. Við teljum að það sé á engan hallað þegar við veljum að skreyta þetta greinarkorn með frægustu hljómsveitinni í þessum hópi.

 

Kántrí

Það telst vissulega til tíðinda að kántrí dúkki upp í Eurovision og það heil þrjú lög í ár. Armenía býður upp á taktfast þjóðlagakántrípopp, Eistar bjóða upp á spagettívestra kántrí með Avicii tvisti og íslensku Systurnar bjóða upp á það sem kallað hefur verið álfakántrí með hnífsoddi af dulúð. Með góðum vilja má líka ef til vill segja að Achille Lauro sem flytur lag San Marínó í ár falli í þennan flokk þó lagið sé ekki kántrílag (sannleikurinn er sá að Achille Lauro er það eina sem við getum hugsað um!). Maðurinn er jú með glimmerkúrekahátt og situr velúrklætt, demantaskreytt rafmagnsnaut á sviðinu!

 

Noregur

Noregur er kannski ekki þema en vissulega sætir það tíðindum að Norðmenn sé að finna í þremur atriðum af 40 í ár. Amanda Tenfjord, flytjandi Grikkja,er hálfnorsk. Tveir af þremur meðlimum bandsins We Are Domi, flytjendur Tékka, eru Norðmenn, nánar tiltekið karlmennirnir í bandinu Casper Hatlestad og Benjamin Rekstad. Síðan eru það að sjálfsögðu Subwoolfer frá Noregi. Til að bæta ofan á þetta er einn lagahöfunda austurríska lagsins norskur. Oft hefur verið talað um yfirráð Svía í Eurovision en Norðmenn eru greinilega að sækja á.

 

Grímuklæddir flytjendur

Talandi um Subwoolfer. Flytjendur þriggja laga hylja sig með grímu. Við erum að sjálfsögðu búin að flytja ykkur fregnir af því hverjir séu á bak við gulu geimúlfagrímurnar. Flytjendur Georgíu, Circus Mircus, hafa einnig staðið á júrósviðinu huldir alls konar leppum, gleraugum og furðurhlutum. Í fyrradag fluttu við fréttir af því að Nika Kocharov, sem keppti með Young Georgian Lolitaz árið 2016, sé einn af meðlimum Circus Mircus og stendur keikur á sviðinu skrýddur blómaskeggi! Og svo loks er það hinn hugrakki Sheldon Riley frá Ástralíu sem hylur sig Swarovski demantagrímu (#samstarf) í upphafi lags en berskjaldar sig síðan fyrir áhorfendum í lok lagsins.

 

Himinhvolf

Já, mikið rosalega eru menn eitthvað uppi í skýjunum þetta júróvisjónið. Bretar senda lagið Space Man þar sem söngvarinn svífur um í hægindastól yfir húsum og á milli skýjakljúfra. Talandi um geiminn, Norðmenn senda gula geimúlfa frá tunglinu. Rosa Linn frá Armeníu hefur kynnt lagið sitt Snap með myndbandi þar sem hús hennar tekst á loft með aðstoð segls. Myndbandið minnir mjög á teiknimyndina Up! sem var ákaflega vinsæl hér um árið. Loks eru það hinir ítölsku Mahmood og Blanco sem í myndbandinu við lagið Brividi sjást hjóla á jólaskreyttum reiðhjólum eitthvað út í himinhvolfið.

 

Matur

Alveg eins og að allar konur sem hafa fætt börn og þjást af þvagleka munu þurfa að pissa yfir pólska atriðinu í ár, er hætta á að einhverjir verði svangir yfir júróinu, verði ekki nægar vistir við höndina. Matur er nefnilega eitt af þemum ársins og hvað er annað hægt þegar árgangurinn inniheldur salatlag frá Lettlandi, bananalag frá Noregi, maltnesku söngkonuna sem heitir Muscat að eftirnafni og loks slóvenska bandið LPS sem er skammstöfun á Last Pizza Slice.

 

Þunglyndi og dramatík

Í fyrra voru 18 stuðlög í aðalkeppni Eurovision af 26 í heildina og kvenlegur sjálfsstyrkingaróður var áberandi þema. Það er af sem áður var því það er aðeins of mikið af dramatík, þunglyndi og ástarsorg í Eurovision 2022. Jafnvel örlar smávegis á áföllum tengdum barnæsku flytjenda. Löndin sem tikka í þetta þema eru Grikkland, Svartfjallaland, Holland, Norður-Makedónía, Portúgal, Svíþjóð, Ítalía, Aserbaídsjan, Belgía og jafnvel Þýskaland. Okkur þykir þetta ekkert skemmtilegt þema og ætlum því ekki að dvelja lengi við það. Þið vitið bara af því!

 

Að lokum þökkum við Subwoolfer kærlega fyrir að tikka í fjögur þemu af sjö – þeir setja svo sannarlega svip á þennan Eurovisionárgang. Þeim hlotnast því sá heiður að skrýða forsíðu þessa þemapistils.