Júró-Gróa í Tórínó II


Júró-Gróa er sko hvergi af baki dottin þrátt fyrir að hafa nýtt tímann vel í að kynnast vínmenningu Piemonte héraðsins síðan hún lenti. Það er jú kominn eftirmiðdagur hér í Tórínó svo hún er búin að færa sig úr Lavazza kaffinu yfir í limonchelloið þar sem hún situr á kaffihúsi og mundar harðbeittan pennann við að koma nýjasta slúðrinu til slúðurþyrstra íslenskra aðdáenda!

Það er ekki hægt að segja annað en að ástin hafi svifið yfir vötnum í aðdraganda keppninnar í vor og Gróu bárust þær sögur í gær að belgíski keppandinn Jérémie og Marta Sango sem keppti í spænsku forkeppninni hafi orðið vel til vina þegar þau hittust í fyrirpartýinu í Madrid – svo vel til vina að hann hefur séð sig knúinn til að staðfesta þær sögusagnir!

Svo virðist sem að heimamenn í Tórínó hafi algjörlega vanmetið gestgjafahlutverk sitt og þarfir keppenda og aðdáenda Eurovision þegar þeir tóku að sér að halda keppnina. Aðdáendur voru búnir að bóka upp stóran hluta af gistiplássi borgarinnar svo að þegar kom að því að bóka hótel fyrir sendinefndirnar þá var ekki pláss fyrir þær allar. Þannig hafa sumar sendinefndir þurft að skipta sér á milli hótela og albanska sendinefndin varð að sætta sig við gistingu í smábæ fyrir utan Tórínó – kannski þess vegna sem Ronela er svona brjáluð? Hún hefur farið mikinn á Twitter og skrifaði þar m.a. að fyrst hún gæti ekki staðið undir væntingum aðdáenda gætu þeir bara slökkt á sjónvarpinu fyrst atriðið sitt væri svona mikill skítur! Ronela hefur nú fjarlægt tístið og Eurovision hefur séð sig knúið til að gefa út yfirlýsingu þar sem aðdáendur eru hvattir til stillingar! Þó að skipuleggjendur keppninnar séu ekki alveg með það á hreinu alltaf hvernig eigi að halda Eurovision þá skortir allavega ekki dramað í Tórínó!

Gróa er enn að reyna að ná sambandi við Damiano David eða einhvern annan af hljómsveitarliðum Måneskin sem hefur reynst afar erfitt! Síðasta sem hún heyrði af krúttunum í Måneskin var að þau væru stödd í Kaliforníu í Bandaríkjunum að taka upp nýjustu plötuna sína. Júró-Gróu var farið að gruna að Damiano og co ætluðu sér hreinlega ekki að vera viðstödd keppnina í heimalandi sínu til að gefa keflið áfram til sigurvegarans í ár! Sem hefði verið algjör synd! En nú rétt í þessu var EBU að staðfesta að þau kæmu vissulega fram í PalaOlimpico höllinni hér í Tórínó þann 14. maí. Og meira segja með nýtt lag undir hendinni, Supermodel!

Venjulega hlustar Júró-Gróa ekki á samsæriskenningar, enda þekkt fyrir að vera rödd skynseminnar í þeim efnum. En þessi samsæriskenning er of grunsamlega trúverðug til að Gróa geti hrist hana frá sér. Rosa Linn frá Armeníu er búin að þekja sviðið með klósettpappír sem hún hefur líklega átt nóg af eftir að hafa birgt sig upp af honum í upphafi Covid og á meðan að á flutningi lagsins stendur þá rífur hún niður pappírinn af veggjum sviðsins og undir pappírnum birtast dulin skilaboð: orðið snap, hjarta og dagsetningin 22. júní, sem vekur mesta athygli. Sjálf segir Rosa Linn dagsetninguna 22. júní vera persónulega mikilvæga dagsetningu fyrir sig en orðið á götunni í Tórínó er að þessi dagsetning hafi tengingu við Nagorno-Karabach deiluna. Gróa er á fullu að rannsaka málið nánar og hefur sett sig í samband við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands til að reyna að fá botn í málið!