Tungumálasúpa Eurovision 2022


Síðan 1999, þegar ný tungumálaregla gerði þjóðum kleift að syngja á hvaða tungumáli sem er var komið á, hafa einungis þrjú sigurlög Eurovision, ríkjandi sigurlag það nýjasta, verið flutt alfarið á öðru tungumáli en ensku og tvö innihaldið textabúta á öðru tungumáli en ensku. Auk þess hefur meirihluti framlaga hvert ár síðan þá verið á hinni útbreiddu ensku.

Alltaf er þó einhver fjöldi laga hvert ár flutt á móðurmáli landa sem ekki eru enskumælandi eða jafnvel á tungumálum sem ekki eru töluð í viðkomandi landi og jafnvel bara ekki til yfirhöfuð.

Í ár eru átta framlög sungin alfarið á öðru tungumáli en ensku, eitt sem er sungið að mestu leyti á móðurmálinu með nokkrum teskeiðum af ensku, þrjú þar sem móðurmálið er í forgrunni en þó með nokkrum matskeiðum af ensku og þrjú að mestu leyti sungin á ensku en þó með einum bolla af móðurmálinu.

Í heildina eru það hvorki meira né minna en 15 tungumál, fyrir utan enskuna, sem við fáum að njóta á stóra sviðinu í ár.

 

Íslenska

Þetta verður í þriðja skiptið síðan 1999 sem íslenska framlagið er sungið á okkar ástkæra ylhýra og jafnframt í þriðja skiptið sem íslenska heyrist á Eurovision sviðinu, því google translate útgáfan af íslensku sem Danirnir buðu upp á 2018 er ekki talin með.

Gengið hefur ágætlega að syngja á íslensku fyrir Evrópubúa, þar sem „Ég á líf“ endaði í 17. sæti í úrslitunum 2013 og „Hatrið mun sigra“ í 10. sæti í úrslitunum 2019. Nú er því bara að bíða og sjá hvernig Systrunum gengur með að heilla Evrópu með söng sínum á íslensku í Tórínó.

Albanska

Meirihluti framlaga Albana síðan þeir hófu þátttöku árið 2004 hafa verið á ensku. Framlag þeirra í ár verður sungið á albönsku í bland við ensku, þó upprunalega útgáfan hafi verið nánast alfarið á albönsku. Verður þetta í tíunda skiptið sem albanska heyrist á Eurovision sviðinu.

Albanska er af indó-evrópskum uppruna þar sem það tilheyrir sinni eigin ættkvísl. Tungumálið er opinbert tungumál í Albaníu, Kosovo og Makedóníu, en er þó talað víðar. Albani má finna víða um Evrópu ásamt því að vera nokkuð fjölmennir í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu, Ástralíu og Egyptalandi. Talið er að um 5,5 milljónir einstaklinga tali albönsku að móðurmáli.

Bretónska (Breton)

Franska framlagið í ár er flutt á tungumálinu bretónsku og verður það í annað skiptið sem tungumálið fær að hljóma í Eurovision. Franska framlagið árið 1996 var flutt á bretónsku en laginu gekk þó ekkert sérlega vel, endaði í 19. sæti af 23, og hafa Frakkar ekki veðjað aftur á þetta tungumál fyrr en nú.

Bretónska er tungumál sem talað er á Bretagneskaga í Norðvestur-Frakklandi og er af keltneskum uppruna, sem gerir það að síðasta tungumálinu af keltneskum uppruna sem talað er á meginlandi Evrópu. Bretónska er flokkað sem tungumál í útrýmingahættu þar sem að á einungis 50 árum fækkaði þeim sem tala málið úr 1 milljón manns niður í 200 þúsund manns.

Gríska

Grikkir snuða okkur um móðurmál sitt grísku í ár, en Kýpverjarnir koma okkur til bjargar enda er gríska annað af opinberu tungumálum þeirra. Framlag Kýpur í ár er þó sungið bæði á ensku og grísku, en titill og viðlag lagsins er á grísku.

Gríska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir sinni eigin ættkvísl. Tungumálið er sögulegt fyrir þær sakir að vera elsta indó-evrópska tungumálið sem enn er talað, en elstu skriflegu heimildir um grísku eru um 3400 ára gamlar. Gríska er opinbert tungumál í Grikklandi og Kýpur ásamt því að vera talað meðal annars í Albaníu, Ítalíu, Ungverjalandi og Rúmeníu. Talið er að um um 13,5 milljónir einstaklinga hafi það að móðurmáli.

 

Hollenska

Gestgjafarnir frá því í fyrra mæta með móðurmál sitt hollensku á svið í fyrsta skiptið síðan 2010, þegar Sieneke söng slagarann „Ik ben verliefd (Sha-la-lie)“. Þar á undan hafði hollenska ekki heyrst síðan 1998, þegar Edsilia Rombley, einn af kynnum keppninnar í fyrra, flutti lagið „Hemel en aarde“ og endaði í fjórða sæti.

Hollenska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir germönsku ættkvíslinni, nánar tiltekið vestur-germönsku ættinni. Meðal hennar nánustu skyldmenna eru þýska og lúxembúrgíska. Ásamt því að vera opinbert tungumál Hollands, er hollenska opinbert tungumál í Suriname og flæmska mállýskan í Belgíu. Einnig er hún töluð á nokkrum eyjum í Karíbahafi, þar á meðal Aruba og Curaçao. Talið er að um 25 milljónir manna hafi hollensku að móðurmáli.

Ítalska

Gestgjafaþjóðin Ítalía eiga ennþá eftir að senda framlag sem alfarið er sungið á ensku, en þrjú framlög þeirra síðan 1999 hafa verið sungin á bæði ítölsku og ensku, ásamt því að heyra mátti arabísku í framlagi þeirra árið 2019. Hafa verður þó í huga að þeir voru ekki með frá 1997 til 2011. Í ár er framlag þeirra alfarið sungið á ítölsku.

San Marínó býður einnig upp á lag á ítölsku, þótt nokkrum enskum orðum sé skeytt inn á milli. Er þetta einungis í þriðja skiptið sem San Marínó syngur á móðurmálinu ítölsku, fyrsta framlag þeirra árið 2008 var sungið á því máli ásamt framlagi Valentinu Monetta árið 2013.

Ítalska er af indó-evrópskum uppruna, nánar tiltekið af rómönsku ættkvíslinni. Meðal hennar næstu nágranna eru spænska og franska. Ásamt því að vera opinbert tungumál Ítalíu er hún það einnig í San Marínó. Sviss og Vatíkaninu. Einnig er tungumálið móðurmál flestra þeirra sem búa á Istría-skaganum, en Ítalía, Króatía og Slóvenía deila honum á milli sín. Talið er að um 90 milljónir einstaklinga hafi ítölsku að móðurmáli sínu.

 

Króatíska

Meirihluti framlaga Króata frá 1999 hafa verið sungin alfarið eða að hluta til á króatísku, en sex framlög hafa verið sungin alfarið á ensku og eitt á ensku og ítölsku. Framlag þeirra í ár er reyndar að mestu leyti á ensku, en eitt vers er sungið á króatísku. Sú útgáfa er þó enn ekki til í myndbandsformi en mun þó heyrast á sviðinu.

Króatíska er indó-evrópsk mál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið hinni serbó-króatísku. Talið er að um 5,6 milljónir tali króatísku að móðurmáli en fyrir utan Króatíu er hún einnig töluð í nágrannalöndunum Bosníu-Hersegóvínu, Serbíu, Svartfjallalandi og Rúmeníu.

Litháíska

Litháar bjóða okkur upp á framlag sungið alfarið á móðurmálinu litháísku í fyrsta skiptið síðan þeir stigu fyrst á svið árið 1994. Árið 2001 var þó hluti af framlagi Litháa á litháísku, ásamt því að framlag þeirra árið 1999 var á samógitísku, sem talað er í vesturhluta Litháen, en tvennar sögur fara þó af því hvort það teljist sem mállýska eða sér tungumál.

Litháíska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir baltnesk-slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið austur-baltnesku ættinni. Tungumálið er náskylt lettnesku og öðrum minna útbreiddum tungumálum sem töluð eru í kringum Eystrasaltið. Talið er að rétt yfir 3 milljónir hafi tungumálið að móðurmáli, en Litháen er eina landið þar sem það er opinbert tungumál. Tungumálið er viðurkennt sem minnihlutatungumál í Póllandi en er þó talað víðsvegar um heiminn af litháískum innflytjendum, þar á meðal á Íslandi.

 

Portúgalska

Portúgalir eru mjög duglegir að breiða út boðskap sinn í Eurovision á móðurmálinu portúgölsku en framlög þeirra hafa ávallt verið alfarið á portúgölsku fyrir utan þrjú þeirra sem innihéldu búta á ensku og framlag þeirra árið 2021 sem sungið var alfarið á ensku. Í ár bjóða Portúgalir okkur upp á smjörþef af portúgölsku þar sem framlag þeirra er að mestu leyti á ensku en þó með dass af móðurmálinu portúgölsku.

Portúgalska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Er tungumálið því náskylt frönsku, spænsku og ítölsku. Þrátt fyrir að Portúgal sé ekki gríðarstórt land þá tala um 220 milljónir einstaklinga portúgölsku að móðurmáli, en hún er einnig opinbert tungumál í Brasilíu, Grænhöfðaeyjum, Mósambík, Gíneu-Bissaú, Angóla og Saó Tomé & Prinsípe. Einnig er tungumálið talað í Austur-Tímor, Miðbaugs-Gíneu og á Makaó. Þakka má útbreiðslunni hinum afkastamiklu landkönnuðum Portúgala ásamt þeirri staðreynd að Portúgal var eitt sinn helsta nýlenduveldi heims.

Rúmenska

Rúmenar bjóða okkur ekki upp á móðurmál sitt ár, en frændur þeirra Moldóvar gera það þó enda er það einnig móðurmál þeirra. Rúmenska heyrðist síðast á Eurovision sviðinu í rúmenska framlaginu árið 2015 og þar áður í moldóvska framlaginu 2013.

Rúmenska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Tungumálið er náskylt öðrum rómönskum tungumálum eins og spænsku og ítölsku, en er þó flokkað sem austur-rómanskt mál. Talið er að um 25 milljónir hafi tungumálið að móðurmáli og er það opinbert tungumál í Rúmeníu og Moldóvu. Einnig er það talað í Úkraínu, Ungverjalandi og Serbíu.

Serbneska

Serbar hófu þátttöku í Eurovision árið 2007 og voru öll framlög þeirra á móðurmálinu frá því ári til ársins 2013. Næstu þrjú framlög þeirra voru á ensku, en framlög þeirra árin 2019, 2020 og 2021 voru að stærstum hluta á serbnesku. Serbar eru einmitt ein af þeim þremur þjóðum sem hafa átt sigurlag Eurovision síðan 1999 á öðru tungumáli en ensku.

Serbneska er af indó-evrópskum uppruna, tilheyrir ætt slavneskra tungumála og er náskyld bosnísku, króatísku og svartfellsku. Serbneska er opinbert tungumál í Serbíu ásamt því að vera eitt af þremur opinberum tungumálum í Bosníu-Hersegóvínu og eitt af tveimur í Kosovo. Um 12 milljónir einstaklinga tala serbnesku að móðurmáli, en fyrir utan þau lönd sem hafa það að opinberu tungumáli er serbneska einnig töluð í Svartfjallalandi, Króatíu og Makedóníu.

Latína

Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta í fyrsta skiptið sem latína heyrist á Eurovision sviðinu. Serbneska listakonan Konstrakta er þess heiðurs aðnjótandi að kynna Eurovision sviðið fyrir þessu forna tungumáli. Titill serbneska lagsins er á latínu, ásamt því að undir lok lagsins eru sungnar nokkrar setningar á latínu.

Latína er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir fornítölsku ættkvíslinni. Latína telst ekki móðurmál neins staðar en það er enn notað í Vatíkaninu og á ýmsum vettvangi, eins og í slagorðum og lagabálkum. Einnig hefur latína haft mikil áhrif á enska tungu, þar sem mörg orð í ensku eiga uppruna sinn að rekja til latínu.

Það er einkar viðeigandi að latínan komi fram í fyrsta skiptið þegar keppnin er haldin á Ítalíu, þar sem tungumálið var ríkjandi tungumál Rómaveldis. Einnig er Vatíkanið, ríki páfa sem staðsett er í Róm, eina ríkið þar sem latína er opinbert tungumál.

 

Spænska

Spánverjar hafa oftast sungið á spænsku, en nokkur framlög þeirra síðan 1999 hafa verið á bæði spænsku og ensku. Aðeins eitt framlag þeirra hefur verið sungið alfarið á ensku, en það var árið 2016. Í ár er framlag þeirra mest megnis á spænsku með nokkrum matskeiðum af ensku.

Rúmenar bjóða okkur líka upp á einn bolla af spænsku, þar sem titill og viðlag rúmenska lagsins er á spænsku. Rúmenska og spænska eru reyndar frænkur, svo sá rúmenski er nú ekki að fara langt út fyrir þægindarammann.

Spænska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættinni, ásamt frönsku, ítölsku og portúgölsku. Spænska er eitt útbreiddasta tungumál í heimi en það er opinbert tungumál um 20 landa en meirihluti þeirra sem tala spænsku að móðurmáli koma frá Suður- og Mið-Ameríku. Tungumálið er talið vera annað mest talaða móðurmál heims, á eftir mandarísku. Á milli 470 og 500 milljónir einstaklinga tala spænsku að móðurmáli.

Slóvenska

Framlag Slóvena í ár verður tólfta lagið sem flutt er alfarið eða að hluta til á slóvensku síðan 1999. Slóvenía hóf þátttöku árið 1993 og hafði sungið á slóvensku fram að breytingum tungumálareglunnar og er þetta því sextánda skiptið sem framlag Slóvena er á móðurmálinu.

Slóvenska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir ætt slavneskra tungumála. Líkist það serbnesku, króatísku og bosnísku, en tilheyrir þó sinni eigin undirættkvísl. Slóvenska er opinbert tungumál Slóveníu ásamt því að vera talað á Ítalíu, Austurríki, Ungverjalandi og Króatíu en talið er að um 2,5 milljónir einstaklinga hafa það að móðurmáli.

Úkraínska

Framlag Úkraínu í ár er annað lagið í sögu Eurovision sem sungið hefði verið alfarið á úkraínsku, en lagið sem átti að keppa árið 2020 var þó einnig á því tungumáli enda flutt af sömu hljómsveit og framlag Úkraínu 2021. Tungumálið hefur þó heyrst nokkrum sinnum áður á Eurovision-sviðinu, í framlögum Úkraínu árin 20042005 og 2007. Einnig var partur af rússneska framlaginu árið 2009 á úkraínsku.

Úkraínska er indó-evrópskt tungumál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið þeirri austur-slavnesku. Tungumálið er opinbert tungumál í Úkraínu ásamt því að vera talað í mörgum löndum í austurhluta Evrópu, þar á meðal Hvíta-Rússlandi, Rúmeníu, Moldóvu, Ungverjalandi og Serbíu. Talið er að um 40 milljónir tali tungumálið.