Signore e signori! Ciao a tutti!
Júró-Gróa heilsar frá ítölsku alpaborginni Tórínó, með Lavazza espresso í annarri hendi og beittan pennann í hinni, tilbúin að færa ykkur glóðvolgt slúður úr júróbúbblunni! Glöggir lesendur taka eftir því að Gróan hefur breytt um ásýnd frá bleiku kollunni sem hún skartaði í Rotterdam í fyrra. Er eitthvað sem lýsir þorsta Eurovisionaðdáenda eftir slúðri betur en kampavínsþyrstur Damiano David frá Måneskin á blaðamannafundinum eftir sigur Ítala í Eurovision í fyrra? Svarið er nei, ekki neitt.
Ronela frá Albaníu hefur ekki átt sjö dagana sæla í Tórínó. Hún lenti í því eftir fyrstu æfinguna sína að EBU þurfti að fjarlægja mjög kynþokkafulla mynd af henni og dönsurunum í albanska atriðinu af Instagram því þau voru með hendurnar í klofinu. Abbabbabb! EBU ætlaði líka að stræka alveg á sviðsetningu Sekret því það ku hafa nánast verið orgía á sviðinu. Albanska sendinefndin hefur farið mikinn um ritskoðun EBU á atriðinu og nú hefur það fengist samþykkt að Ronela fái að hafa sviðsetninguna óbreytta. Í blaðamannahöllinni hefur verið um fátt annað rætt en að albanska sviðsetningin sé nokkurn veginn það sóðalegasta sem hefur sést á júrósviðinu. Achille Lauro, keppandi San Marínó, er eins og kaþólskur messudrengur við hliðina á Ronelu og dönsurunum hennar! Til að toppa þetta allt saman varð Ronela víst alveg brjáluð eftir 2. æfingu hér í höllinni í morgun því hljóðneminn virkaði ekki sem skyldi. Það eru naumast dívustælarnir!
Það er um fátt meira rætt en blessað sviðsklúðrið sem FÁSES greindi frá í gær, fyrstur íslenskra miðla. Einhver kallaði sólarsviðið skítamix en Gróan finnur hjartanlega til með öllum sem komu að hönnun og gerð sviðsins því þetta er eitt epískasta klúður í Eurovision fyrr og síðar. Hana rekur hreinlega ekki minni til þess að svona mistök hafi haft áhrif á næstum alla flytjendur Eurovision. Mikið er nú gott að þetta hefur engin áhrif á sviðsetningu Systra og Með hækkandi sól. Það er ljóst að Júró-Gróan okkar verður í fullri vinnu við að hughreysta keppendur sem ætluðu að nota LED skjáina hinum megin á sólarsviðinu!
Júró-Gróa fékk ansi skemmtileg skilaboð frá aðdáanda sínum í New York. Sá hafði verið að horfa á sjónvarpsþættina Flight Attendant á HBO, sem eiga að gerast á Íslandi, og rak í rogastans þegar hann heyrði lagið Ljósið með okkar einu sönnu Systur Elínu Ey. Við hvetjum ykkur til að hlusta á þetta frábæra lag Elínar en það var Pride lagið 2020.
Herregud! Hér var að berast mjög vafasamt, safaríkt slúður. Hinn eistneski Stefan og maltneska Emma Muscat hafa víst verið ansi náin í fyrirpartýjum Eurovision og svo virðist sem Stefán sé giftur! Lesendur Júró-Gróu verða að gefa henni smá svigrúm til að sannreyna þessa sögusagnir – kannski er Stefan bara í opnu hjónabandi, hver veit?