Ein Bißchen Frieden fjörutíu ára


Margir voru hissa á staðarvali Breta fyrir Eurovisionkeppnina 1982, en hún var haldin í smábænum Harrogate þann 24. apríl eða fyrir nákvæmlega 40 árum. Keppnin var haldin í Harrogate International Centre og kynnir var Jan Leeming. Aldrei hafði verið meira um ljós á sviðinu í Eurovison og var nútímablær á þessu sviði – allavega miðað við þennan tíma. Átján lönd tóku þátt í þessari keppni. Bæði Grikkir og Frakkar ætluðu líka að vera með en drógu sig úr keppni. Þetta er ein af tveimur keppnum þar sem Frakkar voru ekki með.

Finnar fengu núll stig í þriðja sinn þegar Kojo söng lagið Nuku Pommiin. Finnar hafa hins vegar verið lausir við núll stiga drauginn eftir þetta. Talandi um núll stig… Það gerðist í fyrsta sinn að maður sem áður hafði fengið núll stig keppti aftur. Það var norski öðlingurinn Jahn Teigen sem flutti lagið Adieu ásamt Anitu Skorgan. Hann hafði flutt lagið Mil Etter Mil í keppninni 1978 og gekk þá rakleitt í núllstiga klúbbinn. En í þetta sinn hlutu þau að launum 40 stig og tólfta sætið. Þau skötuhjú kepptu einnig í Eurovision ári síðar. Jahn flutti alls 16 lög í Norsk Melodi Grand Prix á árunum 1974-2005. Hann lést fyrir rúmlega tveimur árum síðan, sjötugur að aldri. Fleiri þekktar Eurovisionstjörnur kepptu þetta árið eins og Elisabeth Andreassen og Anna Vissi. Þær áttu það sameiginlegt að vera að keppa fyrir löndin sem þær fæddust í þarna, í hin skiptin kepptu þær fyrir landið sem þær hafa búið í lengstan hluta ævinnar. Elisabeth er fædd í Svíþjóð en hefur búið lengst af í Noregi. Anna fæddist á Kýpur en hefur lengst af búið á Grikklandi.

Í þriðja sæti í keppninni var Arlette Zola frá Sviss. Hún flutti lagið Amour on t´aime. Arlette Jaquet, eins og hún heitir í raun fæddist árið 1949. Arlette gerði tilaunir bæði 1984 og 1985 til að komast aftur í Eurovision, en hafði ekki erindi sem erfiði. Hún starfaði hinsvegar sem söngkona í yfir 40 ár, gaf síðast út lag árið 2009. Mörgum finnst byrjun lagsins Amour on t´aime  byrja eins og Kvöldsigling Gísla Helgasonar.

Næstefstur varð Avi Toledano frá Ísrael með lagið Hora. Á þessum árum varð dans meiri hluti af Eurovisionatriðum eins og sást í sigurlagi ársins áður, Making Your Mind Up. Ísraelar voru fremstir í flokki að nýta sér dans og gengu skrefi lengra heldur en breska lagið hafði gert. Avi fæddist í Marokkó  árið 1948 en fluttist sem flóttamaður til Ísrael þegar hann var 16 ára. Hann kom fyrst fram í söngvakeppni í Ísrael árið 1969 og var enn að koma fram áður en veiran skall á.

Þjóðverjar unnu Eurovision í fyrsta sinn 1982 og mjög örugglega. Þeir voru síðastir af stóru þjóðunum fimm til að vinna og tókst það í 26. tilraun. Það má segja að það hefði verið aðdragandi að sigrinum. Þjóðverjar urðu í 2. sæti bæði 1980 og 1981. Þetta var stærsti Eurovisionsigurinn til þessa, það er ef stigafjöldi lagsins er miðaður hlutfallslega við lagið sem varð í öðru sæti. Þetta met stóð þar til Alexander Rybak sló það árið 2009.

Nicole Seibert söng sigurlagið Ein Bißchen Frieden eða Smávegis friður. Nicole kom líka öllum á óvart þegar hún söng lagið aftur eftir að hafa unnið á fjórum tungumálum; þýsku, ensku, frönsku og hollensku við mikinn fögnuð viðstaddra. Lagið náði meðal annars efsta sæti breska vinsældarlistans og var reyndar lag númer 500 sem náði þeim árangri. Lagið er eftir Ralph Siegel og Bernd Meinunger. Siegel hefur samið fleiri Eurovisionlög en nokkur annar. Hann hefur samið framlög fyrir Þýskaland, Lúxemborg, Sviss, Svartfjallaland og San Marínó. Eurovisionlögin hans eru núna orðin 24 talsins. Ein Bißchen Frieden er hins vegar eina sigurlagið hans.

Lagið Ein Bißchen Frieden er einnig til í íslenskri útgáfu, heitir þá Ákall og er flutt af Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar. Jónbjörg Sesselja Eyjólfsdóttir samdi textann. Ákall kom upphaflega út á  plötunni Fjörðurinn okkar árið 2000 og síðar á Austfirskum staksteinum 2 árið 2003. Margar útgáfur þessa lags hafa hljómað undanfarið eftir að stríðið brast út í Úkraínu og sýnir að Ein Bißchen Frieden er enn vinsælt lag.