Móðir allra undankeppna Eurovision, sænska Melodifestivalen, fór fram í Friends Arena í Stokkhólmi laugardaginn 12. mars í viðurvist 27 þúsund áhorfenda. Cornelia Jakobs hafði verið á allra vörum í Svíþjóð vikurnar fyrir úrslitin, en hún var til þess að gera óþekkt fyrir rúmum mánuði. Hún söng sig inn í hjörtu þjóðar og alþjóðlegu dómnefndarinnar með áþreifanega sáru ástardrama sínu, Hold Me Closer, og sigraði að lokum – en það var alls ekki gefið að svo færi.
Sem fyrr var Melodifestivalen skipt i fjórar undankeppnir þar sem tvö af sjö lögum komust beint í úrslit en tvö lög úr hverri undankeppni fengu annað tækifæri í því sem áður var kallað „andra chansen“ (ísl: annað tækifæri) en er nú einfaldlega kallað undanúrslit. Er hér um að ræða eina af þeim breytingum sem nýir framleiðendur keppninnar komu á, en Christer Björkman, sem hefur verið framkvæmdastjóri keppninnar um árabil er horfinn til annarra starfa – nefnilega að koma á fót systurkeppni Eurovision; American Song Contest í Bandaríkjunum. Af þeim átta lögum sem kepptu í undanúrslitum komust fjögur áfram og þar með urðu keppendur í úrslitum alls 12 talsins.
Fyrri frægð er engin ávísun á gott gengi í Melodifestivalen. Fjölmargir þekktir flytjendur þurftu frá að hverfa og má þar helst nefna Omar Rudberg (m.a. þekktur fyrir leik í Netflix-þáttunum Young Royals), Lisu Miskovsky (vinsæl söngkona og lagahöfundur sem samdi m.a. lagið Shape of My Heart fyrir Backstreet Boys), Lindu Bengtzing (söng nokkur af vinsælustu svokölluðu schlagerum Svíþjóðar á fyrsta áratug þessarar aldar, t.d. Jag ljuger så bra og Alla flickor), Lisu Ajax (vann Idol 2014 og hefur keppt tvisvar í Melodifestivalen) og Shirley Clamp (sem keppti í sjöunda sinn).
Vel þekkt nöfn komu þó vissulega við sögu í úrslitunum og voru fyrrum sigurvegarar alls þrír talsins: Anna Bergendahl (This Is My Life – 2010), Robin Bengtson (I Can‘t Go On – 2017) og John Lundvik (Too Late for Love – 2019). Aðrir vel þekktir flytjendur voru Theoz (samfélagsmiðlastjarna), Tone Sekelius (þekkt fyrir förðunarmyndbönd á Youtube), Liamoo (sigurvegari Idol 2016), Medina (vinsælir hip-hop listamenn) og Klara Hammarström (keppti í þriðja sinn).
Sá allra vinsælasti fyrir keppni var þó Anders Bagge. Hann er Svíum mjög vel kunnur sem dómari í Idol en í grunninn er hann lagahöfundur sem meðal annars hefur samið fyrir Madonnu, Jennifer Lopez, Janet Jackson, Santana, 98 Degrees, Celiné Dion og Enrique Iglesias.
Bagge þessi þykir hafa afar mjúkan og viðkunnalegan persónuleika en nýlega kom fram að hann hafi alla tíð þjáðst af miklum sviðsskrekk og slæmu sjálfstrausti, sem hafi orðið til þess að hann hafi aldrei þorað að syngja sín eigin lög. Hann lét loks vaða í þáttunum Masked Singer Sverige í fyrra, falinn í bjarnarbúningi, og varð þar öllum ljóst að Bagge hafði stórkostlega söngrödd að geyma. Hann var merkjanlega stressaður þegar hann steig á svið í undankeppni Melodifestivalen og tilfinningarnar báru hann ofurliði þegar tilkynnt var að hann kæmist beint í úrslitakeppnina. Þegar hljóðnemanum var beint að honum grét hann og kom bara frá sér orðunum „en ég hef ekkert sjálfstraust“. Það var varla þurrt auga í Svíþjóð og flestir greinendur voru sammála um að Bagge væri sá sem myndi vinna ef hjörtu þjóðarinnar réðu ein.
Hvað Corneliu Jakobs varðar var staðan allt önnur. Hún er dóttir nokkuð þekkts tónlistarmanns (Jakob Samuel, söngvari hljómsveitarinnar The Poodles sem kepptu í Mello 2006) en hefur hingað til ekki tekist að fanga athygli almennings þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Hún hafði keppt tvisvar í Melodifestivalen með hljómsveitinni Love Generation (Dance Alone 2011 og Just A Little Bit 2012) en hvorugt laganna komst í úrslit og hljómsveitin vakti litla athygli og féll í gleymsku. Cornelia hafði einnig reynt fyrir sér í Idol árið 2008 og hitti þar fyrir Anders sjálfan Bagge. Hann mun ekki hafa verið svo sjarmerandi þann daginn því hann sagði henni að hún væri galin, ekki á góðan hátt, og væri ekki eins góð og hún héldi. Að sögn Corneliu hafði gagnrýnin mjög slæm áhrif á hana og segist hún ekki hafa þorað að spila á gítar í 10 ár eftir atvikið. En sjálfsvinnan hefur greinilega skilað árangri því þegar hún birtist á sviðinu í fyrstu undankeppninni urðu flestir strax sammála um að þarna væri kominn einn af efnilegustu flytjendum í Melodifestivalen um langt skeið. Var jafnvel talað um að hún hefði Loreen-faktorinn. Hún hlaut flest atkvæði og flaug í úrslit.
Á úrslitakvöldinu voru það svo samanlögð stig alþjóðlegra dómnefnda sem giltu til helmings á móti stigum frá áhorfendum, líkt og í Eurovision. Cornelia var örugg i fyrsta sæti hjá alþjóðlegu dómnefndunum þar sem fjögur af átta löndum gáfu henni 12 stig. Fékk hún samtals 76 stig þar. Liamoo fékk næstflest stig frá dómnefndum og þar á eftir komu Medina. Vinsældir Bagge heima fyrir skiluðu honum litlu hjá alþjóðlegu dómnefndunum; hann lenti í sjötta sæti með 31 stig. Spennan var því rafmögnuð þegar kom að því að hlýða á stigin frá áhorfendum. Kom þar í ljós, eins og margir höfðu búist við, að Anders Bagge var vinsælastur hjá þjóðinni og hlaut 90 stig. Það dugði þó ekki til að bæta upp fyrir lakan árangur hjá alþjóðlegu dómnefndunum. Cornelia þurfti einungis 46 stig til að ná fram úr honum en gerði gott betur en það, var í öðru sæti hjá áhorfendum með 70 stig og endaði því með 146 stig, 25 stigum meira en Bagge. Það voru svo Medina og Klara Hammarström sem deildu 3. sætinu hvað hylli áhorfenda varðar.
Lokaúrslit urðu eftirfarandi:
1. Hold Me Closer – Cornelia Jakobs (146 stig)
2. Bigger Than The Universe – Anders Bagge (121 stig)
3. In i dimman – Medina (109 stig)
4. Bluffin – Liamoo (91 stig)
5. My Way – Tone Sekelius (84 stig)
6. Run To The Hills – Klara Hammarström (83 stig)
7. Som du vill – Theoz (65 stig)
8. Änglavakt – John Lundvik (60 stig)
9. I Can’t Get Enough – Cazzi Opeia (55 stig)
10. Freedom – Faith Kakembo (51 stig)
11. Innocent Love – Robin Bengtson (34 stig)
12. Higher Power – Anna Bergendahl (29 stig)
Lagið Hold Me Closer er skrifað af Corneliu sjálfri ásamt David Zandén og Isu Molin. Sú síðastnefnda á ekki langt að sækja lagasmíðahæfileikana því hún er dóttir goðsagnarinnar Bobby Ljunggren sem hefur átt tugi laga í Melodifestivalen, þar af fimm sigurlög (This Is My Life 20210, Hero 2008, Evighet/Invincible 2006, Kärleken är 1998, Se på mig 1995). Hold Me Closer fjallar um sorgina sem fylgir því að þurfa að gefa stóru ást lífsins upp á bátinn og af öllu að dæma hefur tilfnningaþrunginn flutningur Corneliu stungist eins og rýtingur í hjörtu áhorfenda. Yfirbragð atriðisins er einfalt og þótt hver hreyfing sé eflaust skipulögð tekst aðstandendum lagsins að skapa einlægni sem oft hverfur í ofgnótt brellna og glimmers í Melodifestivalen.
Oscar Zia var kynnir Melodifestivalen í ár en hann hefur þrisvar keppt sjálfur, bæði einn og með öðrum (Jalla Dansa Sawa 2013, Yes We Can 2014 og Human 2016). Gengið hefur verið bæði gott og slæmt en það var ekki fyrr en hann hóf að syngja á sænsku, trúr sínum skánska hreim, sem stjarna hans fór að rísa fyrir alvöru. Nýtur hann í dag mikilla vinsælda, ekki síst á meðal ungs fólks. Keppnin í ár byrjaði brösulega. Nýir framleiðendur höfðu stokkað upp kosningakerfið og voru atkvæði frá áhorfendum sem höfðu kosið í Melodifestival-appinu kynnt fyrir einn aldurshóp í einu og samkvæmt 12-stiga kerfi Eurovision. Það fór þó allt í kleinu í fyrstu undankeppninni og þótti Oscar sjálfur ekki komast sérstaklega vel frá klúðrinu. Framleiðendur hafa þó unnið vel úr því og gert grín af sjálfum sér. Ítalskur bakgrunnur Oscars kom einnig mikið við sögu og Mello-syrpa á ítölsku, Mello Italiana, er nokkuð sem hægt er að mæla með fyrir unnendur ítalskrar tungu.
Svíar eru sú þjóð sem hafa unnið Eurovision næstoftast og vantar bara einn sigur til þess að jafna met Íra, sem hafa unnið sjö sinnum. Veðbankar spá Svíþjóð nú þegar einu af efstu sætunum og möguleikinn er því til staðar fyrir Corneliu að færa Svíum mikilvægasta sigurinn í langan tíma.