Sigga, Beta og Elín sigra Söngvakeppnina 2022


Stórglæsileg úrslit Söngvakeppninnar 2022 fóru fram í RVK Studios í Gufunesi í gær og þvílíka glæsilega keppnin sem það var! FÁSES-liðar flykktu liði í Júrókrús fyrir keppnina og sigldu seglum þöndum úr Reykjavíkurhöfn yfir í Gufunesið í blíðskaparveðri undir taktföstum tónum skemmtiskipstjórans, fjöllistadísarinnar og Eurovision aðdáandans Margrétar Erlu Maack. Eftir úrslitin var síðan haldið með langferðabíl að Bryggjunni Steikhúsi þar sem eftirpartý FÁSES, Júróklúbburinn, var haldinn. Þar stigu margir keppenda Söngvakeppninnar á stokk og kunnum við Sönnu Martinez, Haffa Haff, Stefáni Óla, Ísold og Má og Siggu, Betu og Elínu bestu þakkir fyrir. Tusse lét líka sjá sig á Júróklúbbnum og öllum að óvörum óskaði hann eftir að troða upp. Það er ekki ofsögum sagt að hver einasti kjaftur á Bryggjunni hafi tekið undir þegar kappinn steig á stokk og söng Voices.

Margir skörtuðu úkraínska og íslenska fánanum. Mynd: Mbl.is/Eggert

En aftur að máli málanna. Það vakti athygli að í úrslitum í ár hafi meirihluti laga verið fluttur á íslensku, þ.e. þrjú af fimm voru alfarið á móðurmálinu. Einnig vakti mikill fjöldi kvenflytjenda athygli en tveir karlar og hvorki meira né minna en ellefu konur stig á stokk. Þvílíkt girlpower kvöld! Það má líka segja að fjölskyldustraumar hafi legið í loftinu; Katla talaði svo fallega um látinn föður sinn, tónlistarmanninn Njál Þórðarson í Landi og sonum, Amorosis er að sjálfsögðu dúett systkina, Reykjavíkurdætur birtust í sínu myndskeiði með börnin sín og gæludýrin, Stefán Hilmarsson, pabbi lagahöfundarins Birgis Steins, dúkkaði upp í prófilnum hjá Stefáni Óla og Eyþór Gunnarsson og Ellen Kristjánsdóttir foreldrar Siggu, Betu og Elínar voru með þeim í þeirra viðtali. Söngvakeppnin er sko sannkölluð skemmtun fyrir alla fjölskylduna! Já og alla hina því það vakti mikla athygli meðal Eurovisionaðdáenda þegar Matti úr Hatara dúkkaði upp í byrjun útsendingar í sérfræðingaviðtali við Gísla Martein um fána.

En þá að smáa letrinu. Dómnefndin var alþjóðleg og var skipuð Ragnheiði Gröndal, söngkonu, Sóleyju Stefánsdóttur tónlistarkonu, Daða Frey, Tusse, Barry Van Corneval tónleikahaldara Eurovision in concert í Hollandi, Stig Karlsen yfirframleiðandi hjá NRK í Noregi og Heidi Välkkilä, markaðsstjóra hjá Yle (finnska RÚV).  Dómnefndin hafði helmingsvægi gagnvart símakosningu almennings í fyrri kosningu kvöldsins. Eftir þá kosningu fóru tvö efstu lögin í einvígi eins og við þekkjum en þá var aðeins hægt að greiða atkvæði með símakosningu á milli þeirra laga. Lögin tvö héldu þó þeim atkvæðum sem þau fengu í fyrri kosningunni, frá dómnefnd og símakosningu áhorfenda. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að stigahæsta lag kvöldsins muni verða framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni sem haldin verður á Ítalíu í maí.

Í einvígið komust Reykjavíkurdætur með lagið Turn This Around og Sigga, Beta og Elín með lagið Með hækkandi sól. Það voru svo sannarlega dætur gegn systrum!

Niðurstaða seinni kosningar leiddi í ljós að Sigga, Beta og Elín höfðu betur gegn Reykjarvíkurdætrum og samkvæmt heimildum FÁSES.is reyndist það afgerandi sigur. Það verður því Með hækkandi sól sem verður Eurovision framlag Íslands í maí.

Daði Freyr kom fram með gítarleikaranum Pétri Karli og trommaranum Ylvu en nafnlausa bandið hefur verið að spila saman eftir frækna för Daða í Eurovision. Þau fluttu nýtt lag, Thank You og sögðu gárungar á fuglaforritinu það vera hans besta lag til þessa og síðan sigurlag Söngvakepninnar 2021, 10 years.

Mynd: Mummi Lú.

Eins og flestir vita komust Go_A ekki til landsins til að skemmta á Söngvakeppninni vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Eftir því sem við komumst næst hefur Kateryna náð að flýja Úkraínu til Póllands en strákarnir í bandinu hafa gengið í herinn. Tusse, sigurvegari Melodifestivalen 2021, var því fenginn til að fylla skarð Go_A með laginu sínu Voices. Tusse flúði 8 ára gamall frá Kongó til Svíþjóðar svo hann á eflaust auðvelt með að setja sig í spor þeirra sem nú flýtja stríðsátök í Úkraínu. Og það er ekkert meira viðeigandi en að flytja lag sem fjallar um frelsi, bræðralag og að stöðva hatur á þessum erfiðu tímum.

Tusse á sviði Söngvakeppninnar 2022 (mynd Ástríður Magrét Eymundsdóttir).

Tusse á Júróklúbbnum, eftirpartýi FÁSES (mynd Hildur Tryggvadóttir Flóvenz).

Mynd: Mummi Lú.

Þá er bara að einblína á ferðalagið til Tórínó! Við heyrðum í hlaðvarpinu Með Söngvakeppnina á heilanum að þetta verður spretthlaup að skila öllum upplýsingum um sigurlagið, myndvinnslu og atriðið í tæka tíð til EBU núna eftir helgina. En ef það er eitthvað sem við erum viss um að þá er það að snillingarnir á RÚV munu tækla það eins og önnur verkefni. Þá er ekkert eftir nema segja buona fortuna Sigga, Beta og Elín!

Forsíðumynd er af Söngvakeppnisvef RÚV og var tekin af Mumma Lú.