Ansans og ansans. Nú má með sanni segja að ritstjórn FÁSES hafi aðeins gert upp á bak, því í öllu havaríinu sem fylgt hefur seinustu vikum, þá fórst fyrir að fjalla um áströlsku forkeppnina Eurovision: Australia Decides, sem fram fór Gullströndinni þann 26 febrúar sl. Okkur er afskaplega hlýtt til Ástrala og þeim til okkar, svo við erum alveg miður okkar og vonum að sigurvegari keppninnar, hann Sheldon Riley muni ekki erfa þetta við okkur mjög lengi, en hann vann nauman en þó traustan sigur og mun því flytja tilfinningaríku ballöðuna Not The Same í Tórínó.
Það er alltaf gaman að fylgjast með Áströlum, og sérstaklega fannst fréttaritara, sem og öðrum FÁSES-liðum, alveg einstaklega ljúft að geta horft á forkeppni þeirra þennan laugardag með morgunkaffinu, og ná samt hádegisfréttunum á eftir. Ellefu lög mættu til leiks þetta kvöld og mátti sjá kunnuleg andlit innan um og saman við. Þarna var t.a.m. mætt Jaguar Jonze sem hefur unnið sér stóran og mikinn sess í hjörtum júróaðdáenda víðsvegar um heim, sem og Isaiah Firebrace, sem svo eftirminnilega fór „aðeins“ út af laginu, þegar hann keppti í Kænugarði um árið. Í aðdraganda keppninnar var nokkuð ljóst hverjir myndu bítast um efstu sætin, en Sheldon var nánast frá byrjun spáð sigri. En hann var þó með harða samkeppni í bæði Jaguar Jonze og rokksveitinni Voyager, sem eru hrikalega vinsæl í Ástralíu, eru eiginlega þeirra DIMMA ef við miðum við eitthvað íslenskt.
Eins og venjulega var kosningin tvískipt. Annarsvegar hrein símakosning og hinsvegar stig fimm manna dómnefndar sem m.a. var skipuð Alexöndru Rotan úr KEiiNO, en sveitin var einmitt á tónleikaferðalagi um Ástralíu og tróð upp á keppninni. Það var örlítið misræmi milli dómnefndar og almennings. Sheldon vann hvorki dómnefndarkosninguna né símakosninguna, þó keppnin væri alveg gallhörð milli hans og Jaguar. Dómnefndin var ívið hrifnari af Jaguar og laginu hennar Little Fires, en hún fékk 51 stig en Sheldon 50. Voyager varð svo í 3. sæti með 37 stig. En ástralskur almenningur var hinsvegar alveg á Voyager vagninum, en þar hlaut sveitin 60 stig, Sheldon 50 en Jaguar varð að láta sér lynda 4. sætið með 40 stig. En það er samanlagður stigafjöldi sem gildir og því var það Sheldon sem hampaði sigri með 100 stig í lok kvölds.
Voyager og Dreamer urðu í 2. sæti með samtals 97 stig.
Jaguar Jonze og Little Fires urðu í 3.sæti með samtals 91 stig.
Sheldon Riley er fæddur í Sidney árið 1999 og er einmitt afmælisstrákur dagsins þegar þessi pistill er skrifaður (14. mars). Hann segir uppvöxt sinn ekki hafa verið auðveldan, þar sem hann kemur úr mjög trúaðri og kirkjurækinni fjölskyldu, og þar var víst ekki mikið pláss fyrir þá sem voru „öðruvísi.“ Í kringum 7 ára aldurinn, var Sheldon greindur með Asperger-heilkennið, en hin ofurtrúaða fjölskylda hans átti mjög erfitt með að meðtaka svo „vísindalega“ útskýringu á hegðun og atferli Sheldon, sem hafði fram að því verið talinn trú um að hann myndi aldrei geta talað eða tjáð sig almennilega. En innst inni vissi hann sjálfur að það var eitthvað annað sem hélt aftur af honum. „Um leið og ég kom út úr skápnum og fagnaði því hver ég er, gerði ég mér um leið grein fyrir því að ég var fullfær um að tala og tjá mig. Ég hafði bara aldrei þorað því!“ sagði hann í viðtali fyrir keppnina. Í kjölfarið fór hann að syngja og vakti snemma athygli fyrir sterka og hljómfagra tenórrödd sína. Not The Same er samið af Sheldon sjálfum, í samstarfi við Cam Nacson og Timi Temple og segir sögu hans í gegnum lífið. Þetta er því meira en bara lag, þetta er persónuleg vegferð fyrir Sheldon Riley, sem er löngu hættur að fela sig og tjáir sig nú í gegnum dramatískan en um leið gullfallegan söng og er svo sannarlega búinn að finna sig í lífinu.
Í fyrra voru Ástralir ekki einu sinni á staðnum og söngkonan Montaigne náði ekki upp í aðalkeppnina í Rotterdam. Nú er útlit fyrir að þjóðin sigli seglum þöndum til Tórínó og vonandi nær Sheldon að koma Ástralíu aftur í aðalkeppnina með Not The Same. Bíðum spennt og áfram Sheldon!