Nær Marius Bear að halda velgengi Svisslendinga áfram?


Eins og síðustu ár voru Svisslendingar ekki með neina söngvakeppni til að velja lagið sitt í Eurovision. Að þessu sinni voru það annars vegar 100 svissneskir áhorfendur og hins vegar 20 evrópskir Eurovision sérfræðingar sem völdu lag og flytjanda. Þessir tveir hópar höfðu jafnt vægi.  Fyrir valinu varð Marius Bear sem flytur lagið Boys Do Cry og voru herlegheitin opinberuð 8. mars síðastliðinn. Lagið er eftir Marius og Martin Gallop. Marius segir lagið fjallað um að allir finni fyrir sársauka og séu karlmenn þar ekki undanskildir. Lagið fjallar um það að fólk eigi ekki að láta tilfinningar sínar afskiptalausar og ekki síður eigum við að hvetja hvort annað til að tjá okkur um það hvernig okkur líður. Bear segist hafa lært það snemma að hann eigi ekki að skammast sín fyrir það hvernig honum líður. Sem karlmaður sé hann ekki hræddur við að gráta eða sýna áhorfendum veikleika sína. Hann vill koma til dyranna eins og hann er klæddur og hvetur aðra til þess sama.

Marius Bear eða Marius Hüglier eins og hann heitir er 28 ára frá Enggenhütten í Schlatt-Haslen. Hann er lærður vélvirki en starfar alfarið við tónlist í dag. Marius hefur verið að læra tónlistarframleiðslu við Birtish and Irish Modern Music Institute. Hann gaf út fyrstu plötuna sína, Sanity árið 2018 og ári síðar kom út platan Not Loud Enough. Fyrir hana vann hann hæfileikaverðlaun á svissnesku tónlistarverðlaununum. Árið 2020 gaf hann út lagið I Wanna Dance with Somebody sem Whitney Houston gerði vinsælt á níunda áratugnum. Laginu hefur verið streymt meira en 3,5 milljón sinnum á Spotify, en þessi útgáfa er ansi ólík þeirri upprunalegu.

Marius mun keppa í fyrri undankeppninni í Tórínó þann 10. maí næstkomandi. Svisslendingar eru með þeim þjóðum sem oftast hafa keppt í Eurovision og hafa aðeins fjórum sinnum ekki verið með. Sigrarnir eru samt aðeins tveir og orðið langt síðan síðast, en þeir unnu keppnina 1956 og 1988. Síðan undankeppnisfyrirkomulagið var tekið upp árið 2004 hafa Svisslendingar aðeins sex sinnum komist í úrslitin. Hins vegar hefur þeim gengið mjög vel í síðustu tveimur keppnum. Luca Hänni varð í fjórða sæti árið 2019 og Gjon´s Tears varð í þriðja sæti í fyrra, vann meðal annars dómnefndaratkvæðin. Nú er að sjá hvort velgengnin haldi áfram með Mariusi.