Kýpverjar eru sú þjóð sem oftast hefur tekið þátt í Eurovision án þess að landa sigri. Við Íslendingar skiljum því vel að það hafi verið mikið svekkelsi þegar Eleni Foureira laut í lægra haldi fyrir Nettu árið 2018 og fór heim með silfrið. Það var þó besti árangur landsins frá upphafi og það má segja að Fuego hafi tendrað ákveðið bál í Kýpverjum, sem hafa ríghaldið í uppskriftina að miðjarðarhafssmellum síðan þá.
Framlag ársins í ár kemur einmitt frá sama höfundi og Fuego, hinum sænsk-gríska Alex P, sem einnig samdi lögin Replay (Kýpur 2019), La La Love (Kýpur 2012), Always (Aserbaídsjan 2009) og Yassou Maria (Grikkland 2006), auk þess sem hann hefur samið lög fyrir Helenu Paparizou, Önnu Vissi, Jennifer Lopez, Enrique Iglesias og marga fleiri.
Lagið heitir Ela og er flutt af hinni 27 ára Andromache sem kemur frá Grikklandi. Hún kom fyrst fram á sjónarsviðið í keppninni The Voice of Greece árið 2015 en gekk hins vegar ekki sérstaklega vel. Tveimur árum síðar gaf hún út sitt fyrsta lag en það var fyrst árið 2019 með laginu Na soum psema sem hún fékk sinn fyrsta stóra smell. Andromache var valin til þátttöku í Eurovision í lokuðu ferli hjá kýpverska ríkissjónvarpinu, CBC, og er án efa um stórt skref í ferli hennar að ræða. Það má með sanni segja að lagið sé seiðandi. Þótt aðeins hægi á taktinum á milli ára þá hitnar vel í kolunum í viðlaginu og hugur leitar í heita sumarnótt á suðrænni strönd.
Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem framlag Kýpur ber þennan (eða því sem næst sama) titil en fyrir 17 árum keppti Constantinos Cristoforou með lagi sem reyndar hét Ela ela. Ela er enda mikið notað orð í grísku; hefur margþætta merkingu og er oftast notað til að segja ”komdu nú” en einnig þegar svarað er í síma (dæmi: Ela? Is it God?).
Fyrir Fuego (2018) höfðu Kýpverjar átt sinn versta áratug í keppninni, og rúmlega það, þar sem þeir komust einungis einu sinni í eitt af 20 efstu sætunum (La La Love 2012). Tamta og Elena sem á eftir fylgdu komust ekki með tærnar þar sem Foureira hafði pinnahælana, en lönduðu þó 13. og 16. sæti. Vinir okkar í hinum enda álfunnar binda eflaust miklar vonir við að árangur Andromache verði í það minnsta jafn góður, og við, sem önnur sigurlaus þjóð, óskum þeim auðvitað alls hins besta!